Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Við getum ekki horft upp á það að einhverjir eigi vart til hnífs og skeiðar árið 2016,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Við getum ekki horft upp á það að einhverjir eigi vart til hnífs og skeiðar árið 2016,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis. Hún kvaðst hafa tekið málefni eldri borgara og öryrkja upp á þingflokksfundi Framsóknarflokksins á mánudaginn var.

„Nú verðum við á einhvern hátt að finna leiðir til að koma þessum skilgreinda 9.500 manna hópi sem verst stendur til aðstoðar,“ sagði Vigdís. Hún sagðist hafa verið að hugsa um þessi mál síðan í fjárlagagerðinni og telur hún að nokkrar leiðir geti komið til greina.

Áskorun til landsfeðra

Fjölmennur fundur Íslendinga sem staddir voru á Kanaríeyjum fyrr í mánuðinum samþykkti áskorun til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, og Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, um að þeir beittu sér fyrir því „að þjóðarsátt verði komið á í málefnum eldri borgara og öryrkja á árinu 2016“. Eins mun hafa komið fram á fundinum að eldra fólki þætti ekkert jafn mikilvægt og að höggvið yrði á hnúta skerðinga á bótum og réttindum.

Vigdís var á fundinum þegar áskorunin var borin upp og samþykkt með lófataki. Viku áður hafði hún haldið ræðu á vikulegum fundi Íslendinga á Sportbarnum á Gran Canaria. Þar voru rúmlega 100 manns.

Finna þarf leiðir til lausnar

„Þarna er starfandi Framsóknarfélag í „syðstakjördæmi“. Úr því að ég var þarna stödd var ég beðin að tala á reglubundnum laugardagsfundi,“ sagði Vigdís. „Landsmálin voru rædd og kjör eldri borgara og öryrkja. Ég fór yfir tölur sem fjárlaganefnd fékk rétt fyrir jólin.“ Vigdís sagði að samkvæmt þeim væri staðan erfið hjá um 4.500 eldri borgurum og um 5.000 öryrkjum. „Ég sagði að það þyrfti að koma þessum hópi á einhvern hátt til hjálpar. Það er verkefni stjórnmálanna nú fram á vor að finna út úr því hvaða leið er best í samvinnu við fjármálaráðherra.“

Vigdís kvaðst einnig hafa farið yfir 9,7% hækkun almannatrygginga á fjárlögum 2016.

„Tæplega 10% hækkun á einu ári er mjög góður árangur að mínu mati. Enda byggist hún á 69. grein almannatryggingalaga sem er í raun kjaradómur þessara hópa. Þar er uppskrift að því hvernig hækkanir til þessara hópa eru fundnar út.“

Hækkun bóta
» Í 69. grein laga um almannatryggingar (100/2007) segir:
» „Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“