Halldór Sigmundsson fæddist í Reykjavík 28. júní 1931. Hann lést á Borgarspítalanum 15. janúar 2016.

Foreldrar hans voru hjónin Sigmundur Halldórsson, f. 1. janúar 1898, d. 27. febrúar 1964, og Carla I. Halldórsson, f. 22. desember 1907, d. 18. október 2003. Systir Halldórs er Anna, f. 1934.

Með fyrri konu sinni á hann Ásgerði, f. 6. júní 1956, gift Kristjáni Guðlaugssyni og eiga þau saman þrjú börn: Gísla, f. 1980, Ingveldi, f. 1985, og Viggó, f. 1993.

Eftirlifandi eiginkona hans er Ingibjörg Loftsdóttir, f. 18. febrúar 1939 á Akranesi. Börn þeirra eru: Sigmundur, f. 17. desember 1966, og maki hans er Eileen Yao. Anna Guðrún, f. 1. nóvember 1969, og sambýlismaður hennar er Gunnar Biering Agnarsson. Hún á þrjú börn með Halldóri B. Hreinssyni, fyrrverandi eiginmanni: Hjört, f. 1990, Sigrúnu Ingibjörgu, f. 2000, og Halldór, f. 2007.

Halldór lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1953. Hóf nám í lögfræði, en fór svo í byggingarlist við TH München og í Braunschweig í Þýskalandi. 1963 hóf hann störf hjá Húsameistara ríkisins og vann þar ýmis störf uns hann var skipaður skrifstofustjóri hjá embættinu og gegndi því starfi þar til embættið var lagt niður um áramótin 1996/97.

Útför Halldórs fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 28. janúar 2016, klukkan 13.

Elsku pabbi, nú hefur þú kvatt þennan heim og farið á vit nýrra heimkynna, eftir stutt veikindi. Minningabrotin hrannast upp þegar þú hverfur á brott. Ég hef hugsað mikið undanfarið um samveru okkar í Þýskalandi, þegar við mamma vorum hjá þér, og þú varst við nám. Í minningunni var þetta góður tími, en síðan varð samband okkar stopult, eftir að þið mamma skilduð. Margar góðar endurminningar á ég frá Víðimelnum og Háaleitisbrautinni. Ljóslifandi í huga mínum er endurminning um bílinn hans afa sem ég fékk oft að leika mér í þegar hann var geymdur í bílskúrnum. Og jólaboð ömmu á Háaleitisbrautinni voru alltaf skemmtileg þegar ég hitti frænkur mínar, þá var oft mikið fjör og gaman.

Þegar amma fór í þjónustuíbúð liðu árin án þess að við hittumst, það var ekki fyrr en yngsti sonur minn fæddist að við tókum upp þráðinn að nýju.

Síðustu árin ræddum við stundum um pólitík en þú hafðir ákveðnar skoðanir þar, enda mikill sjálfstæðismaður. Spjall okkar á spítalanum síðasta mánuð og þessi síðustu augnablik okkar mun ég geyma í minningunni.

Elsku pabbi, megir þú nú njóta þess að vera mættur á grænar grundir eilífðarinnar.

Ásgerður.

Elsku pabbi minn var ætíð bóngóður, svo bóngóður var hann að kenna þurfti mér og börnum mínum að nei var ekki til í orðabók hans. Kenndi ég börnum mínum því að betra væri að spyrja ömmu fyrst og svo afa. Pabbi hafði mjög gaman af tölvuleikjum og spiluðum við td. oft á Sinclair spectrum þegar ég var krakki og hef ég greinilega erft þennan gífurlega leikjaáhuga frá honum. Hjörtur, sonur minn, spilaði einnig mikið með pabba á sínum tíma. Einnig hafði pabbi mjög gaman af ævintýraleikjum þar sem ýmsar þrautir og gátur þurfti að leysa til að komast áfram og hringdi pabbi oft í mig og unnum við þá saman í því að leysa ýmsar þrautir til að komast áfram í leikjunum.

Pabbi hlustaði mikið á fréttir og þó að engin klukka væri til staðar þá virtist hann vera með innstillta fréttatímaklukku því alltaf kveikti hann á útvarpi og/eða sjónvarpi til að heyra fréttir og veður. Eitt af hans morgunverkum var að hlusta á veðurfréttir klukka tíu til að vita veðurfar í Reykjavík klukkan níu og skráði hann það samviskusamlega niður í bók. Þessar upplýsingar eru til í bókum hans mörg ár aftur í tímann. Vegna þess hversu vel pabbi fylgdist með veðri og vindum var alltaf hægt að hringja í hann og spyrja hann hvernig veðurhorfur væru næstu daga. Eftir að ég flutti til Hveragerðis þá var hann alltaf með á hreinu hvernig færð og veður væri á Hellisheiðinni. Pabbi vildi vera viss um að ég kæmist þessa leið án teljandi vandræða. Hús pabba og mömmu var alltaf opið okkur systkinunum eftir að við fluttum að heiman sem sýnir sig best í því að við vorum bæði með lykla að heimili þeirra og máttum ganga þar inn og út að vild.

Elsku besti pabbi, minning um þig lifir áfram í hjörtum okkar. Blessuð sé minning þín.

Þín dóttir,

Anna Guðrún.

Ég kynntist Halldóri fyrir um þremur árum síðan en ég hafði þá nýverið kynnst dóttur hans, Önnu Guðrúnu. Hafði hún skilið við barnsföður sinn nokkrum misserum áður en samband þeirra hafði varað frá því hún var á fermingaraldri, eða tæp þrjátíu ár. Þar af leiðandi var Halldór ekki vanur því að hún væri að draga heim ókunnuga pilta og kunni hann því ekki vel að hún væri farin að „deita“ á ný – litla dóttir hans sem nýskriðin var þó á fimmtugsaldurinn. Fljótlega frétti ég að Halldór hefði spurt ástfangna dóttur sína hvort hún ætlaði nokkuð að fjölga sér á ný með þessum manni sem hún var farin að hitta oftar en honum fannst gæfulegt. Kom svo að því að við Halldór hittumst en frú Ingibjörg fékk hann með sér í bíltúr í Hveragerði þar sem þau þáðu kaffi með okkur Önnu Guðrúnu. Bauð ég honum til stofu, settist niður með honum og sagði honum að ég hefði heyrt af áhyggjum hans varðandi hugsanlega fjölgun á barnabörnum hans. Ég lofaði honum því að við myndum ekki fjölga okkur, en ég lofaði honum að við yrðum samt líklega, og vonandi, dugleg að reyna það.

Orðið tengdamóðir kemur oft fyrir í bröndurum. Er það þá oftar en ekki notað til að lýsa manneskju sem hrellir maka barna sinna, manneskju sem er óþarflega afskiptasöm og hnýsin. Ég á eina slíka. Hún er dugleg að skipta sér af og hnýsin er hún en hrellin er hún alls ekki. Rétt er að taka hér fram að mér þykir mjög vænt um hana. Ég er hins vegar ekki dómbær á hvernig tengdamóðir Halldórs hefur verið í gegnum tíðina en hún var að verða 100 ára þegar ég kynntist henni. Halldór var 84 ára er hann lést og átti hann þá enn tengdamóður á lífi! Ætli ég verði jafn heppinn?

Ég er stoltur af því að hafa fengið að kynnast Halldóri, þó kynni okkar næðu ekki yfir mörg ár. Til að fræðast betur um þennan ágæta mann ákvað ég að „gúggla“ hann eftir andlát hans. Ég sé að hann hefur verið duglegur í golfi og í pólitík átti blátt vel við hann. Rakst þó á nokkuð skemmtilegt svar hans við spurningu dagsins í Dagblaðinu Vísi þann 8. mars 1982. Spurt var: „Hvað finnst þér um reyklausan dag?“ Svar hans var: „Prýðilegt, nauðsynlegt. Hafa svona daga sem oftast.“ Þegar þetta stutta viðtal var tekið við hann var reykingaferli hans formlega lokið.

Hugur minn er nú hjá ættingjum Halldórs. Við huggum okkur við að hann er nú laus við þjáningar þær er krabbameini fylgja og treystum því að honum líði nú vel í góðra engla hópi. Mitt hlutverk nú er að hugsa vel um dóttur hans, hlúa að henni og styrkja.

Hvíldu í friði, elsku Halldór.

Gunnar Biering Agnarsson.