[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Algjör pattstaða er nú uppi í kjaradeilu starfsmanna álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík og forsvarsmanna fyrirtækisins eftir að tímasettu tilboði ISAL, sem lagt var fram á fundi hjá ríkissáttasemjara 14.

Fréttaskýring

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Algjör pattstaða er nú uppi í kjaradeilu starfsmanna álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík og forsvarsmanna fyrirtækisins eftir að tímasettu tilboði ISAL, sem lagt var fram á fundi hjá ríkissáttasemjara 14. desember síðastliðinn, var hafnað og aðalforstjóri Rio Tinto tilkynnti launafrystingu allra starfsmanna fyrirtækisins við upphaf þessa árs.

Engin tilboð liggja nú á samningaborðinu og enn hefur ekki verið boðað til nýs fundar hjá sáttasemjara vegna deilunnar. Á sama tíma segir starfsmaður álversins í samtali við Morgunblaðið vinnustaðinn vera að „étast upp innan frá“ og að farið sé að bera á uppsögnum meðal starfsfólks. Viðræður viðsemjenda virðast alltaf stranda á því sama, þ.e. kröfu álversins um að rýmka heimildir til að bjóða út tiltekin verkefni.

„Þessi deila varð ekki auðveldari viðfangs við þá ákvörðun viðsemjenda okkar að ganga ekki að því rausnarlega tilboði sem gekk út á að hækka laun um meira en aðrir hafa þegar samið um – þrátt fyrir að laun þeirra væru þegar hærri en gengur og gerist á hinum almenna markaði,“ segir Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan á Íslandi, í samtali við Morgunblaðið og vísar í máli sínu til úrslitatilraunar sem gerð var fyrr í þessum mánuði til að ná saman í kjaradeilu samninganefndar starfsmanna álversins í Straumsvík og vinnuveitenda þeirra, Rio Tinto Alcan.

Kostnaðarmat þess tilboðs sem þá lá á borði var 20,4% út árið 2018 auk nýrra bónusa sem skilað gætu allt að 8% viðbótarlaunum. Í ársbyrjun 2019 yrði svo 3% launahækkun. Var því alls um að ræða 24% launahækkun og allt að 8% viðbótarlaun í formi bónusa. Málið strandaði hins vegar á kröfu verkalýðsfélaganna um að verktakar og þjónustufyrirtæki verði áfram látin greiða laun samkvæmt kjarasamningi ISAL þegar unnið er í Straumsvík.

Straumsvík utan Íslands?

„Slíkt fyrirkomulag er ekki venja á íslenskum vinnumarkaði og er því ljóst að ISAL fær ekki að sitja við sama borð og aðrir. Verkalýðsfélögin ákváðu að gera þetta að úrslitaatriði og það voru mikil vonbrigði því það var enginn ágreiningur um launin,“ segir Ólafur Teitur og heldur áfram: „Við viljum losna við þessa einstöku kvöð, þ.e. að enginn megi vinna hér á svæðinu nema borga sömu laun og við. En okkur er gert samkvæmt núgildandi kjarasamningi, sem er algerlega einstakur, að skipta okkur af því hvað önnur fyrirtæki borga sínu fólki í laun. Það má í raun segja að krafan sé sú að ISAL sé eins og eitthvert annað land þar sem allt önnur laun gilda – ekki bara fyrir starfsmenn félagsins heldur einnig alla þá sem stíga þar inn fæti. Þetta er algerlega einstakt og það er engin sanngirni í því að búa við þetta fyrirkomulag eitt fyrirtækja.“

Þá fer ISAL fram á að hafa svipað svigrúm og önnur fyrirtæki hér á landi til að bjóða út tiltekna þætti í rekstri. En þeir starfsþættir sem stjórnendur fyrirtækisins vilja hafa leyfi til að bjóða út, auk þeirra sem nú þegar er heimild fyrir samkvæmt kjarasamningi, eru hafnarvinna, mötuneyti, þvottahús og hliðvarsla.

„Þetta eru 32 störf sem um ræðir,“ segir Ólafur Teitur, en ISAL fer jafnframt fram á leyfi til að kalla til verktaka í tilfallandi viðhaldsstörf sem eru utan daglegra viðfangsefna viðhaldsdeilda álversins í Straumsvík.

Ólafur Teitur segir stjórnendur álversins í Straumsvík hafa í gegnum kjaraviðræðurnar haldið upplýsingafundi, yfir 20 talsins, með starfsfólki þar sem afstaða fyrirtækisins var útskýrð auk þess sem farið var yfir fyrirliggjandi tilboð í deilunni.

„Það komu upp dæmi þar sem starfsmenn höfðu fengið rangar upplýsingar um hvað verið var að bjóða og um hvað fyrirtækið var að fara fram á varðandi verktöku. Voru því haldnir fundir með öllum starfsmönnum enda nauðsynlegt að vinda ofan af misskilningi og rangfærslum,“ segir hann og heldur áfram: „Það voru starfsmenn hér í deildum, sem aldrei hafði komið til tals að bjóða út, sem höfðu fengið þær upplýsingar að þeirra störf væru í hættu þegar svo var alls ekki raunin.“

Frystingin á slæmum tíma

Við upphaf árs sendi Sam Walsh, aðalforstjóri Rio Tinto, tilkynningu til allra starfsmanna félagsins þar sem meðal annars kom fram að ákveðið hefði verið að frysta laun allra starfsmanna Rio Tinto, frá forstjóra og niður úr. Aðspurður segir Ólafur Teitur þessa tilkynningu hafa komið á fremur óheppilegum tíma í ljósi þeirra kjaraviðræðna sem hér standa yfir.

„Þetta flækir óneitanlega viðræðurnar. Rio Tinto sér fram á mjög krefjandi markaðsaðstæður þar sem verð á nær öllum afurðum fyrirtækisins hefur snarlækkað og ekki er útlit fyrir að það batni neitt í bráð. Fyrirtækið grípur því til mjög afdráttarlausra ráðstafana. Það hefði verið æskilegt að ljúka þessum viðræðum áður með mjög góðum samningi fyrir báða aðila, líkt og allar forsendur voru til,“ segir hann.

Enginn formlegur samningafundur hefur verið boðaður í kjaradeilunni en lögum samkvæmt þurfa viðsemjendur að hittast á fundi eigi síðar en föstudaginn 5. febrúar næstkomandi. Spurður út í næstu skref málsins svarar Ólafur Teitur:

„Við munum skoða hvað hægt er að setja á borð með hliðsjón af ákvörðun aðalforstjóra Rio Tinto. En þegar við tímasettum fyrra tilboð, sem var okkar ýtrasta boð, var þeim gerð grein fyrir því að ef því tilboði yrði ekki tekið þá kæmi eitthvað lakara í kjölfarið. Það lá fyrir þá og verður raunin nú. Það er grátlegt að málið skuli hafa verið látið stranda á þeirri einu forsendu, að koma þyrfti í veg fyrir að ÍSAL fengi að sitja við sama borð og öll önnur fyrirtæki.“

Farið að bera á uppsögnum

Gylfi Ingvarsson er talsmaður starfsmanna álversins í Straumsvík. Hann segir viðsemjendur hafa verið komna „nokkuð langt“ í því að ná saman um launaliði. „En tilboð þeirra var aldrei þannig að launaliðir væru sér og útvistun starfa annað. Þetta var allt saman heildstæður pakki hjá þeim, en það var í sjálfu sér ekki stór ágreiningur uppi varðandi launaliðina,“ segir hann.

Spurður út í áhrif kjaradeilunnar á vinnustaðinn og þá starfsmannaveltu sem nú virðist vera innan álversins vegna hennar svarar Gylfi: „Af hverju ætti fólk að sækja um vinnu á vinnustað þar sem er yfirlýst stefna um að þeir eigi ekki að fá sambærilegar launahækkanir og aðrir launþegar í landinu? Þrír af sjö framkvæmdastjórum hafa þegar sagt upp og eru komnir í vinnu annars staðar. Maður heyrir það einnig að aldrei fyrr hafi annar eins fjöldi af millistjórnendum í Straumsvík hafið leit að vinnu annars staðar og nú. Það er því ekki einungis hinn almenni launamaður sem er að flýja.“

Þegar starfsmenn Rio Tinto Alcan á Íslandi hótuðu verkfallsaðgerðum á seinasta ári voru viðbrögð stjórnenda í Straumsvík á þá leið að yrði slökkt á öllum 480 kerum álversins, vegna verkfallsaðgerða, væri ekki sjálfgefið að kveikt yrði á þeim aftur. Spurður út í áhrif þessa á viðræðurnar svarar Gylfi:

„Við erum í þeirri vegferð að semja um sambærileg laun og samið var um á almennum markaði. Ef þeir ætla að loka verða þeir bara að loka álverinu á sínum forsendum. Ef þeir eru að leitast eftir því að fá deiluna í þá stöðu, að ekki sé um annan kost að ræða en að loka, er verið að búa til ferli til að losna undan raforkusamningi. Er það þess virði að ganga að þeirra kröfum og um leið gera þessi störf að láglaunastörfum – er það sá veruleiki sem á að vera í íslensku samfélagi?“

Gylfi segir nú unnið að því að skoða hugsanleg næstu skref í deilunni. „Menn eru að skoða hvort fara eigi í útflutningsbann eða yfirvinnubann. [...] Þeir eru búnir að taka allt út af borðinu núna, allar kröfur og öll tilboð. Nú er bara launafrysting. Við slíkan aðila er mjög erfitt að semja, nema hann sé hreinlega þvingaður að borðinu.“

Spurður hvort til greina komi að fara í allsherjarverkfall kveður hann nei við. „Ef þeir eru í því ferli að reyna að gera okkur að blóraböggli fyrir því að loka fyrirtækinu, þá fá þeir það ekki frá okkur. Ef þeir halda hins vegar áfram sinni stefnu þá munu þeir éta upp fyrirtækið innan frá,“ segir Gylfi.

Ógnin um lokun vofir yfir

Starfsmaður álversins í Straumsvík í nærri 20 ár segir margt hafa breyst við eignarhald Rio Tinto á fyrirtækinu.

„Það breyttist margt þegar núverandi eigendur tóku við þótt það hafi ekki gerst strax frá fyrstu stundu. En fljótlega fór að bera á erfiðleikum í ákvarðanatöku og miðstýringin varð greinileg, segir hann í samtali við Morgunblaðið og bætir því við að starfsmenn margir hverjir upplifi sig nú einungis sem örlítið brot af gríðarstóru alþjóðlegu fyrirtæki. „Við erum svo ofboðslega litlir samanborið við heildina og skiptum því litlu máli. Vegna þessa vofir alltaf yfir okkur sú ógn að ef hlutir ganga ekki upp sem skyldi er næsta mál á dagskrá að loka.“

Nokkuð hefur borið á uppsögnum meðal starfsmanna álversins undanfarnar vikur og segir sá starfsmaður sem Morgunblaðið ræddi við uppsagnir vera að færast í vöxt.

„Við erum farnir að missa frá okkur gott fólk á besta aldri, t.a.m. hæfa tækjamenn, og fáum í staðinn yngra fólk sem er í pásu frá námi og því ekki líklegt til þess að stoppa lengi. Það veikir heildina mikið og má því segja að fyrirtækið sé að étast upp innan frá,“ segir hann.

Standa einir og vopnlausir

Spurður hvort hann sé sáttur með hvernig haldið hefur verið á málum í samningaviðræðum starfsmanna og Rio Tinto kveður hann nei við.

„Þeir eru algerlega búnir að mála sig út í horn. Við erum búnir að henda frá okkur öllum vopnum. Það er búið að bakka með yfirvinnubannið og verkfallsvopnið er ónýtt því ef við förum í verkfall þá hóta þeir lokun. Maður er því aftur kominn í þá stöðu að vera með framtíð bæjarfélags í höndunum við það eitt að vilja fá kjarasamning. Þetta er ekki eðlileg staða og ég skil ekki af hverju ASÍ eða ríkisstjórnin hefur ekki blandað sér meira inn í þessa deilu.“

Aðspurður segist hann ekki vita hver næstu skref geti orðið í deilunni. „Ef engir kjarasamningar koma þá tínist fólkið út og það er þegar byrjað,“ segir hann og bætir við að ef tilkynnt hefði verið um kjarabætur til starfsmanna álversins, sem koma myndu í janúar 2017, samhliða tilkynningu aðalforstjóra Rio Tinto um launafrystingu þá hefði slíkt virkað sem hvati til starfsmanna um að halda áfram. „En sú gulrót kom ekki og því spyr ég – af hverju er maður að hanga hérna?“

Deilan mikið áhyggjuefni

• Mat um áhrif lokunar mun liggja fyrir í næsta mánuði Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, segir í samtali við Morgunblaðið að staða kjaradeilunnar í álveri Rio Tinto Alcan í Straumsvík sé vissulega mikið áhyggjuefni, enda mun lokun þess, komi til hennar, hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér.

„Um er að ræða mjög mikilvægt fyrirtæki í bæjarfélaginu. Þetta er fjölmennur vinnustaður, mörg fyrirtæki í bænum þjónusta álverið og fyrirtækið hefur stutt ötullega við ýmiss konar verkefni og félög í Hafnarfirði,“ segir hún, en bæjarráð Hafnarfjarðar hefur þegar óskað eftir því að fá heildstætt yfirlit yfir alla hagsmuni Hafnarfjarðarbæjar vegna starfsemi álversins í Straumsvík.

Að sögn Rósu verður reynt að kortleggja bæði bein og óbein áhrif af rekstrinum. Jafnframt verði tekin saman ákvæði um réttindi og skyldur sem gilda um starfsemina.

„Embættismenn bæjarins vinna að því í samvinnu við umhverfisráðuneytið og væntum við þess að niðurstaða þeirrar úttektar liggi fyrir í næsta mánuði,“ segir hún.