Fögnuður Liverpool mun leika til úrslita á Wembley þann 28. febrúar.
Fögnuður Liverpool mun leika til úrslita á Wembley þann 28. febrúar. — AFP
Þeim viðskiptavinum Símans sem keyptu sér aðgang að leik Liverpool og Stoke í undanúrslitum enska deildarbikarsins á þriðjudagskvöld brá í brún þegar skyndilega var slökkt á útsendingunni og svartur skjár birtist.

Þeim viðskiptavinum Símans sem keyptu sér aðgang að leik Liverpool og Stoke í undanúrslitum enska deildarbikarsins á þriðjudagskvöld brá í brún þegar skyndilega var slökkt á útsendingunni og svartur skjár birtist. Kaupendum var tilkynnt að dagskrárliðurinn væri búinn. Þegar slökkt var á útsendingunni var vítakeppnin í hámarki og fór því tíminn langt yfir venjulegar 90 mínútur, sem einn knattspyrnuleikur tekur.

Liverpool, sem er eitt vinsælasta lið enska boltans hér á landi og á marga eldheita stuðningsmenn, tryggði sér sigur í spennuþrungnum leik.

Létu margir stuðningsmenn liðsins reiði sína bitna á lyklaborðinu þar sem ýmislegt var látið flakka. „Þetta er eins og að fara á veitingahús og bíða í 120 mínútur eftir matnum, fá hann á borðið og vera vísað út um leið. Ég er brjálaður,“ sagði einn á Facebook. Aðrir voru ekki minna pirraðir. „Það tók mig sirka 20 sek. að rífa tölvuna af konunni, slökkva á Bachelor og finna stream þegar þetta gerðist hjá mér! Þvílík skita hjá Vodafone og Símanum,“ sagði annar.

Síminn brást vel við

Síminn brást vel við kvörtunum Liverpool-manna og sagði Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, að leikurinn yrði ekki gjaldfærður af þeim sem keyptu.

„Við gerðum ráð fyrir rúmum tíma en þó ekki eins og reyndist þörf fyrir og því rann útsendingin sitt skeið á enda á undan leiknum. Við endurgreiðum að sjálfsögðu viðskiptavinum okkar og þykir þetta sárt og biðjumst velvirðingar. Við munum að sjálfsögðu læra af þessu atviki og vonumst til að fá annað tækifæri til að gera betur. Við erum að byrja með Pay per view í Sjónvarpi Símans. Þegar við sáum hvert stefndi gripu sérfræðingar Símans í taumana, en sú breyting á tímalengdinni skilaði sér því miður ekki til allra. Við ætlum ekki að gera þessi mistök aftur,“ sagði hún