Þórunn Eggþóra Andrésdóttir fæddist 2. desember 1925. Hún andaðist 5. janúar 2016. Útför Þórunnar fór fram 20. janúar 2016.

Elsku Þórunn mín, ég vil þakka þér alla samveruna, okkar langa hjúskap.

Nú á þessum tímamótum finnur maður til einmanaleika og mikils söknuðar. Framtíðin mun fylgja því leiðarljósi að aðstoða afa- og langafabörnin og búa þau undir lífið. Megi guð styrkja þig og blessa um ókomna tíð.

Ég vil þakka öllum sem hafa hjálpað mér á einhvern máta við útför Þórunnar.

Bergsteinn Ólason.

Elsku amma/mamma.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Ég á þér svo mikið að þakka, elsku amma, þú kenndir mér svo margt og hugsaðir um mig eins og þína eigin dóttur. Þú kenndir mér alla helstu handavinnu og þú kenndir mér að baka en allra helst kenndir þú mér að láta ekkert stoppa mig og að ég væri eins sterk og hugurinn leyfði. Þú lést ekkert stoppa þig, ef þú ætlaðir þér eitthvað þá léstu verða af því. Þrátt fyrir að lenda í slysi og missa löppina fyrr ofan hné aðeins barn að aldri man ég ekki eftir því að hafa hugsað einu sinni um þig sem „fatlaða“, þú varst bara með eina gervilöpp, það var bara amma. Þú stundaðir nám eins og aðrir þú vannst eins og aðrir og ferðaðist um eins og aðrir, jafnvel ferðaðistu meira en aðrir. Þú ert fyrirmynd sem allir ættu að fara eftir. Ég veit að þú áttir ekki auðvelt með að fara frá okkur, ég veit að þú vildir ná þér aftur og hugsa um okkur systkinin lengur, en elsku amma, við hjálpumst að með að sjá hvert um annað og við pössum upp á afa þangað til hann kemur til ykkar mömmu. Elsku amma, ég veit að þú situr á einhverjum góðum stað með mömmu spjallandi og hlæjandi og Garðar minn leikur sér án efa í kringum ykkur. Ég bið að heilsa þeim og geymi þig á öruggum stað í hjarta mínu þar sem þú munt aldrei gleymast og þar sem allt sem þú hefur kennt mér og gert fyrir mig mun aldrei gleymast. Lífið verður aldrei samt án þín en við kveðjumst í bili þangað til sá dagur kemur að ég hitti ykkur aftur.

Rán B.

Elsku Tóta.

Ég var einstaklega heppin að njóta samveru þinnar og umhyggju frá unga aldri. Er ég fluttist til þín níu ára frá Akureyri voruð þið Steini nýgift. Mér fannst Reykjavík æðisleg. Á Dunhaga 17 var margt við að vera. Þaðan sótti ég Melaskólann og Hagaskólann. Ég fékk næstum 10 í handavinnu því þú varst snillingur í hannyrðum og varst ávallt með eitthvað á milli handanna.

Þú varst svo fjölhæf og iðin og gerðir alla kröftugri sem nutu samvistar þinnar. Ég leit á þig sem heimskonu og á heimili þínu fékk ég í fyrsta sinn erlendan mat, þ.e.a.s. frá Ameríku. Þú lýstir landinu og fólkinu svo rækilega vel að ég hreifst af og löngu seinna endaði ég með að flytja þangað!

Þú og Steini voruð fjölskyldan mín og allir komu saman hjá þér, Venni, Minnie, Nonni, Baddi, Sigrún og Ása. Svo bættist litla Rut ykkar Steina við. Hún féll frá svo snemma og var mikið áfall að missa hana. Eins og alltaf varst þú sem klettur.

Þér þótti afar vænt um hann Richard minn sem var svo elskulegur að koma með mér til Íslands og í jarðarförina.

Í gegnum árin hef ég reynt að vera stór, sterk og vandvirk eins og þú kenndir mér að vera.

Með þökkum og ást,

Ása Vilhelmsdóttir Arena.

Mig langar til að minnast yndislegrar vinkonu minnar til margra ára. Við kynntumst fyrst þegar Bergsteinn föðurbróðir minn kynnti konuna sína fyrir fjölskyldunni. Hún var ekki há í loftinu en þeim mun stærri persóna. Hún var greind, glaðlynd, hreinskilin og dásamleg kona. Hún var vinur vina sinna og ætíð raungóð ef til hennar var leitað.

Sem barn að aldri varð hún fyrir bíl og missti í kjölfarið annan fótinn ofan við hné. Aldrei barmaði hún sér en tókst á við lífið af miklum hetjuskap.

Hún var um tíma úti í Bandaríkjunum og átti góðar minningar þaðan. Hún talaði ensku eins og innfæddur og þau hjónin áttu eftir að ferðast mikið.

Hún vann alla tíð hjá Símanum og var mjög vinsæl á meðal starfsfélaganna enda alltaf hress og mikið hlegið í kringum hana.

Þau hjónin buðu mér að búa hjá sér fyrsta veturinn minn í KÍ. Þá bundumst við Þórunn ævarandi böndum. Þegar ég var hjá þeim var Rut einkadóttir þeirra fimm ára gömul lítil skotta og ég fékk að sofa í herberginu hennar. Þau hjónin voru mér sem aðrir foreldrar og ég er þeim innilega þakklát fyrir þann vetur.

Þau urðu fyrir þeirri óbærilegu sorg að missa dótturina frá eiginmanni og þrem börnum aðeins 46 ára gamla. Það voru erfið ár framundan en þau hafa verið sem klettur fyrir barnabörnin sín. Hún var að segja mér á dögunum að hún væri svo ánægð með þau. Þau væru öll komin með ástvini og hefðu hugmyndir um hvað þau ætluðu sér í lífinu og vonandi á þeim eftir að ganga vel. Það eru líka komin þrjú barnabarnabörn, fallegir og fjörugir strákar.

Þegar við Guðmundur ákváðum að gifta okkur í maí 2012 báðum við þau Þórunni og Steina að vera svaramenn okkar. Það var auðsótt mál. Eftir athöfnina, sem var í kyrrþey hjá sýslumanninum í Reykjanesbæ, fórum við fjögur á Hótel Holt og áttum alveg yndislega stund saman.

Steini sagði mér, eftir að Þórunn dó, að hann langaði til að fá að fara til Ránar eldri dótturdóttur sinnar og fjölskyldu hennar. Þegar hann bar þessa bón upp við hana þá var það sjálfsagt mál af þeirra hálfu. Það fannst mér bera þess merki að eitthvað hefðu þau afi og amma gert rétt í uppeldinu. Böndin á milli þeirra og barnanna voru líka auðsæ.

Elsku Þórunn mín. Nú hafið þið mæðgurnar náð saman á ný og ég samgleðst ykkur innilega. Guð veri með ykkur elskurnar mínar.

Bestu kveðjur og hafðu þökk fyrir allt.

J. Sigrún Einarsdóttir.