[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Alejandro G. Iñárritu. Handrit: Mark L. Smith og Alejandro G. Iñárritu, byggt á bók Michaels Punke. Aðalhlutverk: Leonardo DiCaprio, Tom Hardy, Domhnall Gleeson og Will Poulter. Bandaríkin 2015, 156 mínútur.

Hugh Glass (Leonardo DiCaprio) er leiðsögumaður fyrir hóp loðdýraveiðimanna í Bandaríkjunum árið 1823. Eftir skæða indíánaárás neyðist hópurinn til þess að skilja skinn sín eftir og halda heim á leið. Þegar bjarndýr ræðst á Glass og skilur hann eftir nær dauða en lífi þarf hópurinn að ákveða hvað eigi að gera við hann, en hinn ágjarni Fitzgerald (Tom Hardy), býðst til þess að sitja yfir Glass þar til hann deyr, fyrir sanngjarna umbun.

Eftir að Fitzgerald svíkur Glass og stingur af, hefst barátta hins síðarnefnda við að græða sár sín en jafnframt leita Fitzgerald uppi, á meðan fimbulkuldi herjar á. Spurningin vaknar, hvort Glass muni ná fram hefndum sínum, eða hvort náttúruöflin, indíánar eða hvíti maðurinn nái að kála honum fyrst? Og hvenær kemur að þeim tíma þegar hefndin verður ekki lengur sæt, heldur beisk?

Þannig hljóðar í nokkuð grófum dráttum söguþráður The Revenant, sem á íslensku gæti heitið uppvakningurinn, en í raun mætti segja að kvikmyndin sé fyrst og fremst ótrúleg átakasaga af því hvernig lífsviljinn getur brotist fram þegar allt virðist manni í mót. Það er ekki mikið um samtöl í handriti myndarinnar, en þess í stað fær áhorfandinn að njóta ótrúlega myndrænnar söguframvindu, sem nær að halda áhorfandanum gagnteknum þann tvo og hálfa klukkutíma sem kvikmyndin tekur í sýningu.

Eins og gefur að skilja er leikstjórn og myndataka veigamikill þáttur myndarinnar og notar Alejandro G. Iñárritu ( Birdman ) mjög persónulegan og náinn myndatökustíl til þess að láta áhorfandann taka þátt í raunum Glass. Árás bjarndýrsins er til að mynda eitt áhrifaríkasta atriði sem undirritaður hefur séð, en jafnframt eitt hið óþægilegasta. Sum atriði kvikmyndarinnar eru raunar ágætlega ofbeldisfull og er þar ekkert dregið undan.

Þó að ekki sé mikið um samtöl í myndinni er engu að síður hægt að tala um frábæran leik, ekki síst hjá stjörnu hennar, Leonardo DiCaprio, sem hlaut fyrir frammistöðuna á dögunum Golden Globe-verðlaunin. DiCaprio gefur myndinni sál, þannig að áhorfandinn finnur til með Glass í hverri þeirri raun sem hann lendir í. Hann er jafnframt tilnefndur til Óskarsverðlauna í fimmta sinn fyrir þátt sinn í myndinni, og vilja einhverjir meina að hann hljóti nú að fá styttuna að þessu sinni, því það sé „uppsafnað“, eins og það heitir í knattspyrnunni.

Það er þó ekki bara DiCaprio sem stendur sig vel, heldur nær Tom Hardy fullkomnum tökum á varmenninu Fitzgerald. Kvikmyndin í raun hverfist um samband þeirra Glass og Fitzgeralds og það hvernig hin afdrifaríku svik þýða það að örlög þeirra verða samtvinnuð það sem eftir er. Hardy ber kross sinn sem fúlmennið vel og er heldur ekki að undra að hann hafi fengið náð fyrir augum Óskars-akademíunnar fyrir leik í aukahlutverki, hvort sem hann fær verðlaunin eða ekki.

Aðrir leikarar myndarinnar standa sig einnig vel, einkum Will Poulter ( We're the Millers , Maze Runner ) sem Bridger, ungur maður sem verður óafvitandi að vitorðsmanni Fitzgeralds í svikunum, og þarf að glíma við samvisku sína. Þá er einnig vert að hrósa tónlist myndarinnar, en hún setur algjörlega réttan blæ á þessa miklu harmsögu. Raunar er erfitt að benda á snöggan blett á þessari kvikmynd. Það eru kannski einna helst hin grimmilegu ofbeldisatriði sem áður var getið sem helst gætu dregið úr ánægju áhorfanda með verkið. Þau eru hins vegar ekki mörg og draga lítið úr heildarmyndinni.

The Revenant er einfaldlega ein af betri kvikmyndum síðasta árs og er auðvelt að mæla með því að verja einni kvöldstund í að upplifa það mikla þrekvirki, sem þrautaganga persóna Hugh Glass og Leonardo DiCaprio er.

Stefán Gunnar Sveinsson

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson