Jón Steindórsson fæddist í Reykjavík 11. september 1938. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 14. janúar 2016.
Foreldrar hans voru Steindór Árnason skipstjóri, f. 27.12. 1897, d. 5.9. 1986, og Guðmunda Jónsdóttir, f. 12.9. 1903, d. 19. júní 1992. Bróðir hans var Árni, f. 1935, d. 1941.
Jón kvæntist 15. október 1959 Guðnýju Ragnarsdóttur, f. 12.8. 1940. Foreldrar hennar voru Ragnar Þorvaldsson, f. 1906, d. 1991, og Ingibjörg Runólfsdóttir, f. 1907, d. 1997. Börn Jóns og Guðnýjar eru Guðmunda, f. 1959, maki Ásmundur Einarsson, f. 1956, og Haraldur, f. 1960, giftur Ásdísi Ingólfsdóttur, f. 1958. Dætur Guðmundu eru Guðný Svava, f. 1985, Heiðdís María, f. 1995, og Elín Katrín, f. 2000. Börn Haraldar og Ásdísar eru Steindór, f. 1986, og Laufey, f. 1992.
Jón lauk loftskeytaprófi 1959 og stúdentsprófi frá MH 1986 auk þess að leggja stund á íslenskunám um tíma í HÍ. Einnig lauk hann svokölluðu pungaprófi í skipstjórn. Hann var háseti á togurum og varðskipum 1954-1957. Loftskeytamaður hjá Landhelgisgæslunni 1959-1984, utan árin 1978-1979 þegar hann starfaði hjá SÞ í Jerúsalem. Hann var hjá radíóeftirliti Landsímans 1984-1986 en fór síðan að kenna við Stýrimannaskólann í Reykjavík og starfaði þar til ársins 1994. Þá hóf hann aftur störf fyrir Sameinuðu þjóðirnar í Afríku og víðar þar til um aldamótin.
Jón sat í samninganefndum FÍL 1972-78 og í stjórn FÍL 1973-1981.
Kveðjustund með nánustu fjölskyldu hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.
Ég var alltaf svolítil pabbastelpa.
Nú þegar hann hefur lagt upp í sína lokaferð streyma fram minningar. Þær fyrstu tengjast sveitaferðum í Hestvíkina og öllum ferðalögunum sem við systkinin fórum í með pabba og mömmu. Þvers og kruss um landið var ferðast með tjald og prímus; allir firðir þræddir, keyrt yfir Kjöl og Sprengisand, Hljóðaklettar og Eldgjá skoðuð, baðað sig í Grjótagjá, farið yfir Skeiðará áður en brúin kom – já, nánast hver einasti ferkílómetri kannaður. Ómetanlegt að hafa upplifað okkar fallega og þá ósnortna land á þennan hátt. Alltaf var myndavél pabba með í för og þrífóturinn „Sprettur“ sá um að ná öllum saman á mynd. Stelpan smitaðist ung af ljósmyndaáhuga pabba og hefur ekki læknast enn.
Foreldrar mínir hófu ung búskap og við systkinin vorum mætt stuttu síðar. Fyrstu árin bjuggum við í sama húsi og foreldrar pabba á Öldugötunni. Þar lærðum við gildi góðra fjölskyldu- og vinasamskipta. Alla tíð var lögð áhersla á tjáningu og mikilvægi þess að ræða hlutina. Það var ekki mikið um dramatík og táraflóð, en skoðanaskipti og röksemdafærsla í heiðri höfð. Bóklestur og spilamennska, endalaus umræða um pólitík og landsins gagn og nauðsynjar er ofarlega í minningu æskuáranna. Varðskipabryggjan var oft heimsótt, húsbygging og flutningur á Einimelinn, garð- og málningarvinna; við systkinin tókum þátt í starfi og leik og var kennt að vinna hin ýmsu störf, e.t.v. ekki alltaf sátt en þessi skóli lífsins varð okkur gott veganesti.
Við Halli bróðir flytjum að heiman, eignumst maka, börn og bú. Væntumþykjan, natnin og þolinmæðin sem pabbi sýndi barnabörnunum var einstök.
Áherslu á rétt og fallegt íslenskt mál í ræðu og riti erfði ég frá pabba. Við höfðum sama kennara í Melaskólanum, sem lagði þann grunn. Mörgum árum síðar urðum við pabbi skólafélagar í MH en þaðan útskrifuðumst við bæði frá öldungadeild með tveggja ára millibili. Við vorum líka samstarfsfélagar eitt sumar þegar ég vann á varðskipinu Tý.
Ég er einstaklega heppin með foreldra og það að pabbi dvaldi oft langdvölum frá heimili vegna vinnu og mamma „reddaði“ bara málum kenndi mér sjálfstæði og jafnrétti.
Þau nutu þess að ferðast og fóru í margar utanlandsferðir. Sú síðasta var í des. sl. þegar við þrjú fórum saman í stutta ferð til Minneapolis. Dásamlegt að hafa náð að upplifa það; „gaman saman“ sagði pabbi gjarnan.
Hann var mikill græjukarl og fylgdist vel með tækninýjungum. Fannst frábært að fá að vera uppi á okkar tímum. Síðustu árin gleymdum við okkur oft í spjalli og vangaveltum um tölvur og snjallsíma.
Það er sárt að missa en svo margt að þakka. Foreldrar mínir hafa ætíð stutt mig í einu og öllu. Alltaf var pabbi mættur ef hjálpar var þörf. Það var eitt af hans aðalsmerkjum, hjálpsemin.
Elsku mamma hefur nú misst „hinn helminginn“. Þau voru alla tíð svo ótrúlega samstiga. Hennar er missirinn mestur en við erum samheldin fjölskylda og styðjum hvert annað á sorgarstund sem og inn í framtíðina þar sem minningin um góðan mann mun lifa.
Góða ferð elsku pabbi minn.
Guðmunda Jónsdóttir (Gúnna).
Fyrstu kynni mín af Jóni voru yfir páskalambi á Einimelnum fyrir rúmlega 33 árum. Þar var ég í fyrsta sinn spurð hvort ég vildi ekki „tutlu til“ og fékk að heyra söguna um manninn sem sagði „þetta var ekkert góður ís“ eftir að hafa hesthúsað marga lítra af ísnum. Sögurnar voru sagðar af stillingu en kímnin leyndi sér ekki í augnaráðinu og stundum brá hann fyrir sig leikrænum tilburðum.
Frá upphafi sýndi Jón mér einstaka ræktarsemi og þau hjón bæði. Hjálpsemi, örlæti og vandvirkni einkenndi allt sem Jón tók sér fyrir hendur. Hvort heldur var í vinnu, á heimilinu eða í Hestvíkinni sem var honum svo kær. Þar höfðu foreldrar hans byggt sumarbústað fyrir næstum sjötíu árum og þar vildi Jón helst vera á sumrin og var sífellt að. Það þurfti að huga að þakinu, laga skúrinn, slá, klippa tré, bera á pallinn, skreppa út á bátnum eða spila krikket við börnin. Hann og Guðný samstiga í verkunum og tóku svo á móti gestum með ótrúlegum veitingum hvenær sem einhverjum datt í hug að líta við.
Jón var sérfróður um fjarskipti og hélt sambandi við mikinn fjölda fólks um allan heim. Engum gleymdi hann sem einu sinni varð vinur hans. Hann studdi börnin sín og barnabörn í því sem þau gerðu og var stoltur af afkomendunum. Var sjálfur einbirni og naut þess að eiga myndarlegan hóp.
Síðustu ár voru honum eflaust erfið en hann lét aldrei á því bera. Hann og Guðný tóku því sem að höndum bar með rósemd og reisn. Ég er innilega þakklát fyrir að hafa átt Jón að og að hafa fengið að njóta góðra daga með honum í Hestvíkinni og víðar.
Nú er í Hestvík haustlegt mjög
hljóðlát er víkin kalda.
Engin þar börnin ærslast tvö
enginn þar fær að tjalda.
Skjaldbreiður skreytir útsýnið
skaflar með roðafalda.
Bændur og fé og búalið
byggða til allir halda.
Ásdís.
Ég minnist Jonna fyrst heima hjá foreldrum hans, Steindóri og Guðmundu, á Öldugötunni, fyrir hálfum fimmta áratug, en þar var ég tíður gestur á menntaskólaárunum. Ég man að Jonni var röskur í fasi og fljótlega rokinn, en á þeim tíma var hann loftskeytamaður hjá Landhelgisgæslunni. Þegar hann hætti til sjós kynntist ég honum betur. Það byrjaði með gönguferð á Hátind við Þingvallavatn, upp frá sumarhúsi hans og Guðnýjar í Hestvík. Í hátt á fjórða áratug gengum við reglulega saman um fjöll og firnindi, einkum í grennd við Reykjavík, og tóku Guðný og Bolli frændi jafnan þátt í ferðunum.
Margar góðar minningar á ég með Jonna á fjöllum, á Esju, Móskarðshnjúkum, Hlöðufelli, Ármannsfelli, Bláfelli, Hvalfelli, Skarðsheiði, Fanntófelli og víðar. Hann var náttúrubarn og skráði hjá sér allar göngurnar, dagsetningu, tímalengd og veðurfar.
Þótt hann ynni íslenskri náttúru, ferðaðist Jonni víða utanlands. Hann fluttist um skeið með fjölskyldu til Ísraels, þar sem hann starfaði með friðargæslusveitum SÞ. Síðar lá leiðin til annarra fjarlægra landa, svo sem Tadjikistan og Angóla, í sömu erindum. Jonni var fyrirtaks bréfritari og naut ég þess að lesa gagnorðar en lifandi lýsingar hans á framandlegum aðstæðum sem hann vann við í útlöndum.
Jonni var fjölskyldumaður og hugsaði vel um sína nánustu. Hann var hógvær að eðlisfari, en gæddur ríkri réttlætiskennd. Hann var trygglyndur, einstaklega greiðvikinn og alltaf boðinn og búinn til að hjálpa vinum sínum og ættingjum. Þegar eitt sinn flæddi inn í íbúð okkar fjölskyldunnar á meðan við dvöldum í útlöndum, taldi Jonni ekki eftir sér að fara á vettvang og koma í veg fyrir mikinn skaða sem annars hefði getað orðið á húseigninni. Hann var hagsýnn og ráðagóður og nutu margir af hans nánustu góðs af örlæti hans og ræktarskap.
Það var gæfa Jonna að eignast konu sem reyndist honum stoð og stytta á lífsleiðinni. Það sýndi sig ekki síst þegar Jonni greindist alvarlega veikur og háði undir það síðasta hetjulega baráttu fyrir lífi sínu.
Mér er minnisstæð síðasta gönguferðin með Jonna og Guðnýju um Grafarvoginn í haust. Í grónum lundi í snævi þöktum kirkjugarðinum fylgdumst um stund með sólarlaginu og Jonna varð að orði: Hérna, Gunni, finn ég mikla kyrrð. Hann vissi þá þegar að hverju stefndi.
Með Jonna er genginn góður drengur, sem sárt verður saknað. Fjölskylda mín og ég sendum Guðnýju, Guðmundu, Haraldi og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.
Gunnar Pálsson.
Á unglingsárunum héldum við Jonni alltaf sambandi og hittumst af og til. Eftir að við urðum fjölskyldufeður hittumst við sjaldnar. Ég flutti með fjölskylduna út á land en Jonni var loftskeytamaður á varðskipunum og við störf erlendis. Jonni var einstaklega frændrækinn og sendi mér jafnan póstkort úr ferðalögum sínum innanlands sem utan. Þessi skemmtilega venja hans varð m.a. til þess að samband okkar hélst alltaf.
Á seinni árum hef ég átt margar góðar stundir með Jóni og Guðnýju konu hans. Heimboð á heimili þeirra á Einimel, í sumarhúsið í Hestvík og síðan á heimili þeirra í Sóleyjarima. Við Jonni höfum skipst á gömlum fjölskyldumyndum og ýmsum upplýsingum um Jón afa og Guðrúnu ömmu frá Hallskoti. Lífsskoðanir okkar og viðhorf til þjóðmála fóru um margt saman og áttum við því margar góðar spjallstundir. Undanfarin ár hef ég jafnan látið Jonna fá ferðaáætlanir fyrir innan- og utanlandsferðir okkar Áslaugar. Hefur hann fylgst með ferðum okkar og við haft tölvu- og Skype-samband reglulega. Þessi samskipti okkar Jonna hafa verið einstaklega ánægjuleg og oft gagnleg, t.d. sendi hann mér stundum upplýsingar um veður eða breytingar á áætluðu flugi sem við vorum skráð í.
Fyrir nokkru síðan greindist Jón með krabba í andliti. Hann gekkst undir margar erfiðar aðgerðir. Ég fylgdist nokkuð með Jóni þennan tíma og heimsótti hann af og til. Síðast heimsótti ég hann rétt fyrir síðustu jól og áttum við þá mjög ánægjulega samverustund. Æðruleysi hans og jákvætt lífsviðhorfi, þrátt fyrir erfið veikindi, var aðdáunarvert. Þá dáðist ég að umhyggju og dugnaði Guðnýjar yfir þennan erfiða tíma. Nú er hann allur en söknuði og sorg fylgja ljúfar minningar frá samveru okkar gegnum tíðina. Guðnýju og Gúnnu og Halla, börnum þeirra Jóns ásamt fjölskyldum þeirra sendi ég einlægar samúðarkveðjur.
Valgeir Gestsson.
Seinna eftir að ég og fjölskylda mín fluttumst til Reykjavíkur og eftir að hann óx úr grasi átti ég eftir að kynnast honum vel. Eitt sinn var ég og bróðir minn Bolli ásamt honum að aðstoða föður hans við að koma upp girðingu í kringum sumarbústað þeirra í Hestvík við Þingvallavatn og situr það enn í minningunni hversu duglegur hann var, þó hann væri bara enn á táningsaldri. Hann var ekki bara atorkusamur, heldur var hann líka mjög handlaginn og lék allt í höndunum á honum. Þess átti ég mjög oft eftir að njóta en ég gat alltaf hringt í hann ef eitthvað fór úrskeiðis á mínu heimili.
Alltaf var hann boðinn og búinn að koma og hjálpa og kippa hlutunum í lag og stend ég í ómældri þakkarskuld við hann vegna þessarar greiðvikni hans. En það var einmitt hans aðalsmerki hve hjálpsamur hann var og nutu þess margir ættingjar hans og vinir. Seinustu tvö til þrjú ár voru honum mjög erfið en hann þjáðist af erfiðum sjúkdómi sem hann laut í lægra haldi fyrir.
Jonni var lengi loftskeytamaður hjá Landhelgisgæslunni og meðal annars allan tímann sem þorskastríðin geisuðu. Ekki leikur nokkur vafi á því að hann hefur gegnt því starfi af sömu eljusemi og öllu öðru sem hann tók sér fyrir hendur. Hann var á varðskipinu Tý þegar breska freigátan HMS Falmouth sigldi á það og var nærri búin að sökkva því 6. maí 1976 út af Austfjörðum. Týr fór næstum á hliðina og litlu munaði að það sykki.
Við Ingibjörg vottum Guðnýju, börnum þeirra og barnabörnum okkar dýpstu samúð.
Baldur Davíðsson.