Jákvæðar fréttir berast af nokkrum leikmönnum íslenska landsliðsins í knattspyrnu sem að óbreyttu verða í landsliðshópnum sem leikur á Evrópumótinu í Frakklandi sem hefst eftir rúma fjóra mánuði.
Jákvæðar fréttir berast af nokkrum leikmönnum íslenska landsliðsins í knattspyrnu sem að óbreyttu verða í landsliðshópnum sem leikur á Evrópumótinu í Frakklandi sem hefst eftir rúma fjóra mánuði.

Gylfi Þór Sigurðsson hefur átt góðu gengi að fagna með Swansea á nýju ári. Kolbeinn Sigþórsson er loksins byrjaður að skora með Nantes í Frakklandi. Aron Einar Gunnarsson er aftur orðinn lykilmaður hjá Cardiff. Markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson er byrjaður að æfa með Nijmegen eftir að hafa verið skorinn upp í öxl fyrir þremur mánuðum og Viðar Örn Kjartansson er kominn með fast land undir fótum eftir að hann samdi við sænska liðið Malmö í gær.

En það er enn óvissa hjá nokkrum leikmönnum og mikilvægt að þeirra mál komist á hreint sem allra fyrst. Alfreð Finnbogason á til að mynda erfitt uppdráttar hjá Olympiacos og þarf að komast að hjá nýju liði sem allra fyrst og Eiður Smári Guðjohnsen er án félags. Undirritaður hefur verið í sambandi við umrædda leikmenn á síðustu dögum og báðir eru þeir bjartsýnir á að finna sér ný lið áður en langt um líður.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála hjá besta handboltamanni þjóðarinnar, Aroni Pálmarssyni, en við á Mogganum höfum áreiðanlegir heimildir fyrir því að Alfreð Gíslason, þjálfari þýska meistaraliðsins Kiel, vilji fá strákinn sinn til baka frá Vezsprém í Ungverjalandi. Sjálfur myndi ég fagna því að fá Aron aftur í þýsku Bundesliguna en það kæmi mér samt ekki á óvart ef lið á borð við Barcelona og Paris SG væru líka með Aron í sigtinu ef Ungverjarnir eru tilkippilegir að selja leikmanninn.