Baksvið
Baldur Arnarson
baldur@mbl.is
Undirbúningur er hafinn vegna formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu á árunum 2019 og 2020. Tugir ríkja taka nú þátt í störfum ráðsins og eru þátttakendur í fundum þess á annað hundrað. Formennskan verður því eitt umfangsmesta verkefni íslenskrar utanríkisþjónustu til þessa.
Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs 2005-12, vék að breyttu hlutverki ráðsins í ræðu á norðurslóðaráðstefnunni í Tromsö í vikunni, með þeim orðum að fyrir áratug hefðu ekki margir vitað um ráðið. Nú væri hins vegar biðröð eftir þátttöku í ráðinu. Áhuginn á norðurslóðum hefði aukist mikið og tók Støre sem dæmi að Kína og Suður-Kórea væru búin að móta norðurslóðastefnu.
Var það leiðarstef á ráðstefnunni að umsvif á norðurslóðum mundu aukast á næstu árum og áratugum vegna hlýnunar. Meðal annars mundu aukin umsvif í olíuiðnaði, námavinnslu og ferðaþjónustu kalla á innviði og leiða til fólksfjölgunar.
Magnús Jóhannesson var árið 2013 skipaður framkvæmdastjóri Norðurskautsráðsins til fjögurra ára og stýrir hann fastaskrifstofu ráðsins í Tromsö.
Óbreytt skipulag frá upphafi
Átta ríki hafa atkvæðisrétt í ráðinu: Danmörk, Svíþjóð, Noregur, Ísland, Finnland, Bandaríkin, Kanada og Rússland. Þá eiga Grænlendingar og Færeyingar fulltrúa vegna tengsla við Danmörku.Magnús segir til umræðu að endurskoða skipulag ráðsins.
„Utanríkisráðherrar ríkjanna fara með stjórn ráðsins og funda reglulega á tveggja ára fresti. Embættismannanefnd stjórnar ráðinu milli ráðherrafunda. Loks fjalla sex vinnuhópar um mismunandi viðfangsefni sem varða umhverfisvernd og sjálfbæra þróun. Þetta skipulag hefur verið óbreytt frá upphafi en það hafa auðvitað orðið miklar breytingar á verkefnum ráðsins. Það er vilji fyrir því að ræða hvort þetta skipulag sé það heppilegasta og besta til að ná árangri fyrir ráðið í þeim verkefnum sem framundan eru,“ segir Magnús. Í því sambandi má nefna að Bandaríkin sem fara nú með formennsku í ráðinu leggja áherslu á að ráðið setji sér skýrari langtímamarkmið.
Meðal nýrra áhersluatriða í starfi ráðsins nú er að skoða sérstaklega málefni hafsins á Norðurslóðum ekki síst vegna bráðnunar íss og þar með opnunar á hafsvæðum til ýmiss konar framkvæmda eða athafna. Þá leggi Bandaríkin ríka áherslu á að efla skipulag leitar og björgunar á svæðinu og fyrirhugi æfingar á hafi úti á þessu ári.
Einhugur á Alþingi um norðurslóðastefnu
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, flutti erindi á ráðstefnunni í Tromsö.Spurð hvernig íslensk stjórnvöld séu að undirbúa formennskuna í Norðurskautsráðinu rifjar hún upp að frá upphafi kjörtímabilsins hafi verið starfrækt ráðherranefnd um norðurslóðir. Margir ráðherrar fjalli um þessi mál með einum eða öðrum hætti. Hún segir „þverpólitíska samstöðu á Alþingi um að leggja mikla áherslu á málefni norðurslóða“.
Árni Þór Sigurðsson er sendiherra norðurslóðamálefna í íslenska utanríkisráðuneytinu. Hann situr fyrir Íslands hönd í embættismannanefnd Norðurskautsráðsins.
Ný verkefni kalla á breytingar
Hann tekur undir með Magnúsi að endurskoða þurfi hlutverk ráðsins.
„Norðurskautsráðið var auðvitað stofnað sem alþjóðlegur vettvangur um málefni norðurslóða. Það er ekki alþjóðastofnun í þeim skilningi, heldur var ráðið stofnað um afmörkuð verkefni sem varða fyrst og fremst sjálfbæra nýtingu og umhverfisvernd. Verkefnum á norðurskautssvæðinu hefur fjölgað. Ásóknin í þetta svæði og athyglin sem ráðið fær er orðin gríðarlega mikil.
Það hafa á fáum árum orðið breytingar í þessu efni. Það kallar að mínu viti á að menn ræði það innan Norðurskautsráðsins hvort núverandi fyrirkomulag henti þessum nýja veruleika. Við erum átta norðurskautsríkin. Þau eru með fullveldisrétt á þessu svæði og það er enginn að draga það í efa. Síðan erum við með sex samtök frumbyggja sem er einstakt í svona alþjóðlegu samhengi. Þá erum við nú með 32 áheyrnaraðila og fjölmarga sem eru að sækja um slíka aðild.“
Árni Þór segir fjármögnun hluta af þeim vanda sem Norðurskautsráðið stendur frammi fyrir. Framlag aðildarríkjanna sé aðeins hluti af kostnaði við ráðið.
„Síðan er verkefnafjármögnun. Þá geta ríkin, eða einkaaðilar hvort sem er, komið með fjármagn í tiltekið ferli. Það eru margir komnir inn á norðurskautssvæðið til að taka þátt í rannsóknum og vísindastarfi. Þar nægir að nefna Asíuríkin.“
Tveir hópar á Akureyri
Árni Þór segir aðspurður það vera orðið talsvert verk að fylgjast með umræðu í ráðinu.„Þetta er mjög umfangsmikið og fyrir utan embættismannakreðsuna ... eru sex vinnuhópar og eru tveir með skrifstofur á Akureyri. Þar er hópur sem sinnir verndun hafsins á norðurslóðum (PAME) og hópur sem sinnir verndun dýra- og plönturíkisins á norðurslóðum (CAFF),“ segir Árni Þór og útskýrir hvernig sérfræðingar frá ráðuneytum og stofnunum á Íslandi leggi einnig sitt af mörkum í starfinu.
Árni Þór segir ráðið halda tvo til þrjá fundi í embættismannanefndinni á ári.
„Þarna eru fulltrúar allra ríkjanna, allra frumbyggjasamtakanna og allra áheyrnaraðilanna. Þetta geta verið á annað hundrað manns, þótt það séu bara átta ríki sem hafa atkvæðisrétt við borðið,“ segir Árni Þór Sigurðsson.
Formennskuríkið hverju sinni leggur til formann ráðsins. Núverandi formaður er David Balton, aðstoðar-varautanríkisráðherra Bandaríkjanna. Bandaríkin láta af formennsku í lok þessa árs og taka Finnar við keflinu þar til röðin kemur að Íslendingum.