Nýr litur er kynntur til sögunnar á litapallettunni 2016, fjólurauður skal það vera. Þessi litur gæti verið litur ársins 2016 en þess má geta að árlega er gefinn út litur/ir ársins hjá helstu tískuspekúlöntum.

Nýr litur er kynntur til sögunnar á litapallettunni 2016, fjólurauður skal það vera. Þessi litur gæti verið litur ársins 2016 en þess má geta að árlega er gefinn út litur/ir ársins hjá helstu tískuspekúlöntum.

Fjólurautt er andlit Víkverja á litinn þegar hann er nýbúinn að taka hressilega á því í ræktinni. Víkverji vissi að hann yrði rauður í andlitinu eftir áreynslu en ekkert í líkingu við þennan lit. Á sama tíma veltir Víkverji því fyrir sér hvort það sé hollt að verða svona fjólurauður í framan.

Víkverji er ekki fjólublár í framan af áreynslu heldur fjólurauður að lit því rauði liturinn nær yfirhöndinni yfir bláa litnum. Víkverji telur sér að minnsta kosti trú um það, einhverra hluta vegna.

Og já, Víkverji er byrjaður að greiða til líkamsræktarstöðvar til að koma sér í form. Nokkuð sem hann var búinn að ákveða að gera aldrei. Aldrei. Hann þarf víst að éta það ofan í sig eins og margt annað sem hann hefur svarið að gera aldrei en stendur svo sjálfan sig að því að gera. Orðið aldrei er víst eins og tvíeggjað sverð sem notað skal í hófi hér eftir því maður veit aldrei hvað maður endar á að gera eða gera ekki.

Kannski kófsveittur inni í sal ásamt öðrum spriklandi hömstrum á hjóli með tónlistina í botni. Í stað þess að henda sér eins og í einn göngutúr eða hlaupa um í fallegri náttúru.

Nei, rými fullt af tólum og tækjum til að rífa í var það heillin hjá Víkverja. Það einkennilega við þetta allt saman er að honum leiðist það ekki, heldur nýtur hverrar mínútu.

Æfingar í heitum sal tröllríða öllu um þessar mundir, þar sem heitir og sveittir kroppar koma saman og stunda „hot yoga“ eða önnur æfinga- og þjálfunarprógrömm undir misháværri tónlist. Loftið getur ekki verið sérlega heilnæmt ef út í það er hugsað. En hitinn gerir gott, það finnur Víkverji inn að beini og það skiptir öllu máli. Það finnst Víkverja að minnsta kosti.