Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Nokkuð er farið að bera á uppsögnum meðal starfsmanna Rio Tinto Alcan í álverinu í Straumsvík, en pattstaða ríkir þar nú í kjaradeilu starfsmanna og forsvarsmanna fyrirtækisins.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Nokkuð er farið að bera á uppsögnum meðal starfsmanna Rio Tinto Alcan í álverinu í Straumsvík, en pattstaða ríkir þar nú í kjaradeilu starfsmanna og forsvarsmanna fyrirtækisins. Er nú svo komið að engin tilboð liggja á samningaborðinu og ekki hefur verið boðað til nýs fundar hjá sáttasemjara.

Gylfi Ingvarsson, talsmaður starfsmanna í Straumsvík, segir bæði millistjórnendur og almenna launamenn vera að íhuga stöðu sína. „Þrír af sjö framkvæmdastjórum hafa þegar sagt upp og eru komnir í vinnu annars staðar. Maður heyrir það einnig að aldrei fyrr hafi annar eins fjöldi af millistjórnendum í Straumsvík hafið leit að vinnu annars staðar og nú. Það er því ekki einungis hinn almenni launamaður sem er að flýja,“ segir hann.

Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi, staðfestir að nokkrir hafi sagt upp störfum en ekki sé um „stórfelldar“ uppsagnir að ræða. „Það sóttu tugir manna um auglýstar stöður framkvæmdastjóra svo álverið er enn eftirsóttur vinnustaður,“ segir hann.

Ekki hvikað frá kröfum um verktöku

Í ljósi erfiðrar stöðu fyrirtækisins var Gylfi Ingvarsson spurður hvort ekki hefði komið til álita að samþykkja auknar verktökuheimildir, eins og fyrirtækið hefur krafist, til að liðka fyrir samningum.

Hann segir að aldrei hafi komið til greina að samþykkja aukna verktöku ef einnig væri fallið frá þeim ákvæðum í núverandi samningi sem krefjast þess að greidd séu sömu laun fyrir vinnu í verktöku og greidd eru fyrir sömu vinnu í álverinu. Þar sem það hafi ávallt verið hluti af kröfum Rio Tinto hafi ekki komið til greina að verða við kröfum þess um auknar verktökuheimildir.