Bókin Það ætti ekki að koma neinum á óvart að Robert Reich er allt annað en gallharður frjálshyggjumaður og sást það vel á störfum hans sem atvinnumálaráðherra í forsetatíð Bills Clinton.

Bókin

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að Robert Reich er allt annað en gallharður frjálshyggjumaður og sást það vel á störfum hans sem atvinnumálaráðherra í forsetatíð Bills Clinton. Hagfræðingurinn og háskólaprófessorinn smái en knái sendi á dögunum frá sér bókina Saving Capitalism: For the Many, Not the Few og hefur ritið vakið töluvert umtal.

Reich beinir sjónum sínum einkum að misskiptingu auðs, og vill hann meina að rót vandans liggi í því hvernig bandarískt samfélag hefur hafið upp hinn frjálsa markað, sem um leið hefur byrgt fólki sýn á það hvernig fjársterkir aðilar hafa getað hagrætt markaðinum til að skara eld að eigin köku. Ofurtrú á bandaríska drauminn virðist hafa blindað almenning svo að komið er í óefni.

Reich vill meina að þeir efnuðu hafi hneppt hagkerfið í gíslingu, með því að láta alla halda að það sé ekki hægt að hafa á sama tíma bæði frjálsan markað og stjórnvöld sem leyfa sér að grípa inn í þegar þörf er á. Segir hann að smám saman hafi völd stéttarfélaganna minnkað, stofnanir ríkisins lagt niður vopnin og eftir standi þeir sem eiga peningana og geta vaðið uppi alveg óheftir.

Einn þyngsti punkturinn í bókinni er sá draumur Reich að hækka lágmarkslaun og koma á nokkurs konar borgaralaunakerfi, samhliða því að leggja á hæfilegan flatan skatt. Færir hann fyrir því rök í anda Keynes að með því að borga þeim lægst launuðu meira örvist hagkerfið neðan frá og upp. ai@mbl.is