[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Aron Kristjánsson fór til fundar með stjórn HSÍ í fyrrakvöld og tilkynnti ákvörðun sína um að hætta sem þjálfari karlalandsliðsins í handbolta.

Handbolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Aron Kristjánsson fór til fundar með stjórn HSÍ í fyrrakvöld og tilkynnti ákvörðun sína um að hætta sem þjálfari karlalandsliðsins í handbolta. Aron tók við liðinu af Guðmundi Guðmundssyni eftir Ólympíuleikana árið 2012 og stýrði því fjórum sinnum á stórmóti, á HM 2013 og 2015 og EM 2014 og 2016. Á þeim tíma náði liðið bestum árangri á EM 2014 þegar það hafnaði í 5. sæti.

HSÍ hefur nú hafið leit að arftaka Arons og hefur ekki sett sér neinn ákveðinn tímaramma vegna þeirrar leitar, en landsliðið kemur næst saman í apríl og leikur svo í umspili í júní um sæti á næsta heimsmeistaramóti.

„Við munum núna skanna markaðinn og sjá hvaða möguleikar eru í boði, og hvernig við viljum byggja þetta upp. Ef eitthvað kemur hratt upp í hendurnar munum við bregðast við því, en annars munum við gefa okkur tíma í ráðninguna og skoða landslagið vel,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, sem tekur undir að nú sé góð tímasetning fyrir þjálfaraskipti.

„Næstu verkefni eru í apríl og ef ég man rétt þá var það þannig þegar Guðmundur Guðmundsson tók við landsliðinu í seinna skiptið, að hann nýtti þessar vikur eingöngu til æfinga en ekki keppni. Þetta er ágætur tími núna fyrir þann sem tekur við til að velta fyrir sér stöðunni, skoða leikmenn og undirbúa liðið fyrir næstu átök sem eru í júní,“ sagði Guðmundur.

Veltum eflaust þeirra nöfnum upp

Geir Sveinsson og Kristján Arason eru þeir þjálfarar sem einna helst hafa verið nefndir sem hugsanlegir arftakar Arons. Geir er án starfs eftir að hafa verið látinn óvænt fara frá Magdeburg í Þýskalandi um miðjan desember, en Kristján hefur ekki starfað við þjálfun síðustu ár, eftir að hafa meðal annars gert FH að Íslandsmeistara árið 2011 ásamt Einari Andra Einarssyni.

„Við erum ekki með neitt nafn á blaði, enda var alveg skýrt hjá mér að við myndum fyrst klára samtölin við Aron áður en við færum að skoða eitthvað annað,“ sagði Guðmundur. „Geir og Kristján eru báðir þekktir handknattleiksþjálfarar og mjög færir. Eflaust munum við velta þeim nöfnum upp eins og fleirum,“ sagði Guðmundur.

HSÍ er einnig opið fyrir þeim möguleika að ráða erlendan þjálfara, en tvívegis í sögunni hefur sambandið ráðið útlending til að stýra karlalandsliðinu. Janus Czerwinsky gerði það árin 1976-77 og landi hans frá Póllandi, Bogdan Kowalczyk, árin 1983-1990.

„Við eigum náttúrulega handknattleiksþjálfara í fremstu röð en þeir eru flestir bundnir í öðrum verkefnum og koma ekki til greina. Ef að það er einhver erlendur þjálfari sem okkur líst vel á, er góður og við myndum ráða við að fá til okkar, þá skoðum við það að sjálfsögðu. Sérstaklega ef viðkomandi gæti fært okkur eitthvað nýtt og hjálpað okkur að þróast áfram. Það hefur verið til happs fyrir íslenskan handknattleik að þegar það hafa komið góðir, erlendir þjálfarar þá hefur landsliðið tekið stökk, eins og þegar Bogdan kom. Þó að við eigum nokkra af bestu þjálfurum heims, þá geta alveg leynst einhverjir erlendir sem yrðu góður kostur. Við útilokum ekki neitt. Auðvitað snýst þetta líka um fjármagn og þarf að ganga upp að því leyti,“ sagði Guðmundur, og bendir á möguleikann á því að erlendur þjálfari geti stýrt félagsliði samhliða landsliðinu.

„Landsliðsþjálfarastarfið er skorpuvinna. Við höfum verið með þjálfara sem hafa verið í öðrum verkefnum [innsk: þjálfað t.d. félagslið] og það hefur gefist ágætlega.“

*Ítarlegt viðtal við Aron Kristjánsson er að finna á mbl.is/sport/handbolti.