Atvinna Hlutfall atvinnulausra hefur lækkað mikið undanfarið.
Atvinna Hlutfall atvinnulausra hefur lækkað mikið undanfarið. — Morgunblaðið/Eva Björk
Atvinnuleysi hefur minnkað hratt og var í desember 2,8%. Þar með er atvinnuleysi síðustu 12 mánaða 2,9% samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar, en fjallað er um málið í Hagsjá Landsbankans.

Atvinnuleysi hefur minnkað hratt og var í desember 2,8%. Þar með er atvinnuleysi síðustu 12 mánaða 2,9% samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar, en fjallað er um málið í Hagsjá Landsbankans. Þróun atvinnuleysis hefur verið mismunandi eftir landsvæðum, kyni og menntun.

Í kjölfar hrunsins jókst atvinnuleysi karla mun meira en meðal kvenna en á síðasta ári var meðalatvinnuleysi kvenna komið í 3,5% á meðan það var 2,5% meðal karla.

Í umfjöllun Landsbankans segir að þó að staða atvinnumála hafi batnað mikið hér á landi á síðustu árum hafi sú breyting orðið á samsetningu atvinnulausra að hlutur háskólamenntaðra hafi aukist verulega.

Þá segir að lengi vel hafi atvinnuleysi einkum bitnaði á ófaglærðu starfsfólki og meginþorri atvinnulausra jafnan verið úr þeim hópi.

Mikil breyting hafi orðið á þessu á síðustu árum og hefur atvinnuleysi bitnað hlutfallslega meira á háskólamenntuðu fólki. Á árinu 2000 var 70% atvinnulausra með grunnskólamenntun. Í samanburði var þetta hlutfall 44% á árinu 2015. Á sama tíma hafi háskólamenntuðu fólki í hópi atvinnulausra fjölgað úr því að vera 10% atvinnulausra upp í 25% atvinnulausra á síðasta ári.

Þróun atvinnuleysis er mismunandi eftir landsvæðum og tekin eru dæmi af atvinnuleysi á Suðurnesjum sem hafi farið úr 13% á árinu 2010 í 4% og á höfuðborgarsvæðinu úr því að vera hátt í 9% í 3,1% á síðasta ári.