Helga Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík 9. október 1946. Hún lést 16. janúar 2016.

Foreldrar hennar voru Kristrún Hreiðarsdóttir úr Mosfellssveit og Magnús Pálsson úr Reykjavík. Systkini Helgu eru Guðfinna, f. 1948, Sigríður Vilborg, f. 1951, og Páll Kristrúnar, f. 1960.

Helga giftist árið 1966 Svavari Gunnþórssyni, f. 15. nóvember 1926 frá Hreimsstöðum í Hjaltastaðaþinghá. Synir þeirra eru: a) Borgþór, f. 5.11. 1966, í sambúð með Huldu Sigurdísi Þráinsdóttur. Dóttir þeirra er Eva Pálína, f. 2004. Fyrri sambýliskona Borgþórs er Ingibjörg Ragnarsdóttir. Þeirra börn eru Ragnar Helgi, f. 1985, og Kristrún Anna, f. 1994. b) Magnús Rúnar, f. 27.8. 1968, í sambúð með Sigurbjörgu Rögnu Arnarsdóttur. Börn Sigurbjargar eru Arna Ósk, f. 1991, Sindri Snær, f. 1996, og Lovísa Ösp, f. 2001 c) Kristján Hreiðar, f. 1.4. 1970, kvæntur Lindu Björk Svavarsdóttur. Börn þeirra eru Svavar Páll, f. 1998, og Aðalheiður Ósk, f. 2000. d) Jóhann Páll, f. 29.10. 1978, í sambúð með Sólrúnu Víkingsdóttur.

Helga og Svavar bjuggu á Hreimsstöðum til ársins 1996. Með heimilisstörfum og búskap vann Helga við Barnaskólann á Eiðum frá 1984 til 1996, en það ár fluttu þau hjón í Egilsstaði. Helga söng lengi vel í kirkjukór Hjaltastaðakirkju ásamt Svavari og var í sóknarnefnd Hjaltastaðasóknar. Einnig tók hún virkan þátt í störfum kvenfélagsins Bjarkar. Helga var kosin í hreppsnefnd árið 1982, en þar sat hún í fjölda ára. Hún mun vera eina konan sem setið hefur í hreppsnefnd í Hjaltastaðaþinghá. Eftir að þau hjónin fluttu í Egilsstaði starfaði Helga við umönnun fatlaðra allt þar til hún varð að hætta störfum vegna heilsubrests. Í byrjun síðasta árs dvaldi Helga um tíma á sjúkrahúsinu á Seyðisfirði en fluttist síðan á hjúkrunarheimilið Dyngju á Egilsstöðum þar sem hún lést aðfaranótt 16. janúar síðastliðins.

Útför Helgu fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 23. janúar 2016, klukkan 11.

Sérhver draumur lifir aðeins eina nótt

sérhver alda rís en hnígur jafnan skjótt

hverju orði fylgir þögn

og þögnin hverfur alltof fljótt.

En þó að augnablikið aldrei fylli stund

skaltu eiga við það mikilvægan fund

því að tár sem þerrað burt

aldrei nær að græða grund.

Líttu sérhvert sólarlag,

sem þitt hinsta væri það.

Því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að.

Þú veist að tímans köldu fjötra enginn flýr

enginn frá hans löngu glímu aftur snýr.

Því skaltu fanga þessa stund

því fegurðin í henni býr.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Borgþór, Hulda og

Eva Pálína.

Frá Hreims- við ömmu Helgu -stöð um

helgum þessa stöku

hvað heima í fuglum heyrist glöðum

hressir þig við vöku.

Sjá, ég sendi engil á undan þér

til að varðveita þig á ferðinni og

leiða þig til staðar sem ég hef fyrir búið

Þú og ég þökkum fyrir góðar stundir

hvert stöku bros frá vini eða barni

þú geymir þær sem glitský þar sem fundir

í gleði sinni spinna sól á hjarni.

Aðalheiður Ósk

Kristjánsdóttir.

Í mínum hug er það sumarið sem minnir mig alltaf á þig, kæra systir. Þess vegna á það svo vel við að kveðja þig núna um hávetur.

Ég var níu ára þegar segja má að ég hafi fyrir alvöru kynnst Helgu systur minni, sem bjó þá ásamt manni sínum Svavari Gunnþórssyni á bænum Hreimsstöðum í Hjaltastaðaþinghá. Mér bauðst að vera hjá þeim sumarlangt og var mér strákgemlingnum tekið opnum örmum og hlúð að mér með skilningi, þolinmæði og kærleika. Hjá þeim lærði ég nýtt tungumál, austfirsku, og að lesa í náttúruna sem var svo stórkostleg allt í kring. Helga var natin við að sýna mér það helsta sem sveitin hafði upp á að bjóða, kenndi mér nöfn fugla og blóma, kynnti mig fyrir fjöllum og ásum. Þau urðu allmörg sumrin sem ég naut samvista með þeim og strákunum þeirra, Borgþóri, Magnúsi Rúnari, Kristjáni Hreiðari og síðast Jóhanni Páli.

Eftir að ég kynntist eiginkonu minni Elfu Dröfn Ingólfsdóttur og stofnaði mína eigin fjölskyldu fórum við nær því á hverju ári austur á Hreimsstaði og nutum síðan gestrisni þeirra áfram eftir að þau fluttu á Egilsstaði. Alla tíð hefur mér fundist ég tilheyra fjölskyldu þeirra, kannski bara eins og einn af strákunum hennar Helgu.

Kæra Helga, í hvert sinn sem vorar leitar hugur minn austur til þín. Sumarið, fuglarnir og blómin munu ætíð minna mig á þig og í draumum mínum hittumst við og skröfum saman um liðna tíð og ævarandi kærleika.

Takk fyrir allt og allt.

Þinn bróðir,

Páll Kristrúnar.

Mig langar með fáeinum orðum að kveðja Helgu Magnúsdóttur mágkonu mína, stóru systur Páls Kristrúnars mannsins míns.

Við kynntumst fyrst þegar við Palli fórum austur á Hreimsstaði í heimsókn til Helgu, Svavars og strákanna, líklegast sumarið 1983. Palli er almennt ekki margmáll maður en ég held að í þessari ferð hafi hann hafi ekki samkjaftað alla leiðina, spenningurinn var svo mikill og lýsingarnar ljóslifandi. Það varð mér síðan til gæfu að fá að deila þessari reynslu með Palla og upplifa sveitina ár eftir ár og síðar börnin okkar, Agnes Drífa og Róbert Hreiðar. Mér fannst Helga, strax í þessari fyrstu heimsókn minni, eiginlega ættleiða mig, hún tók mér alveg eins og ég var og ég fann ætíð fyrir þeirri tilfinningu að vera samþykkt. Ég minnist spilakvöldanna, þar sem aðallega var spilaður Kani og stundum Manni. Svo voru það gönguferðirnar út í móa, oftast til að finna bláber eða bara til að njóta. Eftir að Svavar og Helga fluttu á Egilsstaði vorum við fastagestir og skruppum þá iðulega í bíltúra út í Hjaltastaðaþinghá, Borgarfjörð eystri, Hallormsstað, Kárahnjúka eða Jökulsárhlið. Helga var röggsöm, ákveðin og mikill dugnaðarforkur, enda örugglega ekki auðvelt fyrir unga stúlku af mölinni í Reykjavík að flytja á lítinn sveitabæ austur á Héraði.

Það var sárt að horfa á hana hverfa inn í algleymið, þessi síðustu ár. En í dag er mér er fyrst og fremst í huga, þakklæti fyrir að hafa notið samvista við Helgu, en einnig sorg og söknuður yfir því sem aldrei kemur aftur.

Elskulega Kristrún tengdamóðir mín, Svavar, Borgþór, Magnús Rúnar, Kristján Hreiðar, Jóhann Páll og aðrir ástvinir, mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra.

Elfa Dröfn.