Betty Crocker hefur áratugum saman bjargaði orðspori fólks sem eru mislagðar hendur við kökubaksturinn. Jafnvel mestu klaufabárðar geta skellt í köku með deigi og kremi sem við þessa bandarísku frú eru kennd. Andlit Betty Crocker, sem oft prýddi umbúðirnar frá árinu 1936 til aldamóta, þótti svo traustvekjandi og góðlegt að baksturinn varð leikur einn – gat bara ekki klikkað.
Betty Crocker var táknmynd hinnar fullkomnu bandaríska húsmóður og var á þriðja og fjórða áratug liðinnar aldar meðal þekktustu kvenna í Bandaríkjunum. Það var því ekki að ósekju að tímaritið Fortune valdi hana næstvinsælustu konu Bandaríkjanna á eftir Eleanor Roosevelt forsetafrú árið 1945.
Ekki af holdi og blóði
Í ljósi frægðarinnar kom mörgum á óvart og voru jafnframt vonbrigði að Betty Crocker reyndist ekki vera manneskja af holdi og blóði. Enda hefði hún vitaskuld verið orðin alltof gömul til að standa vaktina áratugum saman.Betty Crocker er bara nafn sem búið var til árið 1921 til að neytendur fengju tilfinningu fyrir persónulegri þjónustu eins og það er kallað. Kvenmannsnafnið Betty þótti hafa yfir sér glaðvært yfirbragð og vera skemmtilega „al-amerískt“. Seinna nafnið, Crocker, var svo valið til heiðurs William nokkrum Crocker, forstjóra fyrirtækisins Washburn Crosby, fyrirrennara núverandi framleiðanda, General Mills.
Í áranna rás breyttist andlit Betty Crocker lítillega, en var ævinlega samkvæmt ríkjandi hugmyndum um amerísku húsmóðurina sem hafði ráð undir rifi hverju varðandi allt sem laut að búsældarlegu heimilishaldi. Þekkingin og alúðin leyndi sér ekki í svipnum.
Holdgervingur húsmóðurinnar
Leikkonan Adelaide Hawlay Cumming var andlit Betty Crocker frá 1949 til 1964 og kom á því tímabili m.a. fram í hálftíma Betty Crocker-þáttum á CBS-sjónvarpsstöðinniEftir því sem næst verður komist sást síðast til Betty Crocker seint á tíunda áratug liðinnar aldar. Og þá á samsettri mynd 75 raunverulegra kvenna á mismunandi aldri og af ýmsu þjóðerni. Vaxtarlag Betty Crocker var alltaf ráðgáta, enda sást hún aldrei frá hvirfli til ilja á myndunum. Betty Crocker virðist meira að segja horfin af vefsíðunni bettycrocker.com, jafnvel þótt þar sé haldið úti þættinum Spurðu Betty. Þótt þessi holdgervingur húsmóðurinnar sé horfinn á braut, bjóðast ennþá deigin og kremin sem við hana eru kennd og þykja standa fyrir sínu.
1936
1965