Daníel Bjarnason
Daníel Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nútímatónlistarhátíðin Myrkir músíkdagar verður sett í dag á Norðurbryggju Hörpu kl. 17. Boðið verður upp á þrenna tónleika í dag. Þeir fyrstu hefjast í Kaldalóni Hörpu kl. 18.

Nútímatónlistarhátíðin Myrkir músíkdagar verður sett í dag á Norðurbryggju Hörpu kl. 17.

Boðið verður upp á þrenna tónleika í dag. Þeir fyrstu hefjast í Kaldalóni Hörpu kl. 18. Þar koma fram listhópurinn Errata Collective, tónlistarhópurinn Elektra Ensemble og söngkonan Elísabet Einarsdóttir, en þau frumflytja fjögur ný tón- og sviðsverk.

Klukkan 19.30 hefjast tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg Hörpu þar sem frumflutt verða verk eftir Áskel Másson og Þórð Magnússon þar sem Melkorka Ólafsdóttir og Víkingur Heiðar Ólafsson leika einleik. Einnig verða flutt verk eftir Hauk Tómasson og Rolf Wallin. Hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason.

Klukkan 21.30 er komið að spunatónleikum kvartettsins Dans Les Arbres í Kaldalóni Hörpu. En þess má geta að kvartettinn var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2015.

Gömul klassík í nýjum búningi

• Töfrahurð frumflytur nýtt tónlistarævintýri eftir Báru Grímsdóttur • Fyrsta verkið af tólf eftir jafnmörg samtímatónskáld, þar sem unnið er með þjóðsögur Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Þetta er þriðja árið í röð sem Töfrahurð er með tónleika á Myrkum músíkdögum,“ segir Pamela De Sensi, listrænn stjórnandi Töfrahurðar. Í ár frumflytur Töfrahurð nýtt tónlistarævintýri eftir Báru Grímsdóttur, sem nefnist Ævintýrið af Sölva og Oddi kóngi, í Norðurljósasal Hörpu laugardaginn 30. janúar kl. 12, auk þess sem boðið verður upp á efnisskrá sem nefnist „Börnin tækla tónskáldin“ í Kaldalóni Hörpu á morgun, föstudag, kl. 16.

Ævintýrið af Sölva og Oddi kóngi er fyrsta verkið af tólf sem ég hef pantað hjá samtímatónskáldum, þar sem unnið er með þekktar þjóðsögur og ævintýri. Mér finnst mjög gaman að geta byrjað á verki eftir Báru, vegna þess að hún er mikill sérfræðingur í íslenskri þjóðlagatónlist,“ segir Pamela sem á næstu sex árum hyggst frumflytja tólf ný tónlistarævintýri ásamt því að gefa þau út á bók með hljóðupptökum og myndskreytingum líkt og hún hefur áður gert með t.d. Björt í sumarhúsi og Strengi á tímaflakki .

„Sögurnar eru tólf þar sem þær eru hugsaðar sem ein fyrir hvern mánuð, en reynt er að taka mið af árstímanum. Hver saga verður að einhverju leyti aðlöguð nútímanum og aldri markhópsins,“ segir Pamela, en meðal þeirra tónskálda sem semja munu fyrir Töfrahurð eru Sigurður Sævarsson, Hildigunnur Rúnarsdóttir, Elín Gunnlaugsdóttir og Þórunn Gréta Sigurðardóttir.

Stefnt að skólatónleikum

„Fyrir hverja sögu er fengið eitt íslenskt tónskáld til að semja tónlist og textaskáld býr til lagatexta sem tónskáldið tónsetur. Allt þetta býr til heim sem börnin tengja við og þau kynnast þannig gamalli íslenskri sagnahefð. Það má segja að þau fái að hlusta á gamla íslenska klassísk umvafða nýrri íslenskri tónlist,“ segir Pamela og tekur fram að miðað sé við að hvert tónlistarævintýri taki í mesta lagi eina klukkustund í flutningi og sé flutt af kammersveit, enda ætlunin að sýna verkin í skólum.

Söngtextarnir í Ævintýrinu af Sölva og Oddi kóngi eru eftir Helga Zimsen. „Ævintýrið fjallar um Odd konung og Sölva sagnamann sem gerist ráðsmaður hjá kónginum, en Bára fléttar saman við þetta nokkrar sögur sem fjalla um samskipti manna og álfa. Tónlistin er létt og leikandi eins og Báru er von og vísa og ætti að höfða til allra aldurshópa,“ segir Pamela.

Margrét Eir söngkona er í hlutverki sögumanns auk þess að syngja öll hlutverk ævintýrisins, en einnig koma fram stúlknakór Neskirkju, kammerhópurinn Sheherazade og dansarar frá Listdansskóla Íslands, en verkið mun hugsað sem ballettverk. Stjórnandi er Magnús Ragnarsson, danshöfundur Guðmundur Helgason en myndskreytingar eru eftir Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur. „Margrét Eir bregður sér í fjölmörg ólík hlutverk og syngur m.a. kóng, dömu og álf. Hún er stórkostleg í þessu verki, enda ótrúlega fjölhæf,“ segir Pamela og tekur fram að Margrét Eir sé einmitt kynnir á tónleikunum „Börnin tækla tónskáldin“ á morgun.

„Þar verða leikin brot úr þremur verkum eftir Jesper Pedersen, Hafdísi Bjarnadóttur og Báru Grímsdóttur, sem flutt verða á Myrkum músíkdögum í ár. Margrét Eir mun leiða áheyrendur inn í heim samtímatónlistar og m.a. kynna hvernig leika má á fundin hljóðfæri í umhverfi sínu, s.s. á vegg eða hurð. Einnig gefst áheyrendum tækifæri á að spyrja út í verkin og flutning þeirra,“ segir Pamela og tekur fram að tónleikarnir geti líka reynst góð kynning fyrir fullorðna sem lítið hafa hlustað á samtímatónlist. Þess má geta að aðgangur er ókeypis.

Verkin kallast vel á

• Leikur íslensk og frönsk verk frá 100 ára tímabili „Verkin á tónleikunum spanna 100 ár. Elsta verkið samdi Claude Debussy 1915 en yngstu verkin eru frá í fyrra þegar ég bað Úlf Hansson og Tómas Manoury að semja fyrir mig,“ segir Edda Erlendsdóttir sem heldur píanótónleika á Myrkum músíkdögum í Norðurljósum Hörpu á morgun kl. 18.

„Það er langt síðan ég ákvað að ég myndi einhvern tímann á ævinni læra prelúdíurnar þrjár eftir Henri Dutilleux sem ég flyt á tónleikunum, en ég hef oft kennt þessi verk sem samin voru á árunum 1973-88. Eftir því sem ég best veit er um að ræða frumflutning þessara verka hérlendis,“ segir Edda og bendir á að svo skemmtilega vilji til að Dutilleux hefði orðið 100 ára 22. janúar sl.

„Hann er eitt helsta tónskáld Frakka á 20. öld. Hann lést 97 ára gamall og samdi tónlist fram á síðasta dag. Þegar ég spila verk hans og kenni þau finnst mér alltaf eins og það opnist mjög fallegur tónheimur alsettur gimsteinum, en hann skrifaði mjög ljóðræna tónlist.“

Ákveðin áhætta í efnisvali

Með Dutilleux leikur Edda verk eftir tvö tónskáld sem höfðu mikla þýðingu fyrir hann, þ.e. Olivier Messiaen og Claude Debussy. „Messiaen var kennari hans, en Debussy hafði mikil áhrif á hann. Ég spila þrjár etýður eftir Debussy, sem eru síðustu verkin sem hann samdi fyrir píanó rétt áður en hann lést. Þetta eru mjög mikilvæg verk í píanótónbókmenntunum, því hann bylti með þeim etýðuforminu bæði hvað snertir form og hljómagang. Það er mjög gaman að vinna með þessi verk, því þau veita góða þjálfun í að skipta snöggt um litbrigði og karakter,“ segir Edda og tekur fram að hún muni spila mjög fallega prelúdíu eftir Messiaen.

„Síðan eru á efnisskránni þrjú íslensk verk. Elsta verkið er eftir Hafliða Hallgrímsson, en hann samdi Fimm stykki fyrir píanó árið 1971. Þetta verk er ég búin að spila mjög mikið í gegnum tíðina erlendis, en þetta verður í fyrsta skipti sem ég leik það hér á heimaslóðum. Þetta er mikið uppáhaldsverk sem ég hef alltaf getað komið aftur að. Það er franskur tónn í þessu verki bæði hvað varðar hljómaganginn og stemninguna, en þetta er mjög myndrænt verk,“ segir Edda.

Síðast en ekki síst ber að nefna frumflutning á verkinu Innstirni eftir Úlf Hansson og Majka eftir Tómas Manoury. „Unga fólkið er framtíðin og mikilvægt að gefa ungum tónskáldum tækifæri,“ segir Edda og tekur fram að Úlfur hafi verið að gera mjög fallega hluti á síðustu árum.

„Innstirni er gullfallegt verk. Sonur minn samdi Majka og mun flytja það með mér. Hann hefur verið að vinna töluvert með raftónlist, en ég hef ekki áður unnið með raftónlist á tónleikum mínum þannig að þetta verður mjög spennandi fyrir mig. Raftónlistin er orðin svo stórt atriði í nútímatónlistinni og margt spennandi að gerast í raftónlistinni. Það opnast nýr heimur með þessari tækni sem þróast mjög hratt,“ segir Edda og bætir við: „Eftir á að hyggja finnst mér verk ungu tónskáldanna og verk Hafliða passa ótrúlega vel við frönsku verkin. Að vissu leyti var það ákveðin áhætta sem ég tók að tefla saman þessum ólíku verkum, en þetta gengur mjög vel upp og ég er afskaplega ánægð með það hversu vel verkin kallast á.“

silja@mbl.is