Ágúst Ingi Jónsson Benedikt Bóas „Mér sýnist að magnið sé um einn fjórði og verðmætið um einn þriðji,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Íslensk skip fá að veiða 100.

Ágúst Ingi Jónsson

Benedikt Bóas

„Mér sýnist að magnið sé um einn fjórði og verðmætið um einn þriðji,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Íslensk skip fá að veiða 100.315 tonn af loðnu en tilkynnt var um heildaraflamark á loðnuvertíðinni í gær og má veiða 173 þúsund tonn. Það er mikill samdráttur frá árinu á undan þegar Íslendingar veiddu um 400 þúsund tonn á fiskveiðiárinu. Þá var kílóverð á loðnu um 80 krónur og fengust því um og yfir 30 milljarðar. Í ár er hins vegar búist við að kílóverð verði hærra eða um 100-120 krónur á kíló sem gæti skilað um 12 milljörðum. Samdrátturinn getur því hlaupið á tugmilljörðum á milli ára.

„Þetta eru auðvitað vonbrigði en er þó eitthvað,“ segir Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Sigurgeir er ekki sáttur með að aflinn skuli vera svona lítill og furðar sig á því hvers vegna Norðmenn fái svona mikið. „Það verður að segjast eins og er að þetta eru vonbrigði. Við vonuðumst eftir meira en þessu. 100 þúsund tonn er mjög lítið,“ segir hann. Rúm 45 þúsund tonn koma í hlut Norðmanna, Færeyingar fá 8.650 tonn og Grænlendingar mega veiða 19.030 tonn skv. samningum.

Loðnuvertíð
» Heildaraflamark verður 173 þúsund tonn.
» Íslendingar fá 100.315 tonn.
» 150 þúsund tonn skilin eftir til hrygningar.
» Fyrir og um aldamótin var aflinn um milljón tonn.