Hulda Ragnheiður Árnadóttir
Hulda Ragnheiður Árnadóttir
Eftir Huldu Ragnheiði Árnadóttur: "Hvað er vátryggt og gegn hverju?"

Á Íslandi er skylt að vátryggja allar fasteignir gegn náttúruhamförum og lausafé sem brunatryggt er hjá vátryggingarfélagi. Viðlagatrygging Íslands vátryggir gegn eldgosum, jarðskjálftum, skriðuföllum, snjóflóðum og vatnsflóð. Þetta er tæmandi talning og því eru aðrar áhættur ekki vátryggðar hjá stofnuninni, eins og foktjón.Vátrygging sem þessi er mikilvægt samfélagslegt atriði í ljósi þess að við búum á landi þar sem náttúruöflin geta látið til sín taka með alvarlegum afleiðingum.

Jarðskjálftinn á Suðurlandi árið 2008

Árið 2008 varð mikið tjón á eignum af völdum jarðskjálfta sem gekk yfir Suðurland og bárust um 5.500 tjónstilkynningar til stofnunarinnar í kjölfarið. Undanfarið hafa birst greinar í blaðinu frá tjónþolum þar sem lýst er samskiptum þeirra við Viðlagatryggingu Íslands vegna tjóna sem þeir urðu fyrir í jarðskjálftanum.

Réttarheimildir og meðferð tjónamála

Af þessu tilefni er ástæða til að skýra meðferð tjónamála hjá Viðlagatryggingu Íslands. Viðlagatrygging Íslands er vátryggingafélag sem starfar samkvæmt lögum og reglugerð sem sett hefur verið á grundvelli þeirra. Auk þess gilda almenn lög um vátryggingarfélög um stofnunina, stjórnsýslulög, lög um persónuvernd og upplýsingalög, auk fleiri laga. Mælt er fyrir um málsmeðferðina í lögum nr. 55/1992 um Viðlagatryggingu Íslands og reglugerð nr. 83/1993 um Viðlagatryggingu Íslands. Þessar reglur eru aðgengilegar á heimasíðu stofnunarinnar: http://www.vidlagatrygging.is/

Þegar vátryggingaratburður hefur gerst skal vátryggður þegar í stað tilkynna það. Viðlagatrygging Íslands, sem fær slíka tilkynningu, skal svo fljótt sem auðið er gera ráðstafanir til að fá úr því skorið hvort bæta skuli tjónið og láta meta það eftir atvikum.Tjónþola er ávallt gefinn kostur á að vera viðstaddur matið. Einnig er málið ávallt borið undir tjónþola og honum gefinn kostur á að tjá sig og koma að sínum sjónarmiðum, áður en ákvörðun er tekin í málinu.

Ágreiningur um niðurstöðu

Uni tjónþoli ekki ákvörðuninni getur hann kært til stjórnar Viðlagatryggingar Íslands, sem tekur málið fyrir og úrskurðar um ágreininginn eins fljótt og kostur er. Tjónþoli getur síðan kært úrskurð stjórnar til úrskurðarnefndar, sem starfar sjálfstætt og óháð samkvæmt lögum og heyrir beint undir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Samkvæmt lögum og reglum sem stofnunin starfar eftir, er tjónþola gert kleift að reka mál sitt sjálfur á stjórnsýslustigi. Tjónþoli þarf því ekki að stofna til kostnaðar, s.s. lögfræði- og matskostnaðar, við rekstur máls síns. Falli slíkur kostnaður til hjá tjónþola, er Viðlagatryggingu Íslands ekki heimilt að greiða hann.

Uni tjónþoli ekki úrskurði úrskurðarnefndar, getur hann stefnt málinu fyrir héraðsdóm með tilheyrandi kröfugerð, skv. lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991, þ.m.t. kröfu um málskostnað.

Hlutfall ágreiningsmála

Af þeim 5.500 tjónstilkynningum sem bárust í kjölfar atburðarins árið 2008 hafa langflestar verið afgreiddar, fyrir utan níu kærumál sem eru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd. Nú þegar hefur úrskurðarnefnd úrskurðað í 13 kærumálum, sem er 0,4% allra þeirra mála sem hafa verið til meðferðar hjá Viðlagatryggingu Íslands vegna atburðarins. Auk þess hefur stjórn stofnunarinnar tvö kærumál til meðferðar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands.

Höf.: Huldu Ragnheiði Árnadóttur