Sebastian Prödl
Sebastian Prödl
„Ef þú horfir á austurrískan fótbolta í dag, ekki bara landsliðið, heldur leikmenn sem eru að spila í Þýskalandi, Englandi og fleiri stórum deildum í Evrópu þá höfum við verið vanmetnir,“ segir Sebastian Prödl, miðvörður austurríska...

„Ef þú horfir á austurrískan fótbolta í dag, ekki bara landsliðið, heldur leikmenn sem eru að spila í Þýskalandi, Englandi og fleiri stórum deildum í Evrópu þá höfum við verið vanmetnir,“ segir Sebastian Prödl, miðvörður austurríska landsliðsins og leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Watford, í viðtali á vef evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA.

Íslendingar leika sem kunnugt er í riðli með Austurríkismönnum á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar og mæta þeim í þriðja og síðasta leik sínum í riðlinum á Stade de France leikvanginum glæsilega í París þann 22. júní.

Austurríkismenn gerðu frábæra hluti í undankeppninni þar sem þeir innbyrtu 28 stig af 30 mögulegum. Aðeins Englendingar náðu betri árangi en þeir fengu fullt hús. Í fyrsta sinn í 25 ára sögu heimslista FIFA komust Austurríkismenn á topp tíu listann en þeir komust í 10. sæti á listanum í október og eru enn í því sæti.

Í sumar leika Austurríkismenn í úrslitakeppni EM í fyrsta sinn frá því keppnin var haldin þar árið 2008.

„Ég á frábærar minningar frá mótinu 2008 vegna þess að það var haldið í heimalandi okkar og andrúmsloftið var hreint magnað í landinu meðan á mótinu stóð. Því miður tókst okkur ekki að komast upp úr riðlinum en ég öðlaðist mikla reynslu sem nýliði í landsliðinu.

Þetta er erfiður riðill

Auk Austurríkismanna og Íslendinga eru Portúgalar og Ungverjar í F-riðlinum á EM í sumar.

„Þetta er erfiður riðill en ég var ánægður með riðilinn og ég reikna með að Portúgal, Ísland og Ungverjaland hafi líka verið það. Portúgal með Cristiano Ronaldo er sigurstranglegast en það er mikið sjálfstraust í okkar liði og ég er bjartsýnn á að við komust upp úr riðlinum,“ segir hinn 28 ára gamli Sebastian Prodl. gummih@mbl.is