Nýbygging Framkvæmdir við hús Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur hafa gengið hratt fyrir sig frá því fyrsta skóflustungan var tekin 8. mars í fyrra.
Nýbygging Framkvæmdir við hús Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur hafa gengið hratt fyrir sig frá því fyrsta skóflustungan var tekin 8. mars í fyrra. — Morgunblaðið/Golli
Góður gangur er í framkvæmdum við hús Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu í Reykjavík. Auður Hauksdóttir prófessor, forstöðumaður stofnunarinnar, segir að örlitlar tafir hafi þó orðið á framkvæmdum.

Góður gangur er í framkvæmdum við hús Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu í Reykjavík. Auður Hauksdóttir prófessor, forstöðumaður stofnunarinnar, segir að örlitlar tafir hafi þó orðið á framkvæmdum. Taka átti húsið í notkun í október á þessu ári, en það frestast til áramóta. „Það þýðir að kennsla hefst ekki í húsinu fyrr en haustið 2017, en starfsmenn flytja þó inn og hefja undirbúning að sýningum og annarri starfsemi,“ segir Auður.

Í gær undirrituðu forsvarsmenn ellefu stórra fyrirtækja úr íslensku atvinnulífi og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, samninga um veglega styrki til stofnunarinnar. Fyrirtækin eru Landsbankinn, Icelandair Group, Radisson Blu Hótel Saga, Arion banki, Alvogen, Bláa lónið, Kvika, Reginn, Íslandsbanki, Íslandshótel og N1. Styrkirnir eru allir nema einn til þriggja ára og nema árleg framlög frá 500 þúsundum til tveggja milljóna króna.

Nýbygging Vigdísarstofnunar mun hýsa alþjóðlega tungumálamiðstöð auk kennslu og rannsókna í erlendum tungumálum. Þar verður einnig Vigdísarstofa og aðstaða fyrir ráðstefnur og sýningar um framandi tungumál og menningu sem opnar verða gestum og gangandi. Sérstök áhersla verður lögð á að miðla upplýsingum um tengsl Íslands við umheiminn í sögu og samtíð til erlendra ferðamanna. Auður Hauksdóttir segir að í þessu nýja þekkingarsetri felist gríðarleg tækifæri til nýsköpunar, ekki síst í tengslum við vísindastarfsemi og menningartengda ferðaþjónustu.

Áætlaður heildarkostnaður við nýbygginguna er 1,6 milljarðar króna. Í lok árs 2015 námu framlög til byggingarinnar röskum 12 þúsund milljónum. Auk Háskóla Íslands, ríkis og Reykjavíkurborgar hafa fjölmargir innlendir og erlendir aðilar lagt framkvæmdunum lið með rausnarlegum hætti. Nemur sjálfsaflafé um hálfum milljarði. Stærsta einstaka framlagið er frá A.P. Møller-sjóðnum í Danmörku, 200 milljónir króna.

gudmundur@mbl.is