[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Bændasamtök Íslands telja mögulegt að lækka matvöruverð á Íslandi. Til þess þurfi að grípa til tiltekinna ráðstafana sem aðallega snúa að versluninni í landinu.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Bændasamtök Íslands telja mögulegt að lækka matvöruverð á Íslandi. Til þess þurfi að grípa til tiltekinna ráðstafana sem aðallega snúa að versluninni í landinu. Telur bændaforystan að verslunarfyrirtæki taki of stóran hluta til sín á kostnað neytenda og bænda. Úr því þurfi að bæta.

Bændasamtök Íslands hafa gert úttekt á þáttum sem hafa áhrif á matvöruverð. Formaður Bændasamtakanna, Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, kynnti niðurstöðurnar á blaðamannafundi í gær. Fram kom hjá Sindra að umræða um vöruverð, einkum um verð á matvælum, er ástæðan fyrir því að ráðist var í úttektina. Bændasamtökin hafi haldið sér að mestu til hlés en nú sé tímabært að koma meira inn í umræðuna.

Í úttektinni er farið yfir ýmsa þætti sem hafa áhrif á verðlag og reifað hvað þurfi að gera svo lækka megi matvöruverð á Íslandi.

Skilar sér ekki til neytenda

Bent er á að í skýrslu Samkeppnisstofnunar um dagvörumarkaðinn sem kom út í mars í fyrra kemur fram að þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi styrkst frá byrjun árs 2011 til 2014 hafi áhrifin ekki komin fram í smásöluverði. Einnig komi fram vísvendingar um að álagning innlendra birgja og dagvöruverslana á innfluttum vörum hafi hækkað. Hagstæð gengisþróun hafi ekki skilað sér til neytenda.

Jafnframt er vakin athygli á vísbendingum um að lækkun skatta og gjalda skili sér ekki að fullu til neytenda. Vísað er til verðlagseftirlits ASÍ sem komst að þeirri niðurstöðu að við breytingu á vörugjöldum og virðisaukaskatti í ársbyrjun 2015 hafi verð á raftækjum og byggingavörum ekki lækkað í samræmi við lækkun gjalda. Sömuleiðis afnám sykurskatts. Þegar litið er nær landbúnaðinum má geta þess að Sindri sagði að innflutningur á nautakjöti hefði margfaldast á árinu 2014, magntollar lækkað um tvo þriðju og heimsmarkaðsverð lækkað. Engu að síður hafi verð á nautahakki hækkað um 15% til neytenda á Íslandi.

Í skýrslunni er vitnað til skýrslu Samkeppniseftirlitsins þar sem fram kemur það mat að fákeppni ríki í smásölu á dagvörumarkaði. Fjórar verslunarkeðjur hafa samanlagt um 90% markaðshlutdeild. Sömuleiðis kemur þar fram að arðsemi dagvöruverslana hér á landi er mikil, samanborið við önnur lönd og hafi farið batnandi. Arðsemi dagvörusala er talin 35-40% hér á landi en til samanburðar getið að meðalarðsemi eigin fjár hjá sambærilegum verslunum er 13% í Evrópu og 11% í Bandaríkjunum.

Í úttekt Bændasamtakanna kemur fram að verð á innlendum landbúnaðarafurðum hefur haldist stöðugt frá 2007 og fylgt vísitölu neysluverðs, þrátt fyrir að bændur hafi orðið að taka á sig aukinn kostnað við aðföng og lækkun ríkisstyrkja. Aftur á móti hafi verð á innfluttum matvælum hækkað meira og sveiflast allnokkuð.

Stjórnvöld beiti sér

Niðurstaða úttektarinnar er að unnt sér að lækka verð á matvörum. Til þess þurfi að grípa til tiltekinna aðgerða. Í fyrsta lagi er nefnt að auka þurfi samkeppni á dagvörumarkaði. Þar þurfi Samkeppniseftirlitið að beita sér í auknum mæli, með þeim úrræðum sem stofnunin hefur. Einnig þurfi að tryggja að þegar gjöld og álögur lækka skili ágóðinn sér til neytenda. Það sjái stjórnvöld um og launþegarhreyfingin þurfi áfram að veita öflugt aðhald.

Í öðru lagi er stungið upp á því að ríkið styðji bændur til að uppfylla auknar kröfur til aðbúnaðar og velferðar húsdýra til að draga úr áhrifum sem þessar kröfur hafa á verð búvara.

Í þriðja lagi þurfi að tryggja að þegar árangur næst í hagræðingu í íslenskum landbúnaði skili ágóðinn sér til neytenda og bænda en ekki aðeins til fyrirtækja í verslunarrekstri.

Allir fái réttlátan hlut

„Þegar kemur að matvörumarkaði þurfa allir að fá sinn réttláta hluta af kökunni; neytendur, bændur og verslunin. Eins og staðan er núna er ljóst að verslunin tekur of stóran hluta til sín á kostnað neytenda og bænda og úr því þarf að bæta,“ segir í skýrslunni.