Lífið er eilífur lestur. Við lesum úr skýjunum, andlitum þeim sem okkur er annt um, lófum, stjörnum og ótal hlutum. Bók fyrir hvert augnablik, ljósmyndasýning mexíkóska rithöfundarins og ljósmyndarans Álvaro Alejandro samanstendur af ljósmyndum sem varpa ljósi á hljóðleika, umbreytileika og mennsku bókarinnar. Sýningin verður opnuð kl. 16 í dag í Menningarhúsinu Spönginni. Verkefnið „Bók fyrir hvert augnablik“ tók sex ár í vinnslu. Ljósmyndaröðin sýnir ólíka hluti í sinni mannlegu, bókstaflegu og hljóðu mynd. Fyrsti áfangi verksins var að gefa út bók. Þeim áfanga var náð í fyrra og er næsta skref að miðla verkinu áfram í bókasöfnum þeirra landa sem hafa djúpa og ríka bókmenntahefð.
Álvaro Alejandro starfar að mestu við útgáfu bókakápna, ljósmynda og myndskreytinga. Sjálfur hefur hann gefið út barnabækur og hafa ljósmyndaverk hans verið sýnd í Mexíkó, Kanada og á Spáni.
Sýningin stendur til 30. apríl 2016