Hildur Þórðardóttir
Hildur Þórðardóttir
Eftir Hildi Þórðardóttur: "Forseti hefur ekki bein völd til að breyta, en hann getur verið leiðtogi og það er mikilvægt að hann hafi skýra framtíðarsýn."

Það er mín trú að einhvern tímann muni íslenska þjóðin skipa stórt hlutverk í að koma á friði í heiminum. Ég veit að margir deila þessari framtíðarsýn með mér því á þjóðfundinum árið 2010 kom fram skýr krafa um að Ísland verði ávallt boðberi friðar í heiminum auk þess sem friðarmál hafa verið mörgum hugleikin í tugi ára.

Við verðum hins vegar ekki boðberi ljóss og friðar úti í heimi fyrr en við höfum búið til friðsamlegt samfélag hér á landi. Áður en einhver ætlar að bjarga heiminum verður sá hinn sami að byrja á sjálfum sér og vinna með eigin tilfinningar og viðhorf.

Nú þegar er mikil vinna hafin á grasrótarstigi þar sem við hjálpum hvert öðru að aflétta leyndarmálum og varpa af okkur skömm og ótta, vinna úr áföllum og erfiðum aðstæðum, vinna með meðvirkni og finna innri styrk. Það er ótrúlegur styrkur falinn í því að vera sáttur við sjálfan sig. Þá þarf ekki lengur að þykjast vera eitthvað annað en maður er til að öðlast samþykki annarra, heldur kemur samþykkið innan frá.

Við Íslendingar erum að fara í gegnum mikið breytingaskeið sem hófst fyrir hrun. Ég hef fulla trú á því að okkur takist að þróa hér gott samfélag þar sem allir hafa í sig og á og allir hafa tækifæri til að þroska hæfileika sína og styrkleika og nýta í þágu almannaheilla. Við getum skapað hér samfélag þar sem ríkir friður og almenn sátt, þar sem viðhorf eins og samkennd, skilningur, kærleikur og samvinna eru einkennandi.

Sumum finnst breytingarnar gerast allt of hægt, en höfum í huga að allar samfélagsbreytingar þurfa að koma innan frá. Þess vegna er almenn vakning meðal landsmanna nauðsynleg svo við séum meðvituð um hvert við viljum fara. Það þarf að efla traust hjá fólki um að þetta sé hægt. Við þurfum að hjálpast að við að efla hvern einasta mann, því þjóðin þarf sjálf að finna lausnir og leiðir að þessu nýja fyrirkomulagi. Þannig er þetta eins og hjól sem vindur upp á sig. Eftir því sem fleiri finna sinn innri styrk geta fleiri tekið þátt.

Þessi framtíðarsýn er ekki draumsýn ein. Með því að halda áfram að útrýma spillingu og efla gagnsæi í stjórnsýslu, efla sjálfstæða hugsun, frumkvæði og nýsköpun, sameinast um verndun og nýtingu náttúrunnar, temja okkur skilning og umburðarlyndi og leggjast öll á eitt getum við þróað hér gott samfélag. Við getum líka sameinast um nýju stjórnarskrána.

Það er alveg ljóst að það er breið samstaða um hvað við viljum hafa í nýju stjórnarskránni. Við viljum meiri völd til fólksins, að auðlindir séu í þjóðareign svo arður af þeim geti runnið til uppbyggingar innri stoða samfélagsins, aðskilnað framkvæmdavalds og löggjafarvalds, þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg málefni án atbeina forseta og að náttúran sé vernduð og fái að njóta vafans. Þetta voru niðurstöður þjóðfundarins og stjórnarskrárnefndar þar á undan, sem og niðurstöður stjórnlaganefndar og stjórnlagaráðs.

Ekki náðist samkomulag á Alþingi um orðalag og útfærslur nýju stjórnarskrárinnar. Þó svo að nýrri nefnd hafi verið falið að þróa hana áfram þýðir það ekki að öll vinnan að baki hafi verið til einskis. Við gætum að vísu þurft að bíða í nokkur ár í viðbót þar til nefndin lýkur störfum. Þeir sem vonast eftir friði á Alþingi eru líklega orðnir langeygir en við getum huggað okkur við það að vinnan hófst í raun árið 2005 með skipun stjórnarskrárnefndar hinnar fyrri og því erum við meira en hálfnuð ef allt gengur eftir.

Ég tel brýnt að breyta fyrirkomulagi Alþingis til að þar verði meiri vinnufriður. Það er mitt mat að núverandi fyrirkomulag, þ.e. stjórn og stjórnarandstaða og sérstaklega þar sem enginn aðskilnaður er milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds, sé rót hins eilífa stríðsástands sem þar virðist ríkja. Þegar önnur fylkingin hefur yfirburðastöðu er hætta á að málin snúist um að vera með eða á móti, að sigra eða tapa og nýta yfirburðina til að þröngva hagsmunamálum í gegn. Þess vegna geta minnihlutastjórnir oft verið farsælli þar sem þær þurfa að taka tillit til sjónarmiða allra flokka, eða þjóðstjórnir þar sem fulltrúar allra flokka sitja. Það er mín von að með aðskilnaði löggjafarvalds og framkvæmdavalds geti þingmenn starfað sem ein heild að því að finna lausnir sem eru til bóta fyrir alla þjóðina.

Á þjóðfundinum fylltumst við von um að við gætum breytt ríkjandi fyrirkomulagi. Fólk fékk loksins uppbyggilega útrás fyrir margra ára reiði og vonbrigði. Þó svo að nýja stjórnarskráin sé ekki enn komin í gegn var vinnan á þjóðfundinum og stjórnlagaþinginu alls ekki til einskis heldur sýndi gjörla hvernig lýðræði getur verið virkt. Ég myndi gjarnan vilja sjá fleiri þjóðfundi, til dæmis um það hvernig við viljum haga náttúruvernd og virkjanamálum, nýsköpun og stóriðju og hvernig heilbrigðiskerfi og menntakerfi við viljum hafa.

Fólk þarf að finna að það hafi eitthvað að segja um hvernig landinu er stjórnað. Það er ekki nóg að kjósa á fjögurra ára fresti og vona það besta. Ég tel mikilvægt að ákvæði um að þjóðin geti vísað lögum í þjóðaratkvæðagreiðslur án atbeina forseta sé í stjórnarskrá. Án þess að segja til um nákvæmlega hvert hið ákjósanlega hlutfall sé tel ég að það þurfi að vera nægilega hátt til að endurspegla mikinn ágreining hjá þjóðinni, því það er mikilvægt að við sem þjóð séum sammála um hvernig við viljum hafa samfélagið.

Þegar fólkið fær meiri völd með þjóðaratkvæðagreiðslum og þjóðfundum minnkar vonleysið, reiðin og gremjan í samfélaginu. Samt sem áður þarf hver og einn að vinna í sjálfum sér, því oft er það svo að þegar fólk glímir við uppsafnaða vanlíðan eða er ósátt við eigin aðstæður er svo miklu auðveldara að kenna öðrum um og þá sérstaklega stjórnvöldum. Þess vegna tel ég mikilvægt að við hjálpumst öll að við að vinna úr fortíð og nútíð til að allir geti fundið innri frið og sameiginlega framtíð.

Svo margt gott hefur gerst frá hruni og það er mikilvægt að við höldum áfram á þeirri braut. Það er stórkostlegt að fylgjast með öllu því góða sem er að gerast hér og við þurfum að finna leiðir til að láta þessa þróun ná í frekara mæli upp í æðstu embætti landsins. Ég geri mér grein fyrir því að forseti hefur ekki bein völd til að breyta, en hann getur verið leiðtogi og það er mikilvægt að hann hafi skýra framtíðarsýn. Það er svo allrar þjóðarinnar að finna lausnir og vinna sameiginlega að þróun betra samfélags. Þess vegna býð ég mig fram til forseta nú í sumar.

Höfundur er þjóðfræðingur og rithöfundur.