Valgarð Bertelsson (Valli) fæddist í Drangey á Skagaströnd 13. júní 1942. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki 16. janúar 2016.

Faðir Valgarðs var Bertel Hilmar Húnfjörð Björnsson, f. á Kjalarlandi í Vindhælishreppi í Austur-Húnavatnssýslu 11. mars 1919. Bertel lést á Sauðárkróki 18. mars 1981. Móðir Valgarðs var Sigurbjörg Hulda Pétursdóttir, f. á Selá í Skefilsstaðahreppi á Skaga 20. september 1918. Hulda lést á Akureyri 21. september 2006.

Systkini Valgarðs eru: Sigurjón Trausti Húnfjörð, f. 1939, maki hans er Erla Hlín Hjálmarsdóttir, eiga þau einn son, fyrir átti Erla tvö börn. Ólafur Auðunn Húnfjörð, f. 1940, d. 2014, hann lét eftir sig einn son. Jóhanna Vilbjörg Húnfjörð, f. 1943, eiginmaður hennar er Haukur Brynjólfsson, þau eiga tvær dætur og ásamt því ólu þau upp yngsta son Ástríðar. Ástríður Ósk Húnfjörð, f. 1945, d. 2000, hennar börn eru þrjú.

Eftirlifandi eiginkona Valgarðs er Branddís Eyrún Benediktsdóttir, f. 10. ágúst 1946 á Hólmavík. Þau giftu sig 21. nóvember 1964. Foreldrar Branddísar voru þau Benedikt Þórarinn Eyjólfsson, f. 11. apríl 1923 í Bolungarvík, d. 10. febrúar 1983 í Reykjavík, og Magna Ágústa Runólfsdóttir, f. 14. júlí 1925 á Hólmavík, d. 1. október 2005 í Reykjavík. Valgarð og Branddís eignuðust þrjú börn: 1) Drengur, f. 22. nóvember 1964, d. sama dag. 2) Hilmar Þór, f. 25. ágúst 1967 í Reykjavík. Fyrri kona hans er Heiða Hilmarsdóttir, f. 18. ágúst 1959, þau skildu. Börn þeirra eru Valþór Ingi, f. 12. desember 1994, og Eydís Arna, f. 25. mars 1997. Núverandi eiginkona Hilmars er Olga Aldoshina Sergevena, f. 30. júní 1990. Dætur þeirra eru Viktoría Þórovna, f. 12. apríl 2012, og Veronika Þórovna, f. 28. september 2014. Þau eru búsett í Murmansk í Rússlandi. 3) Hulda Margrét, f. 21. júlí 1974 á Sauðárkróki. Hún er gift Herði Heiðari Guðbjörnssyni, f. 13. nóvember 1971. Börn þeirra eru Sæþór Atli, f. 15. júlí 1998, og Eyrún Vala, f. 20. mars 2004. Þau eru búsett í Kópavogi.

Valgarð og Branddís bjuggu lengst af á Sauðárkróki, um hríð á Akureyri og síðustu árin í Áskoti í Hjaltadal. Valgarð byrjaði ungur að vinna fyrir sér á vertíðum víða um landið. Eftir að hann hóf búskap á Sauðárkróki vann hann við smíðar hjá Byggingafélaginu Hlyn og í málningarvinnu hjá Sigurði Snorrasyni málarameistara. Lengst af vann hann þó hjá Kaupfélagi Skagfirðinga við ýmis störf, síðast sem húsvörður. Þá var hann húsvörður á Glerártorgi á Akureyri og síðast við grunnskólann á Hólum í Hjaltadal.

Útför Valgarðs verður gerð frá Sauðárkrókskirkju í dag, 23. janúar 2016, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku pabbi.

Þú fórst of fljótt, við áttum eftir að bralla svo mikið saman.

Þú varst alltaf svo umhyggjusamur, hringdir oft og fylgdist með hvernig lífið myndi ganga hjá ungunum þínum, ég tala nú ekki um ef einhver var lasinn, ég á eftir að sakna þess að fá ekki símtal frá þér. Þú vildir alltaf vegferð okkar sem besta og gerðir allt sem þú gast til að hjálpa, þú skoraðist aldrei undan. Þú varst einnig gjafmildur og örlátur, það var t.d. aldrei vandamál að fá pening ef maður var að skreppa í bæinn eða á ball, „farðu í baukinn“ var algengt svar hjá þér á unglingsárum mínum þegar ég var að betla fyrir sjoppuferð. Já og þar sem þú varst mikill sælkeri, var nú ekki vandi að fá þig í ísbíltúr eða biðja um súkkulaði. Betra er að gefa en þiggja átti vel við þig.

Ég þakka núna fyrir allar stundirnar með þér í bílskúrnum, við að þvo bílinn, ferðirnar á ruslahaugana, og ekki var ég gömul þegar við vorum að rífa niður loft og veggi í Sjálfsbjargarhúsinu, skítug upp fyrir haus eins og þú sagðir oft. Ég var nefnilega pabbastelpa og fannst skemmtilegt að brasa með þér í hinu og þessu.

Þú varst með reglurnar á hreinu og í dag þakka ég fyrir að hafa fengið skýrar línur í uppeldinu.

Heiðarleiki og hreinskilni var eitthvað sem maður átti alltaf að sýna, segja átti sannleikann og var það tekið alvarlega ef maður fór eitthvað að hagræða sannleikanum eða tala ekki beint út. Þú varst líka ávallt hreinskilinn, lást ekki á skoðunum þínum og varst beinskeyttur, „hér tölum við íslensku“ var oft sagt og skilur það hver sem vill. Sumir myndu segja að þú hafir verið „forvitinn spjallari“. Ég man nú hvernig þú yfirheyrðir oft vinkonur mínar þegar þær komu í heimsókn, þær minnast þess nú með gleði, ég skammaðist mín oft fyrir þetta þá en hlæ að því nú. Þú varst nefnilega mikill húmoristi og það fram að dánardegi. Nýyrðasmíði, ýkjur á kómískan hátt og útúrsnúningar á orðum, voru þitt fag, stundum voru þetta „lókal“brandarar sem fáir skildu. Frasar þínir eru oft notaðir af okkur.

Kaldhæðni og stríðni einkenndu húmorinn þinn, þú hafðir ótrúlega gaman af því að æsa fólk upp í samræður (smá Ragnar Reykás í þér, eins og mamma segir) og náðir þú mér oft á unglingsárunum með tilheyrandi pirringi hjá mér, síðar lærði ég að meta þennan eiginleika þinn, hlæja með eða snúa á þig. Þú gast oft breyst í sprelligosa og erfði ég fíflaganginn frá þér... takk pabbi, það er nefnilega svo yndislegt að taka sjálfan sig ekki hátíðlegan og held ég að í því felist sönn hamingja að geta hlegið að sjálfum sér. Þegar við mamma vorum að skoða myndir eftir andlát þitt rákumst við m.a. á mynd þar sem þú varst uppábúinn sem kona þar sem þú varst að leika leynigest.

Já, þú varst stuðbolti sem elskaðir að halda veislur, spila tónlistina hátt, bjóða í mat og hafa marga í kringum þig. Ég vona að þú haldir því áfram í Sumarlandinu og bið ég að heilsa öllum þeim sem ég veit að tóku vel á móti þér.

Takk fyrir allt, ég mun hugsa vel um mömmu eins og ég lofaði þér og ég á alltaf eftir að sakna þín.

Hulda Margrét

Valgarðsdóttir.

Alltaf þegar nafn mágs okkar, Valgarðs Bertelssonar, er nefnt sem og þegar okkur hefur orðið hugsað til hans, þá ósjálfrátt færist yfir bros og við skynjum gleði og vellíðunartilfinningu sem færist yfir okkur.

Sá sem þannig hefur lifað og lokið lífi sínu, hefur skilað sérlega góðu verki. Að skilja eftir sig svo góðar minningar að þær veiti gleði og ánægju þeim samferðarmönnum er eftir lifa er ekki margra, en það gerði Valli svo sannanlega.

Við bræður vorum langt í frá ánægðir, þá ungir drengir, er móðir okkar sagði okkur að Dísa systir kæmi í heimsókn eftir nokkra daga og með henni kærastinn hennar. Við vorum aldeilis ekki kátir með það að eiga að fara að deila stóru systur með einhverjum kærasta. Stóra systir var okkur mjög kær og hafði lengst af stjanað við okkur, var okkur stór fyrirmynd. Sennilega hefur Valli fljótt skynjað andstöðu okkar með að deila stóru systur því fljótlega eftir að hann kom, dreif hann okkur með í bíltúr sem sérstaka leiðsögumenn að kanna þorpið og það tók hann ekki margar mínútur að heilla okkur uppúr skónum og gera okkur að sérstökum vinum. Sú vinátta hefur síðan varað án þess að blettur félli á.

Valli var glettinn og skemmtilegur maður, ætíð eitthvað að spá og spekúlera og óhræddur að feta ótroðnar slóðir. Iðinn var hann og snyrtimenni í alla staði, allt var í röð og reglu og allir hlutir áttu sinn stað og jafnan eitthvað að bauka, halda hlutum við, laga smíða eða breyta.

Alla tíð var hann hrókur alls fagnaðar, jafnan miðpunktur á mannamótum, reytti af sér gullkornin og iðulega veltist fólk um af hlátri þá honum tókst vel til. Fáum höfum við hlegið jafn oft og mikið með og Valla. Börnum okkar var hann mjög kær. Hann gaf sig að öllum börnum og í minningu þeirra lifir hann sem skemmtilegur, góður og glettinn, en alls ekki stríðinn.

Valli lést aðfaranótt síðasta laugardags eftir stranga glímu við krabbamein. Við dáðumst að því æðruleysi, þeim styrk og dugnaði er hann sýndi í þeirri baráttu, oftar en ekki sárkvalinn og mikið veikur. Þau Dísa voru höfðingjar heim að sækja, sem og að þau voru miklir aufúsugestir að fá í heimsókn.

Við bræður og fjölskyldur okkar, þökkum mági okkar langa og góða samfylgd á langri ævigöngu. Minning þín mun veita okkur gleði og þakklæti fyrir allar okkar ánægjulegu samverustundir.

Elsku Dísa, Hulda og Hilmar, makar og börn. Megi Guð styrkja ykkur í sorg ykkar, en minning um góðan mann lifa.

Garðar og Ólafur

Benediktssynir.

Elsku Valli tengdapabbi. Það er eins og það hafi gerst í gær þegar ég sá þig fyrst. Þá bankaði ég heima hjá þér á Króknum og var að hitta hana Huldu dóttur þína en ég hafði aldrei komið heim til hennar áður, þú bara sóttir hana án þess að spyrjanokkurs. En við vitum vel hvert framhaldið var; ég giftist dóttur þinni sem ég elska svo mikið í dag og eigum við tvö yndisleg börn, þau Sæþór Atla og Eyrúnu Völu. Þessi rúmu 26 ár sem við höfum þekkst hafa verið mér afar mikilvæg. Við höfum spjallað mikið saman í gegnum árin um allt og ekkert og haft gaman af. Fáum árum eftir að við kynntumst fórst þú að huga að byggingu sumarbústaðar í Hjaltadalnum. Þú vildir endilega sýna okkur Huldu landið og ég hugsaði þá: „Ætlar hann virkilega að byggja hér?“ Landið var ekkert nema þúfur og í raun ekki bústaðarlegt svona fyrst á að líta. En þið Dísa voruð harðákveðin, þarna ætluðuð þið að byggja. Næstu árin nýttuð þið mikið af tíma ykkar við að gera bústaðinn eins og þið vilduð, þ.e. byggja og gróðursetja á landinu ykkar. Mér til mikillar ánægju hafðir þú samband við mig eða spurðir Huldu hvort ég kæmi um helgina, en þá bjó ég á Hvammstanga, því þig vantaði kannski aðstoð við að smíða, einangra, mála eða annað. Við þessa byggingu áttum við margar góðar stundir, bara við tveir, og ég minnist þessa tíma oft. Eftir að þið ákváðuð svo að flytja í dalinn, eins og við nefnum Áskotið oft, höfum við átt yndislegar stundir saman við alls konar verkefni. Ég hafði oft samband við þig ef ég var á leiðinni í heimsókn til ykkar til að vita hvort þú hefðir ekki eitthvað að gera og það stóð ekki á því, ég gat fengið næg verkefni og var það bara yndislegt. Aðrar stundir sem við höfum átt saman fyrir utan Hjaltadalinn voru að sjálfsögðu margar, enda vorum við miklir vinir og traustið gagnkvæmt. Ég gæti skrifað endalaust um minningar okkar og þær stundir sem við höfum átt tveir saman eða í faðmi fjölskyldunnar og er ég endalaust þakklátur fyrir þær. Að þurfa að horfa upp á þig síðustu vikurnar þjást vegna veikinda þinna var afar erfitt, en ég trúi því að þér líði betur í dag.

Elsku Valli, þú munt alltaf eiga stóran hluta af mínu hjarta. Ég og fjölskylda mín lofum að hugsa vel um Dísu um ókomin ár. Minning þín varir að eilífu.

Þinn vinur og tengdasonur,

Hörður H. Guðbjörnsson.