George Soros hefur gefið í skyn að rót efnahagsvanda heimsins sé í Kína þótt það valdi meiri áhættu fyrir önnur lönd en Kína sjálft til skamms tíma.
George Soros hefur gefið í skyn að rót efnahagsvanda heimsins sé í Kína þótt það valdi meiri áhættu fyrir önnur lönd en Kína sjálft til skamms tíma. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Gabriel Wildau í Sjanghaí Kínversk stjórnvöld hafa yfir 3.000 milljarða dala gjaldeyrisforða í vopnabúrinu og eru staðráðin í að verja gjaldmiðil landsins, meðal annars fyrir frægasta „myntbana“ síðari tíma, sjálfum George Soros.

George Soros, maðurinn sem knésetti Englandsbanka og hjálpaði til, að sögn sumra, við að hrinda af stað fjármálakreppunni í Asíu, hefur nú verið varaður við því af stjórnvöldum í Peking að „herja á renminbíið“.

Viðvörunin, sem birtist á forsíðu málgagns kínverska kommúnistaflokksins, kemur á sama tíma og stjórnvöld í Peking leggja sig fram við að halda aftur af fjármagnsflótta og reyna að styðja við gjaldmiðli landsins. Hafa stjórnvöld meðal annars þurft að klípa um það bil 700 milljarða bandaríkjadala af gjaldeyrisvaraforða sínum á undanförnum 18 mánuðum, svo að forðinn nemur núna 3.300 milljörðum dala.

„Stríð Soros gegn renminbíinu og Hong Kong dollaranum getur ekki mögulega heppnast – á því leikur ekki nokkur vafi,“ sagði í forsíðugreininni sem skrifuð var af sérfræðingi hjá viðskiptaráðuneytinu og birtist í alþjóðaútgáfu Dagblaðs alþýðunnar með fyrirsögninni „Lýsir yfir stríði á hendur gjaldmiðli Kína? Ha, ha“.

Soros tekur stöðu

Í síðustu viku sagði milljarðamæringurinn Soros við sjónvarpsrás Bloomberg að hann hefði veðjað gegn S&P 500, asískum gjaldmiðlum og hagkerfum sem eru háð hrávöru, en hins vegar tekið stöðu með bandarískum ríkisskuldabréfum.

Undanfarnar vikur hafa embættismenn í Kína og fjölmiðlar stjórnvalda hvergi dregið af sér við að reyna að auka tiltrú á renminbíinu. Gengi kínverska gjaldmiðilsins hefur lækkað um 5,7%, frá því að seðlabankinn kom alþjóðamörkuðum í opna skjöldu í ágúst með því að gefa renminbíinu aukið svigrúm til lækkunar.

Þótt Soros hafi ekki tilgreint renminbíið eða Hong Kong dollarann sérstaklega í ummælum sínum í síðustu viku, þá sagði hann að Kína væri „rót vandans“ á þeim dumbungsmarkaði sem útlit er fyrir á heimsvísu á þessu ári, og nefndi hann verðhjöðnun og háar skuldir sem helstu áhættuþætti. Hann sagði að það væri „nánast óhjákvæmilegt“ að harkaleg lending biði kínverska hagkerfisins.

Á hinn bóginn hefur Soros líka gefið í skyn að hægari hagvöxtur í Kína hafi í för með sér meiri skammtímaáhættu fyrir önnur lönd frekar en fyrir Kína sjálft, einkum vegna þess hvernig þróun mála í Kína hefur stuðlað að lækkun á verði á hrávörum. „Kína getur spjarað sig,“ sagði hann. „Landið býr yfir auðæfum og meira svigrúmi við stjórnvaldsákvarðanir, og býr yfir 3.000 milljarða dala gjaldeyrisforða.“

Soros hefur verið kennt um árásir spákaupmanna á asíska gjaldmiðla í efnahagskreppunni sem reið yfir álfuna árið 1997, og árásir á breska pundið árið 1992. Á ráðstefnunni í Davos í fyrra sagðist hann hættur að fást við fjárfestingar, en er þó enn stjórnarformaður Soros Fund Management.

Hart tekið á spákaupmennsku

Í ritstjórnargrein á ensku sem birtist á laugardaginn, gagnrýndi ríkisfréttastofan Xinhua „þá sem vilja veðja á „skipbrot“ kínverska hagkerfisins“. Greinin varar enn fremur við að „óábyrg spákaupmennska og forhertar skortstöður muni lenda í hærri viðskiptakostnaði, og mögulega hafa alvarlegar lagalegar afleiðingar í för með sér.“

Komu þessi skrif í kjölfarið á umfjöllun Xinhua fyrr í mánuðinum, þar sem rætt var við sérfræðinga sem sögðu að „yfirgnæfandi meirihluti [kínverskra] heimila hefði í rauninni enga þörf fyrir“ að kaupa erlendan gjaldeyri. Þessi tilraun til að reyna að létta söluþrýstingi af renminbíinu kom eftir að ríkisfjölmiðlar greindu frá mikilli aukningu á kaupum einstaklinga á erlendum gjaldeyri á undanförnum vikum, sem varð til þess að stjórnvöld gáfu bönkum óformleg fyrirmæli um að draga úr slíkum viðskiptum.

Í takt við vaxandi útstreymi fjármagns hefur seðlabanki Kína varið hundruðum milljarða dala úr eigin gjaldeyrisvaraforða til að stemma stigu við lækkun gengisins.

Starfsmenn kínverska gjaldeyriseftirlitsins hafa ítrekað sagt að þeir sjái „engan grundvöll“ fyrir mikilli veikingu renminbísins, og einn af helstu ráðgjöfum Xi Jinping, forseta Kína, sagði gestum í Davos í síðustu viku að Kína sæktist ekki eftir veikari gjaldmiðli.