Lystisnekkja og ísbrjótur Tölvugerð mynd af snekkjunni við Portofino á Ítalíu, sem er eitt af þorpunum fimm.
Lystisnekkja og ísbrjótur Tölvugerð mynd af snekkjunni við Portofino á Ítalíu, sem er eitt af þorpunum fimm.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Þessa dagana er verið að frumsýna teikningar og líkan af glæsilegri 56 metra snekkju. Auk íburðar um borð er gert ráð fyrir að hún verði sérstaklega styrkt fyrir siglingar í ís.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Þessa dagana er verið að frumsýna teikningar og líkan af glæsilegri 56 metra snekkju. Auk íburðar um borð er gert ráð fyrir að hún verði sérstaklega styrkt fyrir siglingar í ís. Raunverulega er um lítinn ísbrjót að ræða, sem getur skorið 80 sentimetra ís. Ef ísinn er þykkari skríður hún upp á hann og brýtur undan þunga sínum.

Breska fyrirtækið Hawk Yachts lét hanna snekkjuna og útlitshönnuður hennar er Davíð Rósinkarsson. Þegar rætt var við Davíð í gær var hann á leiðinni á stóra bátasýningu í Düsseldorf, þar sem allt er tengist bátum og bátasporti er til sýnis. Þó ekki stórar snekkjur því Mónakó er helsti vettvangur fyrir slíkar sýningar. Davíð sagði eðlilega nokkra spennu í loftinu um hvort kaupandi fyndist og hvort snekkjan færi af teikniborðinu yfir í framleiðslu, því þegar hefur verið lagt í talsverðan kostnað við hönnun.

„Eftir að hafa starfað sem pípulagningamaður í ellefu ár breyttust aðstæður í lífi mínu árið 2011 og ég ákvað að hefja nám í farartækjahönnun,“ segir Davíð. „Ég lauk BA-námi frá listaháskóla í Tórínó 2014 með áherslu á snekkjur og mótorhjól og eftir eitt ár á Íslandi hóf ég störf í Þýskalandi í haust. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á snekkjum og hafði stúderað lögun þeirra og útlit lengi áður en ég fór að læra.

Verktaki hjá Porsche

Núna er ég sjálfstæður verktaki sem þrívíddarhönnuður hjá Porsche-bílaverksmiðjunum. Í gegnum tengsl sem mynduðust í vinnunni fyrir Porsche kom þetta verkefni fyrir Hawk upp í hendurnar á mér í september. Síðan hefur lítið annað komist að og það verður spennandi að sjá hvert framhaldið verður. Sala á snekkjum hefur aftur tekið við sér eftir efnahagshrunið, Sádi-Arabar eru stórir kaupendur og sömuleiðis Rússar, en um allan heim er framleiðsla og sala á snekkjum að taka við sér.“

Þrír menn voru fengnir til að koma með tillögur að útlitshönnun snekkjunnar og varð ein af tillögum Davíðs fyrir valinu. Aðeins glerskálinn á brúardekkinu, sem Davíð kallar vetrargarðinn, var samvinnuverkefni fleiri aðila. Sérfræðingar voru síðan kallaðir til á hverju verksviði; vélfræði, búnaði, innréttingum o.s.frv. Davíð er með eigið fyrirtæki, Órós, en þessar snekkjuteikningar merkti hann fyrirtækinu sem hann starfaði hjá sem verktaki að hönnuninni, VP-Associates.

Um öll heimsins höf

Snekkjan á að geta siglt um öll heimsins höf og þar eru norðurhöf og Suður-Íshafið ekki undanskilin. Gert er ráð fyrir að skrokkur snekkjunnar verði smíðaður úr stáli, en yfirbygging gæti verið úr áli. Þessi litli ísbrjótur, í lægsta flokki slíkra, yrði með margfalda styrkingu í stefni, sérstaklega sterkt ísbelti við sjávarlínu og skrúfurnar yrðu óvenju stórar og sterkbyggðar.

Vilja hanna stærri snekkju

Um framhaldið segir Davíð að það sé nokkurri óvissu háð, en vonandi verði framhald hjá honum á verkefnum í bílaiðnaði og snekkjuhönnun erlendis.

„Sem verktaki hjá Porsche er okkur sagt að engar breytingar séu á döfinni,“ segir Davíð. „Hins vegar er Porsche í eigu Volkswagen og VW-hneykslið í haust skapar ákveðna óvissu. Snekkjuiðnaðurinn er að taka við sér og umsvifin hafa verið að aukast í Kína, bæði hvað varðar sölu á heimamarkaði og í hönnun og framleiðslu.

Hawk Yachts hefur áhuga á að við hönnum síðar á þessu ári 75-80 metra útgáfu af þessari sömu hönnun. Þetta er spennandi heimur og það bjóðast vonandi önnur tækifæri að þessu loknu,“ segir Davíð.