Skúli Magnússon
Skúli Magnússon
Eftir Skúla Magnússon: "Sauðamjólk og feitt sauðasmjör mátti nota til matar og viðgerðar á skipi ef á þurfti að halda."

Hauksbók Landnámu getur þess að Hrafna Flóki hafi haldið skipi sínu í Smjörsundi í Noregi, en þaðan hélt hann til Íslands. Flóki hafði hina fyrri vetursetu í Vatnsfirði eftir komu hingað. Aldursgreining á leifum þaðan hefur sýnt að þær eru frá því nokkru eftir miðja níundu öld, frá u.þ.b. 860. Smjörsund var trúlega legustaður skipa þar sem þau voru „skveruð af“, skrokkur skipanna þéttur með sauðaull og smurður með tólg og biki síðar, er það fór að flytjast inn til Noregs.

Líklegt er að örnefnið Smjörsund sé dregið af þessari iðju víkinga fremur en smjöri úr mjólk sem tíðkaðist upp til fjalla. Nokkur munur var því á merkingu smjörörnefna við sjó og inn til dala. Þó hafa staðhættir ráðið hér, því skepnuhald hefur tíðkast við sjó og smjörgerð þar með. En nokkur munur var þó á smjöri úr sauðamjólk og kúamjólk. Sauðasmjörið var mun feitara en kúasmjörið og sauðahald til smjörgerðar er talið írsk arfleifð, en smjörgerð frá kúm tíðkaðist í Noregi. Flóki hafði að sögn Landnámu fénað á skipi sínu og því sauðamjólk og feitt sauðasmjör er mátti nota til matar og viðgerðar á skipinu ef á þurfti að halda. Öll víkingaskip voru á dögum Flóka og Ingólfs súðbyrðingar og gátu sprungið á siglingu. Handhægt gat því verið að hafa feitt smjör til að troða í sprungur og göt á siglingum. Sauðaull var líka notað sem þétting á milli borða á súðbyrtu víkingaskipunum. Það sýna leifar skips úr haugi Ásu drottningar í Noregi sem nú er geymt á víkingasafninu í Osló.

Það kom sér því vel fyrir Flóka að hafa sauðfé með í ferðinni hér til lands um 860 eins og Landnáma getur um. Ullina mátti nota til að þétta byrðing skipsins. Raunar var ull notuð til þéttingar á árabátum hér á landi í lok 19. aldar þrátt fyrir innfluttan hamp sem fékkst hér í verslunum og var kominn langt að. Sama var um bikið. Það mátti drýgja með uxafeiti og smyrja á byrðinga skipa.

Árið 1519 notaði Magellan sæfari uxafeiti á skip sín í hnattferð sinni í Brasilíu. Þar gagnaðist uxafeiti betur í hitanum en bikið sem bráðnaði og losnaði frá viðnum. Um 1890 lét séra Þórarinn Böðvarsson í Görðum bera uxafeiti utan á þilskip sitt, sem hér Svend, gamalt og lekt, þar sem það stóð uppi í fjöru í Hafnarfirði en skipið gekk þá til fiskveiða þaðan. Um borð var Sveinbjörn Egilsson og lýsir hann þessu í endurminningum sínum. Notaði séra Þórarinn sér sömu aðferð og Magellan hafði gert 400 árum fyrr í Brasilíu. Er gerð smjörlíkis hófst í Danmörku 1880, var uxafeitin aðalhráefnið í smjörlíkinu. Því var það borið á möstur og þiljur á íslensku kútterunum eftir að það var farið að þrána í geymslum í lúkarnum.

Floti var smurt á glugga hússins nr. 33 við Suðurgötu í Keflavík við smíði þess 1933. Eru þeir gluggar á suðurhlið og alheilir í dag. Svo sagði mér Bjarni Stefánsson bílaviðgerðarmaður sumarið 2011, en hann hafði um árabil átt húsið og búið þar. Bjarni dó haustið 2015.

Höfundur er sagnfræðingur.