Lokaval á tillögum að haustsýningu í Hafnarborg 2016 hefur nú farið fram og var það tillaga Rúnu Thors iðnhönnuðar og Hildar Steinþórsdóttur arkitekts sem varð fyrir valinu. Sýningartillaga þeirra ber vinnutitilinn Keramik+ og snýst um að kanna efniseiginleika keramiks þar sem þær munu fá listamenn og hönnuði til að kanna samspil keramiks við önnur efni og nýjar og gamlar aðferðir.
Hildur og Rúna skipa hönnunarteymið TOS og hafa unnið saman frá árinu 2011. Þær vinna mest með steinsteypu og trefjasteypu og nálgast viðfangsefni sín í gegnum leik og tilraunir. „Í vinnu sinni leggja þær áherslu á opið og skapandi ferli. Í upphafi verks elta þær það sem heillar og treysta aðferðafræðinni til að leiða þær á óvæntar slóðir,“ segir í tilkynningu.
TOS hlaut verkefnastyrk úr Hönnunarsjóði Íslands í fyrra auk þess sem Rúna og Hildur hlutu starfslaun hönnuða til tveggja mánaða hvor í ár. Styrkirnir verða nýttir til áframhaldandi þróunar á verkefninu Inngangur að efni og tilrauna með trefjasteypu í verksmiðju Swiss Pearl í Sviss.