Hátíðahöld 19. júní Þess var minnst 19. júní að hundrað ár voru liðin frá því að konur fengu kosningarétt til Alþingis. Afmælið setti mikinn svip á árið.
Hátíðahöld 19. júní Þess var minnst 19. júní að hundrað ár voru liðin frá því að konur fengu kosningarétt til Alþingis. Afmælið setti mikinn svip á árið. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Fjölbreytt dagskrá var víða um land allt síðasta ár í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.

Baksvið

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Fjölbreytt dagskrá var víða um land allt síðasta ár í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Hátíðarhöldin fóru ekki framhjá mörgum en 83% landsmanna urðu varir við eða fylgdust með viðburðum vegna afmælisins, þar af 86% kvenna og 81% karla, samkvæmt könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands lagði fyrir landsmenn í lok síðasta árs. 75% landsmanna tóku þátt í eða sáu hátíðadagskrá hinn 19. júní, þar af 84% kvenna og 66% karla. Í könnuninni var einnig spurt hversu margir sáu þættina Öldin hennar sem sýndir voru vikulega allt síðastliðið ár í Ríkissjónvarpinu en 52% landsmanna reyndust hafa séð þá.

Góð þátttaka almennings

„Ég er vægast sagt mjög ánægð með niðurstöðuna þó þessar tölur komi okkur ekki mikið á óvart því þátttakan fór fram úr okkar björtustu vonum. Það var eitthvað um að vera nánast á hverju byggðu bóli,“ segir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri nefndar um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna 2015. Ásta Ragnheiður afhenti forseta Alþingis nýverið greinargerð um störf afmælisnefndarinnar.

„Mér fannst frábært hvað þátttakan var almenn. Ég held að aldrei hafi verið jafnmikil þátttaka almennings í neinu afmælishaldi. Áhuginn var um allt land og á meðal ótrúlegustu hópa sem gerðu eitthvað skemmtilegt á tímamótunum,“ segir Ásta.

Í greinargerðinni er bent á dagskrána á Akureyri 19. júní sem dæmi um hve þátttaka sveitarfélags var mikil án þess að afmælisnefndin kæmi þar beint að, nema með hvatningu og litlum verkefnastyrkjum til einstakra verkefna. Í þessu samhengi bendir hún á að afmælisárið hafi að mörgu leyti blásið nýju lífi í kvenfélög og kvennahreyfingar víða um land.

Ásta bendir á að mikil umræða hafi skapast í samfélaginu um ýmis málefni sem snerta stöðu kvenna og jafnrétti.

Mýmörg verkefni litu dagsins ljós á afmælisárinu og enn eru nokkur í smíðum. Hafin er vinnsla á bók helgaðri 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna sem kemur út árið 2020. Yfirlit yfir viðburði, efni og dagskrá má sjá á heimasíðunni: kosningarettur100ara.is. Tekið skal fram að þar er ekki tæmandi samantekt um alla viðburði, sýningar og efni sem var skapað í tilefni tímamótanna. Heimasíðan verður opin a.m.k. fram á næsta ár.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi Alþingis 2015 þá hlaut 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna alls 104 milljónir króna, 44 milljónir árið 2014 og 60 milljónir árið 2015.

Árið 2013 var skipuð afmælisnefnd sem hóf þegar undirbúning. Í henni sátu: Auður Styrkársdóttir, formaður, Steinunn Stefánsdóttir, Siv Friðleifsdóttir, varaformaður, Ólafía B. Rafnsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir og varamenn Drífa Hjartardóttir, Erla Karlsdóttir og Ingimar Karl Helgason.

Afmælisnefndin ákvað að skipta fjárveitingu Alþingis til afmælishaldsins 2014 og 2015 niður í fimm verkefni: Safnaverkefni, ritverk, hátíðahöldin 19. júní á Austurvelli, styrki til ýmissa verkefna og alþjóðaráðstefnu. Minni verkefni sem hlutu styrk voru einstaklega fjölbreytt, að mati Ástu.

Hátíðarhöld 19. júní

Hátíðarhöld 19. júní voru víða um land á vegum sveitarfélaga, kvennasamtaka og kvenfélaga og boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Í Reykjavík var horft til hátíðarhaldanna fyrir 100 árum á Austurvelli og reynt að

láta viðburði kallast á við þá. Tónlistin skipaði veglegan sess 19. júní en tónleikar voru haldnir um kvöldið í Hörpu og sendir út beint í Sjónvarpinu svo að allir gætu notið þeirra hvar sem þeir voru á landinu.

Gerður var samningur við KÍTÓN (félag kvenna í tónlist) um tónleika og sjónvarpsefni um stöðu kvenna í tónlist, en konur hljóta aðeins 9% af STEFgreiðslum.