Viðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Lars Bohinen, þjálfari norska knattspyrnuliðsins Sandefjord, er afar ánægður með að vera kominn með markvörðinn Ingvar Jónsson í sínar raðir. Ingvar gekk í gær til liðs við Sandefjord eftir að hafa verið á mála hjá Start á síðasta ári og samdi við félagið til þriggja ára.
„Við fengum til okkar metnaðarfullan markvörð sem berst um sæti í landsliðshópi Íslands. Ingvar er mjög heilsteyptur, góður maður gegn manni, kemur boltanum vel frá sér og er öflugur á milli stanganna. Við erum ánægðir með að hafa fengið hann á þriggja ára samningi því það er mikilvægt fyrir okkur að vera með stöðugleika í markvarðarstöðunni,“ sagði Bohinen á vef félagsins en þjálfarinn lék 49 landsleiki fyrir Noreg og spilaði m.a. með Nottingham Forest, Derby og Blackburn í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur þjálfað Sandefjord frá 2014.
Ingvar er sem kunnugt er í baráttu við Hannes Þór Halldórsson, Ögmund Kristinsson, Harald Björnsson og Gunnleif Gunnleifsson en þrír af þessum fimm munu að óbreyttu skipa markvarðarstöðurnar í landsliði Íslands á EM í Frakklandi í sumar. Hann kom til Start frá Stjörnunni fyrir síðasta tímabil en fékk aðeins tækifæri í einum leik í norsku úrvalsdeildinni og var lánaður til Sandnes Ulf þar sem hann spilaði alla seinni umferðina, 15 leiki, í 1. deildinni.
Sandefjord féll úr úrvalsdeildinni í haust en hefur styrkt sig umtalsvert og stefnir beint upp á ný. Félagið hefur lengi flakkað á milli tveggja efstu deildanna. Tveir Íslendingar hafa áður verið á mála hjá Sandefjord. Guðmundur Pétursson spilaði 4 úrvalsdeildarleiki með liðinu haustið 2007, sem lánsmaður frá KR. Kjartan Henry Finnbogason lék með því í 1. deild 2008, skoraði 9 mörk og tók þátt í að koma liðinu aftur upp í úrvalsdeild.