Agnes Bragadóttir
agnes@mbl.is
Stjórn VR tilnefndi á fundi sínum í hádeginu í gær fulltrúa félagsins í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna kjörtímabilið 2016 – 2019.
Allir fjórir aðalmennirnir sem VR tilnefnir eru nýir. Þau eru: Magnús Ragnar Guðmundsson, Ína Björk Hannesdóttir, Ólafur Reimar Gunnarsson og Auður Árnadóttir.
Varamenn VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna verða: Ásta Rut Jónasdóttir, Ingi G. Ingason, Perla Björk Egilsdóttir og Birgir Már Guðmundsson.
Ásta Rut hefur verið stjórnarformaður sjóðsins undanfarin þrjú ár, en hún féll úr aðalstjórn og verður varamaður. Birgir Már Guðmundsson féll einnig úr aðalstjórn og verður varamaður. Páll Örn Líndal og Fríður Birna Stefánsdóttir féllu einnig úr aðalstjórn.
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, var í gær spurð hvort stjórn VR hefði engar áhyggjur af reynsluleysi fjögurra nýrra aðalmanna í stjórn lífeyrissjóðsins: „Þegar þessi átta manna hópur, aðalmenn og varamenn er skoðaður, þá sést að þetta er gríðarlega öflugt og flott fólk sem þarna hefur verið valið til trúnaðarstarfa og tveir varamannanna hafa setið í aðalstjórn og búa að mikilli reynslu,“ sagði Ólafía.
Aðspurð hver kostnaðurinn hefði verið af því að fá Hagvang til þess að vinna mat og viðtöl, vegna þeirra 40 umsækjenda sem sóttust eftir sæti í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sagði Ólafía að einstakir kostnaðarliðir væru ekki gefnir upp. Þeir kæmu bara fram í ársskýrslu VR.
Ekki liggur fyrir hver verður formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna til næstu þriggja ára, en hann mun koma úr röðum atvinnurekenda.
Mánaðarlaun stjórnarformanns sjóðsins á árinu 2014 voru um 300 þúsund krónur, varaformanns 220 þúsund krónur og laun aðalmanna í stjórn voru tæpar 150 þúsund krónur á mánuði.