Síðasta vísnagáta var sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Fráleitt er nokkur í fyrsta sinn. Fýlsungi grár kom í huga minn. Bjalla, sem hefur ei háan tón. Hafði það viðurnefni Jón. Árni Blöndal svarar: Fár verður smiður við fyrstu stund.

Síðasta vísnagáta var sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Fráleitt er nokkur í fyrsta sinn.

Fýlsungi grár kom í huga minn.

Bjalla, sem hefur ei háan tón.

Hafði það viðurnefni Jón.

Árni Blöndal svarar:

Fár verður smiður við fyrstu stund.

Fýlsunginn grái, smiður er nefndur.

Bjallan járnsmiður, gengur á grund.

Góður Jón prímus, með liprustu hendur.

Og síðan bætir hann við til gamans:

Allar línur okkur benda á smiðinn,

ungan fýl, og járnsmið sjáum hlaupa

Jón Prímus þótti, einstaklega iðinn

og Úa þurft´ei, Hnallþórur að kaupa.

Harpa á Hjarðarfelli á þessa lausn:

Fráleitt smiður í fyrsta sinn.

Fýlsungi grár – smiðurinn.

Járnsmiðinn í jötu finn.

Jón „smiður“ er maðurinn.

Helgi Seljan svarar:

Teljast fáir smiðirnir vera í fyrsta sinn,

fýlsungi mun smiðsnafnið víst bera

Og járnsmiði í haganum fjölmarga ég finn

og flottur þótti Jón skósmiður vera.

Flinka og haga sveitunga forðum man ég nú

sem flottast handbragð eftir sig þar létu.

Og á þeim hafði pabbi alveg óbilandi trú,

en upp á dönsku snikkarar þeir hétu.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Smiður í fyrsta sinn enginn er.

Unga fýls menn kalla smið..

Járnsmiðstetur um jörðu fer..

Á Jóni var smiður auknefnið.

Og lætur limru fylgja:

Hann Benóný bátasmiður

er búinn að vera því miður,

á Landspítalann

lagður inn var´ann

og læknarnir skáru hann upp

– og niður!

Síðan segir Guðmunur að enn eimi eftir af gátum:

Hefðardaman hún er glæsta.

Himinsala blessuð mær.

Er í tafli öflug næsta.

Eflaust bónda sínum kær.

Bjarni frá Gröf talaði um endaskipti á hlutunum:

Þeir sem ekki þurfa lán,

þeir geta fengið peningana,

en hinir verða hjálpar án

sem helst af öllu þyrftu hana.

halldorblondal@simnet.is