Guðmundur Magnússon
gudmundur@mbl.is
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er í hópi þjóðarleiðtoga sem sækja alþjóðlega ráðstefnu í London 4. febrúar næstkomandi þar sem rætt verður hvernig auka megi fjárhagslega aðstoð við Sýrlendinga vegna neyðarinnar í landinu af völdum borgarastyrjaldarinnar. Þetta staðfestir Sigurður Már Jónsson, blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar, í samtali við Morgunblaðið.
Forsætisráðherra mun gera grein fyrir framlagi Íslands til málsins og stefnu ríkisstjórnarinnar hvað varðar fjárhagslegan stuðning og móttöku flóttafólks hér á landi.
Noregur, Bretland, Þýskaland, Kúveit og Sameinuðu þjóðirnar boða í sameiningu til ráðstefnunnar. Hún er haldin í framhaldi af samskonar ráðstefnu í Kúveit í fyrra. Meðal þeirra sem ávarpa ráðstefnuna eru Erna Solberg, David Cameron, Angela Markel og Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna (SÞ).
Tólf milljónir á vergangi
Í fyrra settu SÞ sér það markmið að safna 8,4 milljörðum bandaríkjadollara til Sýrlandshjálparinnar. Ekki tókst að safna nema 3,3 milljörðum dollara. Nú á að bretta upp ermarnar, enda hefur neyðin aukist.Talið er að tæplega 12 milljónir Sýrlendinga hafi orðið að yfirgefa heimkynni sín vegna stríðsins. Rúmlega helmingur þeirra er enn í flóttamannabúðum innan landamæra Sýrlands, en rúmlega fjórar milljónir manna hafa flúið land. Um 13,5 milljónir manna innan Sýrlands eru í þörf fyrir aðstoð alþjóðasamfélagsins.
Tveggja milljarða aðstoð
Síðastliðið haust samþykkti ríkisstjórnin að verja tveimur milljörðum króna til flóttamannamála. Verður fjárframlagið notað til stuðnings við alþjóðastofnanir og hjálparsamtök sem vinna með flóttafólki erlendis. Að sögn Urðar Gunnarsdóttur, blaðafulltrúa utanríkisráðuneytisins, hafa Íslendingar stutt verkefni á vegum Matvælaaðstoðar SÞ, Barnahjálpar SÞ, Flóttamannahjálpar SÞ, Rauða krossins, SOS barnaþorpa, Barnaheilla og Hjálparstarfs kirkjunnar, auk stuðnings við Palestínuflóttamannaaðstoð SÞ, en hún hefur m.a. aðstoðað flóttafólk frá Sýrlandi.Fjárveitingin verður einnig nýtt til móttöku flóttafólks og hælisleitenda á Íslandi, þar sem áhersla verður lögð á að hjálpa fólki að koma sér vel fyrir hér á landi, aðlagast samfélaginu og hefja hér nýtt líf. Er þar bæði gert ráð fyrir flóttamönnum sem hingað koma fyrir milligöngu Flóttamannastofnunar SÞ og þeim sem koma til landsins eftir öðrum leiðum.