Gunnlaugur Tryggvi Pálmason fæddist 28. febrúar 1923.
Hann lést 13. janúar 2016.
Útför Gunnlaugs fór fram 23. janúar 2016.
Þá ert þú farinn yfir í betri heim eins og Spánverjar segja þegar við kveðjum þennan heim okkar.
Þinn heimur var fyrst og fremst íslenskur, ég man vel þegar þú sagðir mér að þig hefði aldrei langað sérstaklega til útlanda. Ekki skorti þig þó víðsýni og þú last mikið og margs kyns efni, það voru alltaf bækur við rúmið þitt. Og eftir að þið mamma fóruð á Hornbrekku hélst þú áfram að lesa, aðallega skáldsögur sem þú raktir fyrir mér þegar ég hringdi í þig.
En fyrstu minningarnar um þig tengjast sveitinni og því sem þar fór fram. Þar lærði ég að vinna. Ég minnist stílabókanna þar sem ég skrifaði niður unna tíma við hin ýmsu verk: reyta arfa, slá garðinn, vökva ... og svo fékk ég laun samkvæmt þessari skráningu. Það var góð lexía að það þarf að leggja ýmislegt á sig til að uppskera.
Ótal minningar tengjast hinum ýmsu sendistörfum. Ég hljóp í bílskúrinn að ná í tútommunagla, og allt upp í sextommu, ef þig vantaði fleiri. Í girðingavinnunni fór ég eftir járnkalli, rogaðist með sleggju og hjálpaði við að strekkja vírnet á staura. Og svo þurfti að stinga í samband þegar þú varst að rafsjóða einhverja vinnuvélina sem hafði bilað og athuga hvort einhver kind væri að bera þegar sauðburður stóð yfir.
Bílskúrinn var þitt heimasvæði, þar voru hin ýmsu verkfæri sem á þurfti að halda við búskapinn og viðgerðir, auk alls konar dóts sem ekki mátti henda, það var nefnilega aldrei að vita nema hægt væri að nota það seinna, sem kom jú oft á daginn. Ekki fannst mér skipulagið þar alltaf í besta lagi en þú vissir nú yfirleitt hvar allt var. Ég man að einhvern tímann tók ég svo til hendinni í tiltekt þar að þér fannst nóg um. En ekki æstir þú þig út af þessu frekar en þegar ég var nýbúin að læra að keyra traktor og var að snúa heyi niðri á túni, og misreiknaði einn skurðendann. Enda var hægt að gera við snúningsvélina.
Þú hafði alltaf áhuga á bílum (sem öðrum vélum) og ég á ótal minningar um sunnudagsbíltúra, í Vaglaskóg, til Mývatns, fram í Leyningshóla ... Ekki má heldur gleyma þegar við þeystum hringveginn árið 1974 og skruppum út í Dyrhólaey svona í leiðinni. Þessi áhugi náði líka til bílanna minna og fyrir stuttu spurðir þú mig hvort ég þyrfti ekki að fara að fá mér nýjan bíl þegar ég minntist á að minn væri farinn ryðga svolítið. Þannig varstu alltaf að fylgjast með þótt ekki bæri mikið á. Ég man líka vel þegar þið mamma færðuð mér nýjan ísskáp þegar ég leigði úti í bæ á menntaskólaárunum, þið höfðuð nefnilega frétt að til stæði að kaupa gamlan ísskáp í gegnum smáauglýsingar.
Þá má ekki heldur gleyma að þú varst alltaf opinn fyrir tækninýjungum þó að þú sæir ekki alltaf tilgang í að tileinka þér þær hin síðari ár. Til marks um það er seinasta myndin sem ég tók af okkur saman, ansi góð „selfie“ þar sem áhugi þinn á þeirri tækni leynir sér ekki.
Elsku pabbi, ég vona að þér líki heimurinn sem þú ert nú kominn í. Hafðu það gott þangað til næst, þegar við hittumst í hinum betri heimi.
Þín dóttir,
Halldóra Soffía.