Sviðsljós
Björn Jóhann Björnsson
bjb@mbl.is
„Þetta er vissulega stór dagur hjá okkur, hér í Bolungarvík hefur ekki verið gerður út togari í rúm 20 ár,“ segir Jakob Valgeir Flosason, framkvæmdastjóri útgerðarfyrirtækisins Jakobs Valgeirs ehf. í Bolungarvík, en haldið var upp á það í gær að fyrirtækið hefur fengið nýjan togara til landsins frá Noregi, sem mun fá nafnið Sirrý ÍS 36. Heimamenn gátu skoðað skipið í gær og þegið veitingar í Slysavarnahúsinu á eftir, en skipið kom til heimahafnar í fyrrakvöld.
Skipið er um 700 tonn að stærð, 45 metra langt og 10 metrar á breidd, smíðað á Spáni árið 1998 en hefur verið gert út í Noregi. Jakob Valgeir ehf. keypti skipið af norska fyrirtækinu Havfisk á 20 milljónir norskra króna, jafnvirði um 300 milljóna króna.
Sirrý fer ekki strax til veiða þar sem breytingar verða gerðar á millidekki og sett upp svonefnt Rotex-kerfi frá 3X á Ísafirði. Skipinu verður næst siglt til Ísafjarðar af þessum sökum þar sem iðnaðarmenn frá 3X og Vélsmiðjunni Þristi munu vinna við breytingarnar næstu 2-3 vikurnar.
Vinnsla aukin í 7.000 tonn
Jakob Valgeir framkvæmdastjóri segir kaupin á togaranum hafa verið til skoðunar síðustu tvö misserin, og hentugt skip loks fundist í Noregi. Ekki hafi staðið til að ráðast í nýsmíði. Sirrý mun leysa línubátinn Þorlák af hólmi og aflaheimildir færast á milli, um 3.500 þorskígildistonn, mest þorskur og ýsa. Áhöfn Þorláks fer yfir á nýja skipið og skipstjóri verður áfram Sigurgeir Þórarinsson. Um 14 manns verða í áhöfn Sirrýjar.Til viðbótar hefur fyrirtækið tekið á móti afla frá nokkrum trillum í Bolungarvík. Jakob segir ekki standa til að fjölga bátum, með tilkomu nýja togarans sé vonast til að hráefnisöflun verði jafnari og meiri. Jakob Valgeir ehf. hefur verið að taka á móti 4.000-5.000 tonnum á ári í fiskvinnsluna en framkvæmdastjórinn reiknar með að á þessu ári takist að fara upp í um 7.000 tonn. „Vonandi getum við eitthvað aukið kvótann en það gerist ekki strax,“ segir hann.
Alls starfa um 140 manns hjá fyrirtækinu í Bolungarvík, til sjós og lands, og segir Jakob að verkefnastaðan sé mjög góð um þessar mundir.
Nafnið á nýja skipinu er í höfuðið á móðurömmu Jakobs, Sigríði Brynjólfsdóttur, eiginkonu Ásgeirs Guðbjartssonar, skipstjóra á Ísafirði og aflakóngs. Nafnið var áður notað á línubát í Bolungarvík sem sló Íslandsmet fyrir nokkrum árum og veiddi yfir 1.700 tonn á einu fiskveiðiári. Áður hét báturinn Guðbjörg.
„Við vonumst auðvitað til þess að þessi gæfa sem fylgdi línubátnum Sirrý fylgi nýja skipinu,“ segir Jakob Valgeir að endingu.
Fyrsti togarinn í 20 ár
Koma togarans Sirrýjar ÍS til Bolungarvíkur markar talsverð tímamót fyrir heimamenn. Þar hafa ekki verið gerðir út togararar í liðlega 20 ár, eða síðan togararnir Dagrún ÍS og Heiðrún ÍS voru seldir á árunum eftir gjaldþrot útgerðarfyrirtækisins Einars Guðfinnssonar hf. í Bolungarvík árið 1993.Síðan þá hafa línubátar og trillur landað afla til vinnslu í bænum. Jakob Valgeir ehf. er stærsta útgerðarfyrirtækið í Bolungarvík. Fyrra félag núverandi eigenda, S44 ehf., fór í þrot árið 2012 og lýstar kröfur í búið námu yfir 20 milljörðum króna. Áður hét félagið JV ehf.