Dýrastur? Aron Pálmarsson yrði dýrasti handboltamaður heims ef af því verður að Kiel kaupi hann til baka frá Veszprém í Ungverjalandi.
Dýrastur? Aron Pálmarsson yrði dýrasti handboltamaður heims ef af því verður að Kiel kaupi hann til baka frá Veszprém í Ungverjalandi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is Þýska meistaraliðið THW Kiel er reiðbúið að greiða allt að fimm milljónir evra, jafnvirði rúmlega 700 milljóna króna, fyrir Aron Pálmarsson frá ungverska meistaraliðinu Veszprém.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Þýska meistaraliðið THW Kiel er reiðbúið að greiða allt að fimm milljónir evra, jafnvirði rúmlega 700 milljóna króna, fyrir Aron Pálmarsson frá ungverska meistaraliðinu Veszprém. Þetta hefur Morgunblaðið eftir heimildum. Fyrsta tilboðið frá Kiel hljóðaði upp á þrjár milljónir evra en því munu forráðamenn Veszprém hafa hafnað. Þá mun Kiel hafa hækkað tilboð sitt upp í fimm milljónir evra. Forráðamenn Veszprém velta tilboðinu fyrir sér og svara af eða á fyrir vikulokin.

Ljóst er að ef af kaupunum verður þá verður um metupphæð að ræða fyrir handknattleiksmann. Á liðnu sumri greiddi PSG tvær milljónir evra fyrir Nikola Karabatic frá Barcelona. Karabatic átti þá ár eftir af samningi sínum við Barcelona. Aron er samningsbundinn Veszprém fram til 30. júní 2018. Aron kom til ungverska liðsins frá Kiel á liðnu sumri eftir að samningur hans við þýsku meistarana rann út.

„Ég kem af fjöllum,“ sagði Aron í samtali við Morgunblaðið í gær.

Ef samkomulag næst á milli Kiel og Veszprém um kaupin vill þýska liðið fá Aron til sín strax þannig að hann verði gjaldgengur þegar keppni hefst á nýjan leik í þýsku 1. deildinni um aðra helgi.

Kiel varð fyrir miklu áfalli á dögunum þegar landsliðsmennirnir Steffan Weinhold og Christian Dissinger meiddust. Þeir verða frá keppni vikum saman af þeim sökum. René Toft Hansen sleit krossband á milli jóla og nýárs og varnar- og línumaðurinn Patrick Wiencek er einnig frá vegna krossbandsslits. Forráðamenn félagsins, með Alfreð Gíslasonar þjálfara í broddi fylkingar, eru af þeim sökum tilbúnir að teygja sig langt til þess að fá liðsstyrk nú þegar. Reyndar hefur félagið tryggt sér línumann í stað Hansens.

Helmingur af veltu Kiel

Fimm milljónir evra eru há upphæð í heimi evrópsks handknattleiks. Samkvæmt tölum sem tímaritið Handball Inside birti í desemberhefti sínu þá er velta Kiel á núverandi keppnistímabili 9,5 milljónir evra, eða um 1.250 milljónir króna. Aðeins franska stórliðið PSG veltir meiru eða 16,5 milljónum króna og ber höfuð og herðar yfir önnur félagslið í Evrópu. Næst á eftir Kiel eru Veszprém með 9 milljónir evra, Kielce 8,5 og Barcelona með 8.

Ef af kaupunum verður er ljóst að fjársterkir aðilar aðstoða Kiel við kaupin.