Benedikt fæddist á Þverá í Laxárdal 28.1. 1846. Hann var sonur Jóns Jóakimssonar, hreppstjóra á Þverá, og Herdísar Ásmundsdóttur, bónda á Stóruvöllum Davíðssonar.
Bróðir Jóns var Hálfdán, faðir Jakobs Hálfdánarsonar, aðalstofnanda Kaupfélags Þingeyinga. Jón var sonur Jóakims Ketilssonar, bónda á Mýlaugsstöðum, bróður Sigurðar, langafa Ólafs Jóhannessonar forsætisráðherra, Hallgríms og Sigurðar, forstjóra SÍS, og Jakobs fræðslumálastjóra Kristinssona. Sigurður var einnig langafi Aðalbjargar Sigurðardóttur, móður Jónasar Haralz bankastjóra. Þá var Sigurður langafi Jakobínu, móður Davíðs Ólafssonar seðlabankastjóra, föður Ólafs ráðuneytisstjóra.
Eiginkona Benedikts var Guðný, dóttir Halldórs Jónssonar á Geitafelli, bróður Guðnýjar, ömmu Haraldar Níelssonar prófessors, en bróðir Halldórs var Magnús, langafi Björns Sigfússonar háskólabókavarðar, föður prófessoranna Sigfúsar og Helga, og Sveinbjörns, fyrrv. háskólarektors.
Meðal barna Benedikts og Guðnýjar voru Hildur, húsfreyja á Auðnum og Unnur skáldkona (Hulda).
Benedikt bjó á Auðnum, var hreppstjóri og sýslunefndarmaður, einn stofnenda Kaupfélags Þingeyinga og helsti skipuleggjandi þess. Hann var óskólagenginn en þó einn virtasti menningarfrömuður Þingeyinga. Halldór Laxness kallaði hann „föður Þingeyinga“... „af því að hann er faðir þingeyskrar alþýðumenningar“.
Benedikt safnaði þjóðlögum, skrifaði mikið um samvinnumál og kaupfélögin, var stofnandi félagsins Ófeigur í Skörðum og Bókasafns Suður-Þingeyinga. Hann flutti til Húsavíkur um aldamótin, var þar bókavörður og veðurathugunarmaður og var kjörinn heiðursfélagi Húsavíkur.
Sveinn Skorri Höskuldsson skrifaði ævisögu Benedikts sem kom út 1993. Benedikt lést 1.2. 1939.