Tekur við Jakob Einar Jakobsson, framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar.
Tekur við Jakob Einar Jakobsson, framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar. — Morgunblaðið/Ómar
„Þetta gengur rosalega vel og við ætlum að opna 10.

„Þetta gengur rosalega vel og við ætlum að opna 10. febrúar, með þeim fyrirvara að allt gangi að óskum,“ segir Jakob Einar Jakobsson, framkvæmdastjóri og annar eigenda smurbrauðsstaðarins Jómfrúarinnar við Lækjargötu, en verið er að breyta og bæta rýmið sem hefur hýst veitingastaðinn í fjölda ára.

Jakob Einar tók við rekstrinum af föður sínum, Jakobi Jakobssyni, snemma árið 2015 en hann stofnaði upphaflega staðinn ásamt Guðmundi Guðjónssyni. Birgir Bieltvedt stóð að kaupunum ásamt Jakobi Einari.

Glæsilegur ákavítisseðill

„Við mátum það þannig að við værum með tvær meginstoðir til að efla reksturinn, annars vegar að lengja afgreiðslutímann og að efla veisluþjónustuna en þessir tveir þættir kölluðu á ákveðnar breytingar,“ segir Jakob Einar en því hefði stóri stiginn á milli hæða fengið að fjúka og í hans stað komið veglegur hringstigi. „Þannig græddum við heila sautján fermetra á báðum hæðum sem við getum nýtt rosalega vel.“

Eldhús staðarins verður einnig stækkað en þannig geta þeir betur mætt þörfum veisluþjónustunnar. Á efri hæðinni verður svo settur upp bar. „Við ætlum að vera með stærsta og glæsilegasta ákavítisseðil sem sést hefur á Íslandi,“ segir Jakob Einar léttur í lund. „Þetta er náttúrulega heilög þrenning, smurbrauð, bjór og ákavíti,“ segir Jakob Einar. Hann segir mikilvægt að tala við viðskiptavini sína þar sem þeir vilji tala við hann. „Þannig verður hægt að panta smurbrauð á netinu, bara eins og þú pantar þér sushi eða pizzu, og sækir það svo.“ Matseðillinn mun haldast óbreyttur. „Við munum aðeins flokka hann og gera yfirgripsmeiri.“ laufey@mbl.is