Kristín fæddist 5. nóvember 1932 á Oddsparti í Þykkvabæ. Hún lést 1. janúar 2016. Foreldrar hennar voru Guðsteina Sigurðardóttir frá Innsta-Hólmi, Akraneshreppi, f. 19. ágúst 1906, d. 4. október 1992, og Vigfús Markússon frá Dísukoti, Þykkvabæ, f. 18. október 1903, d. 18. desember 1946. Systkini Kristínar eru Ingimar Þórarinn Vigfússon, f. 13.11. 1927. Steinunn Vigfúsdóttir, f. 16.10. 1940. Sambýlismaður Kristínar frá 1952 var Lýður Kristinn Jónsson, f. 26.2. 1933, d. 24.4. 1998. Þau eignuðust einn son, Vigfús, 23. ágúst 1953. Sonur Vigfúsar er Kristinn Lýður, f. 16.9. 1988. Hann er í sambúð með Aðalheiði Ísold Hoffman. Þau eiga börnin Írenu Laufeyju og Hafþór Loka.

Útför Kristínar fór fram 15. janúar 2016.

Elsku Kristín mín. Það er svo margt sem mér langar að segja um þig enda varstu einstaklega fögur kona að innan sem utan.

Þú sást alltaf það góða í fólki og það bjarta í slæmum aðstæðum. Það sem er mér sárast er að barnabarnabörnin þín missi af þeirri einlægu ást sem fylgdi þér þó ég viti að þú elskir þau úr fjarlægð.

Það sem ég veit með fullri vissu er að þú varst og munt alltaf vera einstök langamma sem og mamma og amma. Ég mun sjá til þess að börnin okkar Kidda þekki þig og viti hversu fágæt perla langamma þeirra í raun var. Elsku Kristín, hlýja, góða og gefandi kona við elskum þig endalaust.

Hún var einstök perla.

Afar fágæt perla,

skreytt fegurstu gimsteinum

sem glitraði á

og gerðu líf samferðamanna hennar

innihaldsríkara og fegurra.

Fáar perlur eru svo ríkulega búnar,

gæddar svo mörgum af dýrmætustu

gjöfum Guðs.

Hún hafði ásjónu engils

sem frá stafaði ilmur

umhyggju og vináttu,

ástar og kærleika.

Hún var farvegur kærleika Guðs,

kærleika sem ekki krafðist endurgjalds.

Hún var vitnisburður

um bestu gjafir Guðs,

trúna, vonina, kærleikann og lífið.

Blessuð sé minning einstakrar perlu.

(Sigurbjörn Þorkelsson.)

Aðalheiður Ísold Hoffmann, Írena Laufey og Hafþór Loki.

Minningar eru merkilegt fyrirbæri. Þær hafa þann eiginleika að láta manni líða vel á erfiðum stundum og endrum og sinnum virka þær eins og tímavél sem skýtur manni beint í gamlar aðstæður.

Þegar ég tek þá ákvörðun fara í mína torkennilegu tímavél minningana enda ég oft á stað með manneskju sem kenndi mér ákaflega margt fallegt um lífið er ég var lítill drengur.

Hún hreinlega tók mig að sér óumbeðin og setti sig í það hlutverk að vera amma mín. Þessi einstaka kona hét Kristín Vigfúsdóttir (eða Stína amma eins og hún var títt kölluð).

Í þessum minningum mínum erum við iðulega tvö.

Við erum tvö á Þingvöllum í sumarbústað sem er við það að detta í sundur, en með ári hverju verður þessi bústaður fallegri og stæðilegri. Þú á fjórum fótum með þína grænu fingur að reyta óvelkominn arfa, ég að vakna við fuglasög og fyrir utan blasir við spegilslétt Þingvallavatn.

Seinna um daginn erum við tvö að borða bleikju sem ég veiddi úr Þingvallavatni. Þú hafðir einstakt lag á að steikja þessa litlu fiska á eldgamalli og beyglaðri pönnu – allt í bústaðnum virtist eldra en lífið sjálft séð frá bæjardyrum lítils drengs. Við borðuðum fiskinn sem ég veiddi og við töluðum um allt og ekkert – veðrið, huldufólk og fólk í nærliggjandi bústöðum. Ríkisútvarpið fékk auðvitað að hljóma lágt í bakgrunninum og kaffivélin bjó til alls kyns hljóð á meðan við nutum matarins.

Tíminn virtist stöðvast í þessum bústað og það var einmitt það sem gerðist. Mér leið vel á þessum stað og stundum þegar róðurinn hjá mér þyngist, eins og gengur og gerist í þessu skrýtna lífi, skelli ég mér örstutt aftur í tímann og hverf til Þingvalla og fæ að vera með þér, Stína mín.

Á aðfangadag hitti ég þig í seinasta sinn. Þú horfðir á mig og virtist ekki þekkja mig, en vildir alls ekki sleppa hendinni á mér. Það var eins og þú værir viss um að hér væri kominn einstaklingur sem þú ættir að muna eftir. Þú horfðir út um gluggann einbeitt á svip og varst þögul.

Síðan eftir nokkur augnablik þegar ég var orðin viss um að þú værir búin að gleyma mér til frambúðar sagðir þú skyndilega: „Já! Bjössi á mjólkurbílnum.“ Þá vissi ég vel að þú mundir eftir mér þar sem þú sagðir þetta alltaf er ég kom inn um dyrnar.

En nú ert komin á annan stað, Stína mín, og ég sit hér og hripa niður þessi orð.

Mig langar að hafa þessi lokaorð stutt og með þeim langar mig að þakka þér fyrir allar fallegu stundirnar sem við áttum saman. Svo langar mig líka að þakka þér fyrir alla vanilluhringina sem þú bakaðir, Allar mandarínurnar sem jólasveinninn gaf mér í skóinn hjá þér, allar stundirnar sem þú huggaðir mig ef eitthvað bjátaði á og ég gæti haldið endalaust áfram.

Björn Stefánsson.

Á nýársdag, kvaddi ein sú fallegasta og bjartasta kona sem hægt er að kynnast, hún amma/mamma Kristín Vigfúsdóttir. Það sem hún hefur gefið mér öll þessi ár er ómetanlegt, svo stórt hjarta á ekki að komast fyrir inni í líkama á neinni manneskju, en þar sem amma var einstök fékk hún að hafa það stærsta. En veikindi hennar gerðu það að verkum að þetta fallega hjarta sem gaf og gaf af sér ákvað að hætta að slá þann dag. En eins sorglegt og það er, er ég samt ánægður með að hún fór í svefninn langa, þar sem allt er orðið eins og það á að vera og móttökurnar ekki af verri endanum, þar sem afi er búinn að bíða eftir henni í 17 ár og það að þau eru sameinuð á ný gleður mig mjög.

Elsku hjartans amma mín, þín verður svo sárt saknað að orð fá því ekki lýst, en góðu minningarnar lifa áfram og verða aldrei gleymdar. Elsku besta amma mín, góða ferð.

Þar sem þú kenndir mér allar bænirnar læt ég mína uppáhalds fylgja.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Kristinn Lýður Vigfússon.