Sjónræn ljóð „Þetta er mikill dramatexti,“ segir Ragnhildur um ljósmyndaverkið gert úr ævisögu Elvis. Hún heldur á annarskonar verkum.
Sjónræn ljóð „Þetta er mikill dramatexti,“ segir Ragnhildur um ljósmyndaverkið gert úr ævisögu Elvis. Hún heldur á annarskonar verkum. — Morgunblaðið/Einar Falur
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

„Það skiptir mig ekki miklu máli hvaða bækur ég nota en finnst betra að þetta séu lesnar bækur og handfjatlaðar,“ segir Ragnhildur Jóhanns um verkin á sýningu hennar sem verður opnuð í Sverrissal Hafnarborgar klukkan 15 í dag, laugardag. Sýninguna kallar hún Diktur og segir verkin sjónræn ljóð sem verða til við krufningu bóka. Í meðförum Ragnhildar öðlast notaðar bækur aðra tilvist; á sýningunni eru stórar ljósmyndir sem sýna orð og setningar sem hafa verið toguð út úr bókum; slíkar bækur eru líka í skúlptúrum og á veggjum eru hillur með einskonar lágmyndum úr sundursniðnum bókum.

Ragnhildur Jóhanns hefur tekið þátt í fjölda sýninga síðan hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010 – og efniviður henar er venjulega bækur.

„Hér á vegginn koma lágmyndir eða þrívíð verk; þrjár hillur sem verða troðfullar af svona bókum sem ég er búin að sníða til inn í verkið,“ segir Ragnhildur við blaðamann og lyftir formhreinum röðum af bókahlutum upp úr kassa. En hvað er það við bækur sem kallar á hana að gera þessi fjölbreytilegu verk úr þeim?

„Ég hef verið heilluð af bókum síðan ég var barn. Ég hef alltaf lesið mikið og sótt í bækur. Þá er ég svo hrifin af þessum grip sem bókin er.

Ég nota bækur sem enginn vill sjá, ekki einu sinni Góði hirðirinn. Þar er þeim hent. Sumar eru prentaðar í mjög miklu magni og tekst aðeins að selja hluta þeirra; ég fæ slíkar bækur en það eru líka bækur eftir Laxness í þessum verkum!

Þær eru á ýmsum tungumálum, fyrir börn og fullorðna. Oft eru þetta sömu titlarnir aftur og aftur – ég margnota bók um lágkolvetna lífsstíl frá 2003,“ segir hún og hlær.

Í ljósmyndunum má sjá orð og setningar skaga út úr síðunum.

„Ég hef gert nokkuð af þessu, að tosa orðin út úr bókunum. Ég vel alltaf hvað ég toga út, eins og í þessari ljósmynd hér, þá verður til risastórt rómantískt, jafnvel erótískt, ljóð. Þetta er mikill dramatexti. Þetta er ævisaga Elvis!“ Hún brosir. „En það má ná svona áhrifum úr nánast hvaða bók sem er.“