Ólafur Hannesson
Ólafur Hannesson
Eftir Ólaf Hannesson: "Svona gerist um allt land, safnast þegar saman kemur, en þetta þykir ekkert tiltökumál hjá utanríkisráðherra."

Undanfarið hefur hæstvirtur utanríkisráðherra, Gunnar Bragi, farið mikinn í fjölmiðlum í tengslum við innflutningsbann Rússa á íslenskar vörur, þar hefur hann reynt að klæða þátttöku Íslands í þessum refsiaðgerðum í hetjulegan búning.

Rétt er að taka fram að ég er hlutdrægur, ég starfa hjá fyrirtæki í sjávarútvegi sem hefur orðið fyrir tapi vegna þessara aðgerða og sé fram á að tapa háum upphæðum til viðbótar ef ekkert er að gert. Eðlilega hef ég mínar efasemdir um þetta ævintýri ráðherrans, finnst þetta dýru verði keypt svo utanríkisráðherra geti spilað sig sem stóran karl úti í heimi.

Ráðherranum hefur verið tíðrætt um nauðsyn þess að sjávarútvegurinn fórni minni hagsmunum fyrir meiri. Gott og vel, það er ágætis hugsun, en hverjir eru þessi hagsmunir sem Gunnar Bragi biður okkur um að fórna fyrir? Aldrei hefur utanríkisráðherra sýnt fram á að með þessum aðgerðum sé verið að vinna með hagsmuni Íslands í huga, þvert á móti hefur þessi aðgerð einungis skaðað íslenska hagsmuni það best ég veit.

Það er sorglegt að sjá utanríkisráðherra ganga fram með þeim hætti sem hann hefur gert, hann málar sjávarútveginn sem sjálfselsk illmenni sem hann þori að standa uppi í hárinu á. Svo kemur kórinn sem er sammála honum, kóar með og bendir á „vondu“ stórfyrirtækin sem græði svo mikið að þau hafi nú efni á að fórna fyrir málstaðinn. Það sem fylgir ekki sögunni er að það eru líka við, litlu og meðalstóru fyrirtækin sem tökum á okkur höggið. Ég sé fram á erfitt ár með ákveðna vöruflokka sem fóru áður til Rússlands en við höfum ekki markað fyrir eins og staðan er í dag. Þetta finnst Gunnari Braga lítið mál, enda er auðvelt að rífa kjaft þegar þú þarft ekki persónulega að greiða fyrir skaðann.

Það eru svo ekki einungis fyrirtækin sjálf sem tapa á þessu ævintýri, ég mun hafa færra fólk í vinnu vegna þessa og þeir starfsmenn sem ég hef nú þegar fá minni yfirvinnu. Þetta hefur svo að sjálfsögðu frekari áhrif þar sem að ég þarf að kaupa minni þjónustu frá öðrum, færri vörur og þar sem að ég og óbeinir aðilar fáum minni tekjur, þá er minna sem kemur í ríkissjóð á endanum. Svona gerist um allt land, safnast þegar saman kemur, en þetta þykir ekkert tiltökumál hjá utanríkisráðherra.

Gunnar og meðreiðarsveinar hans hafa réttlætt þessa ákvörðun með því að benda á brot Rússa gagnvart alþjóðalögum. Enginn efast um að ráðamenn í Moskvu eru ekki prúðustu piltarnir í heiminum, hvorki þegar kemur að framferði þeirra gagnvart nágrönnum sínum eða samborgurum. En ef það á að vera eitthvert leiðarljós með því hvaða þjóðir viðskipti eru stunduð við, þá er ég hræddur um að þá yrði lítið um alþjóðaviðskipti. Hægt er að benda á önnur ríki sem ráðherrann gerir enga athugasemd við að stunda viðskipti við en eru þó ekki síðri brotamenn heldur en Rússland, nægir þar að nefna Tyrkland og ýmis harðræðisríki Mið-Austurlanda – ráðherrann virðist þó ekki veigra sér við að fá sér kaffi og kruðerí með erindrekum þeirra!

Hinn kaldi raunveruleiki er sá að það er lítið um „vini“ í heimi alþjóðastjórnmála. Vissulega geta góð samskipti skipt máli og jafnvel geta samskipti á milli leiðtoga þjóðanna haft talsverð áhrif. Við skulum þó ekki blekkja okkur, þegar öllu er á botninn hvolft þá eru það hagsmunir sem ráða för, vináttan má sín lítils gegn hörðum raunveruleika hagsmunanna sem stýra þjóðunum, því frumskylda ríkisstjórna er að vinna að hag eigin þegna, líkt og við sáum í framferði „vina okkar“ í Icesave-deilunni. Þetta sjónarmið virðist þó ekki stjórna Gunnari Braga, hann lætur aðrar þjóðir spila á sig eins og harmonikku og viðhlæjendur hans dansa með. Á meðan mega íslenskir hagsmunir og íslensk fyrirtæki, sem hann á að vera að verja, blæða og til að bæta gráu ofan á svart þá gengur hann fram í fjölmiðlum og málar okkur sem tökum á okkur höggið sem aðila sem „virðast hugsa meira um næsta ársreikning en hag þjóðarinnar“.

Það er best að ég leiðrétti Gunnar Braga með það. Íslenskur sjávarútvegur hefur ávallt verið tilbúinn til að leggja lóð sín á vogarskálarnar. Íslenskur sjávarútvegur er nettógreiðandi til samfélagsins í formi venjulegra skatta, auðlindagjalda og annarra slíkra greiðslna. Þá veit ég um mörg sjávarútvegsfyrirtæki út um allt land sem eru jafnframt dugleg við að styrkja nærsamfélagið hvort sem um er að ræða íþróttastarf eða hjálparstarf, af þeirri einu ástæðu að þau vilja byggja upp sterkt og gott samfélag. Það er alveg ljóst að íslenskur sjávarútvegur reynir eftir fremsta megni að standa sig þegar kemur að samfélaginu hverju svo sem Gunnar Bragi eða aðrir vilja halda fram. Það sem er þó ekki ljóst er hvaða hagsmunir það eru sem utanríkisráðherra er svona æstur í að fórna hagsmunum íslensku þjóðarinnar fyrir. Gunnar Bragi mætti líta sér nær næst þegar hann slær sig til riddara á fundi félaga sinna, sem hugsa fyrst og fremst hvernig megi eyða peningum en ekki afla þeirra fyrir þjóðarbúið.

Höfundur er framkvæmdastjóri.