Jóna Ingimundardóttir fæddist í Keflavík 15.9. 1930. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu í Reykjanesbæ 9.1. 2016.

Foreldrar hennar voru hjónin Helga Jónsdóttir, húsfreyja á Kaldbak á Eyrarbakka og síðar á Túnbergi í Keflavík, f. 3.9. 1890, d. 15.5. 1948, og Ingimundur Júníus Vigfússon, lýsisbræðslumaður og sjómaður á Eyrarbakka og síðar trésmiður í Keflavík, f. 9.6. 1888, d. 21.2. 1935. Systkini Jónu eru Ingibjörg Jónsdóttir hálfsystir sammæðra, húsfreyja í Keflavík, f. 13.12. 1912, d. 10.10. 2002, gift Sigfúsi Guðmundssyni, f. 26.3. 1909, d. 5.8. 1969, Jón bóndi, f. 7.7. 1920, d. 10.8. 2005, kvæntur Ásgerði Jónsdóttur, f. 22.6. 1918, d. 18.12. 1999. Sigurður Vigfús, bílaviðgerðamaður í Keflavík, f. 5.9. 1922, kvæntur Rósu Ólafsdóttur, f. 19.8. 1925, d. 19.3. 2006, Sólveig, f. 16.9. 1925, d. 12.9. 1934.

Jóna giftist 17. júní 1950 Ragnari Péturssyni frá Áreyjum í Reyðarfirði, f. 20. júlí 1928, d. 13. nóvember 1983. Þau eignuðust fjögur börn og þau eru: 1) Helga, f. 1.5. 1950, eiginmaður Reynir Ólafsson, f. 1947, börn þeirra eru: a) Jón Ragnar, f. 1973, eiginkona Margrét Richard, f. 1975, börn þeirra eru Daði Már, f. 1994, og Helgi Snær, f. 2001. b) Erla, f. 1978, eiginmaður Skúli Sigurðsson, f. 1976, börn þeirra eru: Alexander Emil, f. 2013, Birta, f. 2014, Lilja og Emma, f. 2015. 2) Sölvi, f. 30.12. 1951, börn hans eru: a) Ásta Sóley, f. 1972, sambýlismaður Stefán Hallgrímsson, f. 1979, börn Ástu eru: Jóhann Víðir Erlingsson, f. 1992, Sunneva Sól Sigurðardóttir, f. 1997, Kári Freyr Þorsteinsson, f. 2004, og Margrét Sóley Þorsteinsdóttir, f. 2009, b) Silvía, f. 1980, sambýlismaður Matt Wright, f. 1975, barn Silvíu er Sölvi Dór Salvarsson, f. 2000, c) Magnús Grétar, f. 1985. 3) Smári, f. 19.5. 1958, sambýliskona Lilianne Van Vorstenbosch, f. 1959. Börn Smára eru: a) Ingvi Steinar, f. 1977, eiginkona Katrín María Guðbjartsdóttir, f. 1977, börn þeirra eru: Apríl Dögg, f. 2005, Elísabet María, f. 2008, Emilía Líf, f. 2009, og Jósef Daníel, f. 2015. b) Samúel Már, f. 1981, sambýliskona Fríða Hreggviðsdóttir, f. 1981, börn þeirra eru: Máni, f. 2006, Jóna Sjöfn, f. 2012, fyrir á Samúel Már Lovísu Rós, f. 2000, c) Guðlaug Vala, f. 1987, eiginmaður Vilhjálmur Konráðsson, f. 1963, barn þeirra er Kristín Sunna, f. 2013, fyrir á Guðlaug Vala Benjamín Sölva Sigurðsson, f. 2007. 4) Sóley, f. 16.7. 1961, eiginmaður Ægir Emilsson, f. 1969, barn þeirra er Emil Ragnar, f. 1994, unnusta Hera Ketilsdóttir, f. 1995. Fyrir á Sóley Dísu Rhiannon Edwards, f. 1987, eiginmaður Reggie Dupree, f. 1986, barn þeirra er Aria Rhiannon, f. 2013.

Jóna ólst upp í Keflavík og þar hófu þau Ragnar búskap sinn á Smáratúni 33, þar sem þau reistu sér hús og Ragnar rak fyrirtækið sitt Kranann hf. Jóna vann við heimilishjálp hjá Reykjanesbæ út sinn starfsferil.

Útför hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Elsku mamma mín.

Margs er að minnast núna þegar þú ert farin. Efst er mér í huga þakklæti. Þakklæti fyrir lífið sem þið pabbi gáfuð mér og öll árin sem ég fékk með þér. Hefði viljað hafa þau fleiri með pabba en svona er bara lífið stundum, nokkuð sem við ráðum ekki við. En allar góðar minningar lifa. Núna sé ég ykkur pabba klæða ykkur í saman í klofstígvélin og fara saman út í á að veiða. Þakklát fyrir að þú tókst mig með þér á Alfa-námskeið og í framhaldi af því á bænafundi. Í þeim félagsskap áttum við yndislegar stundir. Þakklát fyrir jákvæðnina og þinn mikla húmor og hvað það var gott að hlæja með þér. Þakklát fyrir umhyggjusemi þína við börnin mín.

Elsku mamma, ég ætla að kveðja þig með einum af þínum uppáhaldssálmum.

Eitthvað stórkostlegt,

eitthvað gott.

Allan minn biturleik,

þú tókst á brott,

allt sem ég gat gefið þér

var niðurbrotin sál.

En eitthvað stórkostlegt

þú gerðir úr mér þá.

(Höf. ókunnur)

Þín dóttir

Helga.

Elsku mamma mín er látin. Mig langar að minnast hennar með nokkrum orðum. Betri mömmu hefði ég einfaldlega ekki getað óskað mér. Húmorinn hennar var yndislegur og oft mjög beinskeyttur, við vorum mjög nánar og gátum hlegið mikið saman. Það sem helst einkenndi hana var eljusemi, ósérhlífni og dugnaður og allt lék svo ótrúlega vel í höndunum á henni, það var svo gott að koma til hennar og fá hjálp og aðstoð við ýmislegt.

Hún var fyrirmyndarhúsmóðir í alla staði og bar heimilið ætíð þess merki. Hún passaði börnin mín og tók á móti þeim að loknum skóladegi og alltaf var hún til staðar fyrir ömmubörnin sín. Mömmu var alla tíð afar annt um börnin sín og fjölskyldur þeirra og lagði sig fram um að fylgjast með þeim öllum. Hún var svo ánægð með hópinn sinn og stoltið leyndi sér ekki þegar hún sagði frá þeim.

Minningarnar streyma um huga minn þegar ég rifja upp þegar við vorum að fara upp í sveit til Nonna bróður hennar, í sumarbústaðinn og veiðiferðirnar með mömmu og pabba og öll ferðalögin sem við fórum í saman munu aldrei gleymast. Samhliða húsmóðurhlutverki og starfi stundaði hún fjölbreytta listsköpun en hún hafði mikla og ríka sköpunarþörf og var margt til lista lagt. Mamma sótti ýmis námskeið í málningu, keramiki og tréútskurði. Einnig vann hún við föndur hjá eldri borgurum hjá Reykjanesbæ. Mörg verk hennar prýða heimili barna og barnabarna og eru þau ómetanleg minning um hana enda var hún mikill listamaður. Hún hafði einnig mikið yndi af allri handavinnu og var mjög lagin við hana og vandvirk. Áður fyrr saumaði hún fötin á okkur systkinin og prjónaði peysur á milli þess sem hún saumaði út eða brenndi í keramikofninum en aldrei sat hún auðum höndum. Óteljandi eru sokka- og vettlingapörin sem hún prjónaði á hópinn sinn og þegar sokkarnir slitnuðu þá var hún ekki lengið að redda því og prjónaði á þá nýja tá eða nýjan hæl, enda var hún ótrúlega nýtin. Mér er það sérstaklega minnisstætt hvað ég þurfti að rekja oft upp skólahandavinnuna því vandvirknin var henni alltaf efst í huga. Árið 1983 urðu mikil kaflaskil í lífi okkar þegar pabbi dó skyndilega. Hans var sárt saknað. Mamma tók því af miklu æðruleysi. Mamma var mikil veiðikona og naut samverunnar við árbakkana með pabba. Hún hafði gaman af að ferðast og naut landsins og náttúrunnar og hélt hún því áfram eftir að pabbi dó og alveg þar til að heilsan fór að gefa sig.

Náttúran og trúin áttu sterk ítök í mömmu, fallegir blómagarðar fylgdu henni hvar sem hún bjó sem hún ræktaði af mikilli alúð. Einnig var hún virkur meðlimur í ýmsum félagsskap eins og í Systrafélaginu og í Alfa þar sem hún ræktaði trú sína. Síðustu ár mömmu voru henni erfið en þrátt fyrir það var hún alltaf þó brosmild og jákvæð og hélt sínu margumtalaða jafnaðargeði og húmor fram til síðasta dags. Öllu starfsfólki á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu, Nesvöllum, sem annaðist mömmu síðustu æviárin vil ég þakka fyrir einstaka alúð og góða umönnun.

Hafðu þökk fyrir allt, elsku mamma mín, og hvíldu í friði en minninguna um þig mun ég geyma í hjarta mér. Ég sakna þín, elsku mamma mín. Ég veit að þér verður vel tekið á nýjum stað en þar bíður hann pabbi eftir þér.

Við áttum margar ógleymanlegar stundir saman og met ég þær mikils. Ægir, Dísa, Reggie, Aria, Emil og Hera senda þér ástarkveðjur.

Þín dóttir

Sóley.

Elsku Amma Jóna.

Ég er þakklátur fyrir allar þær stundir sem við áttum saman og minnist þess hversu mikið mér fannst ég eiga sameiginlegt með þér og afa Ragga þegar kemur að áhugamálum.

Stangaveiði og skotveiði voru honum allt en alltaf birtust myndir af þér með stórlaxa úr Reykjadalsánni og fleiri stöðum. Það sýndi að þú gafst honum ekkert eftir þegar þú fékkst færi á.

Það eru margar stundir sem eru ógleymanlegar með þér, alltaf í stuði og til í að grínast og skemmta okkur þegar þú komst eða við heimsóttum þig.

Það var gaman að heyra hvað vinum mínum fannst þú skemmtileg og einn þeirra kallaði þig ömmu rokk.

Ég var nú frekar ungur þegar afi Raggi dó en man samt ágætlega eftir veiðitúrum og ferðum sem ég fór með ykkur í.

Það var frábært þegar þú fórst að bjóða okkur (sem það vildu) í skötu til þín á Þorláksmessu, en sú hefð er komin til að vera, þökk sé þér.

Það var yndislegt að vera með þér á Tenerife árið 2006.

Þú hugsaðir alltaf til okkar og það er ég þakklátur fyrir.

Kæra Amma Djóní, hvíldu í friði.

Jón Ragnar Reynisson

og fjölskylda.

Í dag er borin til grafar fyrrverandi tengdamóðir mín, Jóna Ingimundardóttir, sem ég minnist með miklu þakklæti.

Ég kynntist Jónu á unglingsaldri þegar ég kom fyrst á heimili hennar og Ragga í Smáratúni 33 í Keflavík. Ég man mjög vel eftir þessari fyrstu heimsókn og sérstaklega eftir Jónu, því þarna hitti ég húsmóður af lífi og sál, kvenskörung sem lifði og starfaði fyrir sína fjölskyldu og heimili. Myndarbragur var á öllu og hreinlæti í fyrirrúmi og alltaf eitthvað gott að borða. Við skulum athuga að á þessum árum var verkaskipting mjög skýr milli karla og kvenna, konan sá um heimili og börn, karlinn aflaði tekna.

En Jóna hafði samt mörg járn í eldinum meðfram heimilisstörfum og þegar ungarnir voru flognir úr hreiðrinu fór hún að stunda ýmsar tómstundir, t.d. fór hún að iðka stangveiði með manni sínum.

Jóna var mikil hannyrðakona og var skapandi á því sviði. Ég man ennþá eftir viskustykkjunum sem hún gaf okkur í búið. Þau voru gerð úr hveitipokum, sem hún sneið úr og svo málaði hún á þetta alls konar munstur, með taulit, sem hún nefndi svo. Og þessi viskustykki entust endalaust. Þetta er einungis eitt lítið dæmi af uppfinningum sem hún stóð fyrir og voru til búbóta fyrir heimilið.

Eitt verð ég að nefna sem ég man alltaf og það er hvað ég varð hissa í eitt skiptið sem ég kom til hennar og heyrði hana tala reiprennandi ensku, hún var þá að tala við einhvern gest sem var þarna staddur, man ekki lengur hvern, en ég varð alveg klumsa, því það voru ekki margir af hennar kynslóð sem töluðu erlend tungumál. En hún Jóna var sko heimskona, hafði ferðast víða og komið til Ameríku, sem mér fannst mjög merkilegt þá.

Hún varð fyrir mikilli sorg, þegar hún missti hann Ragga sinn, lífsförunautinn til margra ára og föður að fjórum börnum þeirra. Ég held hún hafi borið harm sinn nokkuð í hljóði, en allir skynjuðu þó hve söknuðurinn var sár. Og ekkert varð aftur eins og það var áður í lífi hennar. Ragnar Pétursson dó af slysförum aðeins 55 ára gamall og hún og fjölskyldan stóðu eftir hnípin og furðu lostin, í djúpri sorg.

Sorgin er einnig djúp í dag þegar við kveðjum Jónu.

En munið að í þetta sinn fenguð þið að kveðja foreldri ykkar, ömmu og ástvin, en þess eigum við ekki alltaf kost, eins og við þekkjum.

Og það er huggun harmi gegn.

Við vitum að nú eru Jóna og Raggi saman á ný (í veiðitúr).

Ég votta Sölva og börnum okkar, einnig Helgu, Smára, Sóleyju og þeirra fjölskyldum dýpstu samúð mína.

Blessuð sé minning Jónu.

Margrét (Madda).

Elsku Jóna mín, besta tengdó í heimi. Ég kveð þig með söknuði. Þú varst mér og okkur öllum svo góð í gegnum lífið. Þegar ég kynntist Sóleyju þinni og kom inn á heimili þitt tókstu mér opnum örmum og einu skilyrðin voru að hún væri ekki skilavara og lýsir þetta húmor þínum best. Það er svo margs að minnast, elsku Jóna mín, við áttum svo margar góðar stundir saman hvort sem var í sveitinni, heima hjá þér eða okkur.

Þú varst alltaf tilbúin að gera allt fyrir okkur. Þú varst svo mikill snillingur við allar hannyrðir og ekki skemmdi fyrir hversu hress þú varst og alltaf til í að djóka við mann.

Þú varst sú besta tengdamamma og amma sem hægt var að hugsa sér, alltaf tilbúin að rétta hjálparhönd, hvort sem það var að passa eða bara vera til staðar. Þakka ég þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur, elsku besta Jóna mín.

Hvíl þú í friði. Kær kveðja.

Þinn tengdasonur,

Ægir.

HINSTA KVEÐJA
Elsku Jóna mín, nú er kallið komið.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um huga minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Hvíl þú í friði. Ég votta aðstandendum samúð mína.
Kveðja,
Freyja Torfadóttir.