Sigrún Júlíusdóttir
Sigrún Júlíusdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigrúnu Júlíusdóttur og Steinunni Hrafnsdóttur: "Færð eru rök gegn frumvarpi um óhefta áfengissölu, sem ógnar unnum árangri í að draga úr áfengis- og vímuefnanotkun barna og ungmenna."

Nú liggur fyrir Alþingi umrætt frumvarp Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks. Lagt er til að einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á smásölu áfengis verði aflagt og smásala áfengis verði að ákveðnu marki frjáls. Rökin fyrir þeim gróða sem af þessu er ætlað að ná eru þau að tekjur skapist fyrir illa stödd sveitafélög, að draga megi úr útgjöldum ríkisins við rekstur einkaverslunar, almenningur eigi óheftan og auðveldan aðgang að áfengi, m.a með því að geta nálgast það í matvöruverslunum þar sem allir geta verslað. En, þegar við ræðum um gróða eða tap er vert að huga að því hvaða verðmætamat liggur þar að baki. Um hvað snýst gróðinn? Um hvað snýst tapið?

Málsvarar barna- og fjölskylduverndar haldi vöku sinni

Framangreint frumvarp hefur nokkuð verið rætt. Þó hefur samfélagsumræða um það ekki verið eins hávær og efni gætu staðið til. Kann það að tengjast því að of margir álíti umræðu óþarfa, en flest hugsandi og ábyrgt fólk sem ber hag barna og fjölskyldna fyrir brjósti álítur hugmyndina sem að baki liggur vera augljósa fásinnu. Því miður er þó full ástæða til að halda hér vöku sinni, en því fer fjarri að í íslensku samfélagi ríki nú einhugur um markmið velferðar sem byggist á jöfnuði og viðurkenningu á almennri heilbrigðisþjónustu sem forsendu góðs mannlífs. Fulltrúar fjármagns, bankaveldis og braskara hafa haft slík áhrif í samfélagi okkar undanfarið að þjóðarógn hefur stafað af. Rökstuðningur fyrir þessu frumvarpi speglar verðmætamat og hagsmunaáherslur sem einkenna þessi sömu markaðsöfl. Hér má heyra sjónarmið talsmanna óheftrar frjálshyggju og skeytingarleysis um gildi mennsku, mannauðs og barnaverndar.

Unnum árangri verði ekki varpað á glæ

Í rökstuðningi með frumvarpinu koma fram sjónarmið sem eru í andstöðu við tilmæli alþjóðlegra heilbrigðisyfirvalda og nýsamþykkta stefnu íslenskra stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum. Hér er byggt á traustum rannsóknum og umfangsmiklum tölfræðiupplýsingum um lýðheilsu sem óþarfi er að rekja. Þó er ástæða til að minna á niðurstöður um þann umtalsverða árangur sem hefur náðst í að draga úr áfengis- og vímuefnanotkun íslenskra ungmenna og vakið hefur athygli í Evrópu. Með þessu frumvarpi er einnig gengið gegn þeirri velferðarstefnu sem Norðurlöndin hafa fylkt sér um og er fjölmörgum ríkjum fyrirmynd í stefnumörkum um stýrt aðgengi að áfengi og öðrum vímuefnum. Hér er jafnframt reynt að vinna gegn þeim mikilvægu markmiðum sem náðst hafa á undangenginni öld með staðfastri stefnumörkun íslenskra stjórnvalda. Með því er grafið undan áhrifum veigamikilla aðgerða sem beitt hefur verið gegn áfengis- og vímuefnavanda, m.a. með stuðningi launþega- og verkalýðssamtaka. Nægir þar að nefna upphaflegu bannlögin frá 1915 og síðan skynsamlega liðkun og umbreytingar á lögunum í allmörgum áföngum fram eftir öldinni, nú síðast í heildstæðri stefnumörkun um áfengis- og vímuefnavarnir ásamt með aðgerðaáætlun til að draga úr skaðsemi áfengisvandans, fram til ársins 2020. Um þessa sögulegu þróun má m.a. lesa nánar í vandaðri greinargerð með umsögn ÁTVR um þetta frumvarp til nefndarsviðs Alþingis.

Ábyrg afstaða til manngildis eða fjárgróðasjónamið

Með hugmyndinni um frjálsa verslun með áfengi er jafnframt unnið gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, eins og fram kemur í umsögn Umboðsmanns barna og þeirra samtaka sem standa vilja vörð um velferð barna og ungmenna og hafa sent nefndasvið Alþingis andmæli sín við frumvarpinu. Við nánari skoðun á tugum innsendra umsagna ábyrgra aðila til nefndasviðs Alþingis er auðvelt að sjá hvernig ólík gildi endurspeglast eftir því hvort ábyrg afstaða til manngildis eða fjárgróðasjónamið liggja til grundvallar.Frumvarpið hefur verið til umræðu hjá Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd, RBF, við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Markmið þeirrar stofnunar er að stuðla að velferð barna og fjölskyldna með því að efla rannsóknir og miðla niðurstöðum um rannsóknir, fagþekkingu og úrræði á því sviði börnum til verndar og almenningi til hagsbóta (sjá nánar www.rbf.is).

Ástæða er til að koma á framfæri harðri andstöðu við framangreint frumvarp, bæði heildarfrumvarpið og hugmyndir um útfærslu. Æskilegt er að leggja enn frekari áherslu á eflingu rannsókna, greiningar og lausna á þeim vanda sem neysla áfengis-og vímuefna hefur valdið í íslensku samfélagi. Þannig verði hlúð að manngildi og heilbrigði þjóðarinnar með vernd barna og ungmenna að leiðarljósi í stað þess að stuðla að auknum vanda og niðurrifi þess sem áunnist hefur.

Sigrún er prófessor við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Steinunn er dósent við Félagsráðgjafardeild HÍ

Höf.: Sigrúnu Júlíusdóttur, Steinunni Hrafnsdóttur