RREC Umfjöllunin í Árbók Rolls Royce-klúbbsins felur í sér að Sigrún Lára má nota vörumerkið RREC með teppum sínum út árið 2016.
RREC Umfjöllunin í Árbók Rolls Royce-klúbbsins felur í sér að Sigrún Lára má nota vörumerkið RREC með teppum sínum út árið 2016.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Trúlega er Rolls Royce eitt þekktasta tákn heims fyrir lúxus, hágæði og ríkidæmi. Því kemur ekki á óvart að eðalvarningur af öllu mögulegu tagi blasir við á hverri blaðsíðu í Árbók Rolls Royce Enthusiasts' Club 2016.

Trúlega er Rolls Royce eitt þekktasta tákn heims fyrir lúxus, hágæði og ríkidæmi. Því kemur ekki á óvart að eðalvarningur af öllu mögulegu tagi blasir við á hverri blaðsíðu í Árbók Rolls Royce Enthusiasts' Club 2016. Þar á meðal er ullarteppi innblásið af Lambatungujökli í Vatnajökli eftir textíllistakonuna Sigrúnu Láru Shanko.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Teppi Sigrúnar Láru Shanko eru hönnuð til að ganga á. Vegna ómótstæðilegrar fegurðar eru þau þó oftar en ekki notuð sem veggteppi til að hægt sé að njóta þeirra sem listaverka,“ segir í inngangi viðtals og umfjöllunar um textíllistakonuna í Árbók Rolls Royce Enthusiasts' Club 2016. Fyrirsögnin er Magic Carpet Ride , sem gæti útlagst sem Ferðalag á töfrateppi. Ullarteppið á myndinni með greininni er innblásið af Lambatungujökli í Vatnajökli, þriggja metra langt og sé því stillt upp sem skúlptúr er eins og það leki niður á gólf. Tvö ár eru síðan innanbúðarmenn hjá eðalbílaframleiðandanum Rolls Royce hrifust af því og öðrum handgerðum teppum Sigrúnar Láru.

Hún er að vonum ánægð með viðurkenninguna og segir mikinn heiður að komast í fyrrnefnda bók sem einungis hampi lúxusvörum. Til gamans og í framhjáhlaupi lætur hún þess getið að sá sem tók viðtalið símleiðis heiti Richard Gibson og sé bæði leikari og rithöfundur. „Frægastur fyrir að leika frakkaklædda Gestapóforingjann með kaskeitið í sjónvarpsþáttunum Allo! Allo! frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar. En það er auðvitað önnur saga,“ segir hún brosandi og lýsir aðdraganda þess að teppið sem og hún sjálf eru til umfjöllunar í árbókinni.

Afþakkaði kurteislega

„Snemma vors 2014 hringdi í mig kona hjá kynningarfyrirtækinu St. James House í London, sem tilkynnti mér að Rolls Royce hefði áhuga á að fjalla um mig og verk mín í Árbókinni 2015. Konan upplýsti að St. James House sæi um allt útgefið efni fyrir Rolls Royce-klúbbinn. Þótt hún hafi verið afar formleg og kurteis, kynnt sig og talað góða ensku með fáguðum hreim, var ég mjög efins, hélt satt að segja að þetta væri bara „Nígeríu-rugl“ eða eitthvað þess háttar, og afþakkaði kurteislega,“ rifjar Sigrún Lára upp.

Henni var þó kunnugt um tilvist St. James House, enda hafði hún búið á Bretlandi í nokkur ár á tíunda áratugnum og vissi að fyrirtækið var virt á sínu sviði. „Ég fór á heimasíðu þess og sá að það hafði séð um ýmsa merkilega viðburði, til dæmis afmæli Elísabetar Englandsdrottningar, og einnig unnið fyrir Rolls Royce og fleiri fræg fyrirtæki. Þótt ég hafi gengið úr skugga að símtalið hefði ekki verið gabb, varð ekki aftur snúið. Þegar sama kona hringdi í mig ári síðar, bar upp sama erindi, nema þá fyrir Árbókina 2016, var auðvitað annað uppi á teningnum hjá mér,“ segir Sigrún Lára.

Lúxusteppi á ferð og flugi

Undanfarin ár hefur hún markaðssett hönnun sína sem lúxusvöru undir merkinu Shanko Rugs og kynnt hana sem slíka víða erlendis, til dæmis svokölluð jöklateppi á sýningunni The Sleep Event , sem haldin var í London fyrir evrópsk lúxushótel í hittifyrra. Í kjölfarið fjallaði The Royal Institute of British Architects afar lofsamlega um teppin og henni var boðið að sýna þau á Hönnunarviku í Flórens á Ítalíu.

„Ég býst við að þessar sýningar og umfjöllunin hafi vakið áhuga Rolls Royce-klúbbsins. Árbókin, sem kom út í desember síðastliðnum, fjallar að stórum hluta um Rolls Rocye-bifreiðar en einnig hvers kyns list og hönnun sem þykir skara fram úr, er send til Rolls Rocye- og Bentley-eigenda víðsvegar um heiminn. Auk þess fá umboðsmenn hana til að sýna eða gefa viðskiptavinum sínum. Umfjöllunin er því gríðarlega góð kynning fyrir mig. Mér er frjálst að nota hana í kynningarefni eða með hverjum þeim hætti sem hún gæti orðið mér til framdráttar. Einnig má ég nota vörumerkið RREC með teppnum út árið 2016,“ segir Sigrún Lára.

Sýning og kokteilboð

Í tilefni af útgáfu bókarinnar var Sigrúnu Láru og manni hennar, Finnboga Rúti Þormóðssyni, boðið í kokteilboð í Saatchy Gallery, einu glæsilegasta listasafni Lundúnaborgar, þann 4. desember. Þau hjónin mættu vitaskuld í sínu fínasta pússi. „Þarna var að vonum mikið um dýrðir, lúxusinn draup af hverju strái ef svo má að orði komast,“ segir listakonan. Tvö teppi hennar, Lambatungujökull og Holuhraun Dagur 19, stóðu keik, bak í bak, í sýningarsalnum, sem og annar eðalvarningur sem kynntur var í árbókinni, t.d. tveggja milljóna króna Silver Cross-barnavagn og annað í þeim dúr.

„Þetta var allt saman heilmikið ævintýri og sannarlega óvænt ánægja,“ segir Sigrún Lára og lætur þess getið að Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafi veitt henni styrk til að standa straum af þessu.

Af teppunum tveimur er það að frétta að þau eru núna til sýnis hjá Reyni Sýrussyni í Sýrusson Hönnunarhúsi. Fyrrnefndur Gibson, sem tók viðtalið fyrir Rolls Royce, lýkur grein sinni á að spá teppum Sigrúnar Láru framtíð sem eftirsóttum safngripum í listaheiminum.

Úr silkimálun í handunnin teppi

• Sigrún Lára Shanko hefur unnið við textíllist í meira en tvo áratugi.

• Hún lærði silkimálun á tíunda áratugnum og rak í samstarfi við vöruhönnuð fyrirtæki með handmálaðar silkislæður og gólfteppi sem unnin voru á svipaðan hátt og rýjamottur, tufting á ensku.

• Sigrún Lára á og rekur hönnunarfyrirtækið Élivogar. Hún hannar og selur gólfteppi undir merkinu Shanko Rugs.

• Teppin eru úr íslenskri ull og innblásin af náttúru og arfleifð landsins, t.d. Íslendingasögunum.

• Sigrún Lára hefur sýnt á fjölda sýninga innanlands og í auknum mæli erlendis, þar sem teppunum er iðulega stillt upp sem skúlptúrum.