Tómasína Einarsdóttir fæddist að Meiðastöðum í Garði 12. febrúar 1948, uppalin í Sandgerði. Hún lést á lungnadeild Landspítalans 5. janúar 2016.

Foreldrar hennar voru Einarína Sumarliðadóttir, f. 13.5. 1922, d. 6.8. 1987, og Einar Axelsson, f. 14.6. 1922, d. 10.2. 1966. Systkini Tómasínu eru: Þorbjörg, f. 20.10. 1949, d. 31.8. 2011, maki Michael Hall. Óskar, f. 1.6. 1953. Sumarliði, f. 22.3. 1955, d. 3.8. 1973. Vilhelmína, f. 19.3. 1960, maki Björn J. Björnsson.

Tómasína kvæntist Ægi Breiðfjörð Sigurgeirssyni 1968 en þau slitu samvistum 1980. Börn þeirra eru: Einar Axel, f. 21.11. 1966, í sambúð með Dvoruh Erin og eiga þau soninn Thor. Óðinn, f. 28.5. 1969.

Tómasína tók gagnfræðapróf frá Héraðsskólanum að Laugarvatni og stundaði nám við Samvinnuskólann á Bifröst. Hún fluttist búferlum ásamt tengdafjölskyldu sinni til Ástralíu í ársbyrjun 1970 og bjó þar langdvölum en kom þó heim til Íslands í nokkur skipti og dvaldi hér í mislangan tíma. Hún starfaði lengstum við skrifstofustörf bæði hér heima og í Ástralíu.

Útför Tómasínu fór fram í kyrrþey 14. janúar 2016.

Lífshlaup okkar mannanna hér á jörð er margbreytilegt og stefnan sem það tekur stundum óvenjuleg. Stundum er eins og tilviljanir taki völdin og leiði manneskjuna á brautir, sem eru frábrugðnar fjöldanum. Það átti fyrir henni Tómasínu frænku minni að liggja að verja stórum hluta lífs síns í fjarlægri heimsálfu fjarri ættingjum og vinum sem, eðli málsins samkvæmt, leiddi til minni samskipta en væntanlega hefðu ella orðið. En enginn ræður sínum næturstað.

Við áttum samleið strax í bernsku. Faðir hennar og fóstri minn voru bræður og við því frændsystkini í þeim skilningi – heimilin í sömu götu og samgangur milli fjölskyldnanna mikill. Leið okkar lá í barnaskólann í Sandgerði 1955 þar sem næstu átta ár liðu við áhyggjuleysi æskuáranna. Sína sýndi fljótt, að hún var afbragðs námsmaður og félagslynd í besta lagi. Síðan skipuðust mál þannig, að við settumst bæði á skólabekk í Samvinnuskólanum að Bifröst haustið 1965 þar sem næstu tveir vetur liðu hratt í þeim frábæra skóla, sem veitti okkur mikinn og góðan undirbúning fyrir lífið framundan.

Frá Bifrastarárunum minnumst við Sínu sem frábærrar bekkjarsystur sem var hvers manns hugljúfi. Félagslynd og hlý manneskja, sem öllum þótti vænt um, virk í leik og starfi skólans og í því fjölbreytta félagsstarfi, sem þar fór fram og lauk sínu námi þar með miklum sóma. Hún þurfti þó að hafa meira fyrir því en aðrir þar sem eldri sonur hennar fæddist á Bifröst seinni veturinn okkar þar og slíkt hlýtur að hafa skert tíma hennar til að stunda námið, en kom þó ekki að sök. Minnisstætt er, þegar okkar virðulegi skólastjóri, séra Guðmundur Sveinsson, brá sér í hempuna og skírði drenginn í viðurvist nemenda skólans.

Næstu tvö ár eftir Bifröst vann Sína á Keflavíkurflugvelli en hélt í ársbyrjun 1970 til Ástralíu ásamt Ægi, skólabróður okkar og eiginmanni sínum og báðum sonum þeirra þar sem þau hugðust setjast að. Frá þessum tíma var Ástralía annað heimaland Sínu og bjó hún þar alls um þriggja áratuga skeið með hléum. Leiðir þeirra Ægis skildi árið 1980 og fréttir af henni og hennar fólki voru stopular enda enginn veraldarvefur þá kominn til sögunnar. Hún bjó á Íslandi 1987 til 1999 og mín tilfinning er sú, að ætlan hennar þá hafi verið að setjast alveg að á landinu en einhvern veginn hafi það bara ekki gengið upp. Hvað um það, hún hélt þá aftur til Ástralíu ásamt yngri syni sínum og síðustu 16 árin kom hún ekki til Íslands fyrr en nú rétt fyrir jól þar sem lífsgöngunni lauk þann 5. jan. sl.

Með Sínu hafa sex af okkar fjörutíu manna samheldna árgangi úr Bifröst 1967 kvatt þessa jarðvist og þykir okkur skarð fyrir skildi. En, eins og fyrr sagði ræður enginn sínum næturstað og minningarnar um þá horfnu eru og verða dýrmætar og ættu að hvetja okkur, sem enn erum til staðar, til að rækta vinskapinn og samfundi sem aldrei fyrr. Við bekkjarsystkinin kveðjum okkar indælu skólasystur, þökkum henni frábær kynni og biðjum henni Guðs blessunar. Ástvinum hennar sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðmundur

Jóelsson.