Setning Illugi Gunnarsson sagði fyrstu sögnina fyrir Zia Mahmood þegar Bridshátíð var sett í fyrra.
Setning Illugi Gunnarsson sagði fyrstu sögnina fyrir Zia Mahmood þegar Bridshátíð var sett í fyrra.
Bridshátíð hefst formlega í kvöld en um er að ræða opið alþjóðlegt bridsmót sem hefur verið haldið árlega í Reykjavík frá árinu 1982.

Bridshátíð hefst formlega í kvöld en um er að ræða opið alþjóðlegt bridsmót sem hefur verið haldið árlega í Reykjavík frá árinu 1982.

Meðal keppenda eru heimsþekktir spilarar, þar á meðal Zia Mahmood, sem oft hefur spilað hér á landi en hann varð sjötugur nú í janúar. Hann er einnig nýbakaður heimsmeistari öldunga. Bretarnir Andy Robson og David Gold, sem kepptu fyrir hönd Englands í opna flokknum á heimsmeistaramótinu í brids á síðasta ári eru skráðir til leiks og sömuleiðis tveir spilarar úr heimsmeistaraliði Búlgara, þeir Ivan Nanev og Vladimir Mihov. Nevena Senior, sem spilaði í bronsliði Englands í kvennaflokki á HM í fyrra, mun einnig spila á mótinu. Þá eru allir sterkustu íslensku spilararnir tilbúnir í slaginn

Mótið er haldið á Hótel Natura og hefst með tvímenningskeppni í kvöld. Þar hafa 144 pör skráð sig til leiks og eru keppendur frá ýmsum löndum. Tvímenningskeppninni lýkur á föstudagskvöld og á laugardag hefst sveitakeppni þar sem 88 sveitir eru skráðar. Bridshátíðinni lýkur um kvöldmatarleytið á sunnudag.

Hægt er að fylgjast með mótinu á staðnum og á netinu, á heimasíðu Bridgesambands Íslands, bridge.is, og á vefnum bridgebase.com. gummi@mbl.is