Sigurður segist hafa lært það af góðum manni að það er undir honum sjálfum komið að gera þau verkefni skemmtileg sem hann er að vinna við hverju sinni, og að engar áskoranir eru óleysanlegar.
Sigurður segist hafa lært það af góðum manni að það er undir honum sjálfum komið að gera þau verkefni skemmtileg sem hann er að vinna við hverju sinni, og að engar áskoranir eru óleysanlegar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Í byrjun ársins settist Sigurður í forstjórastólinn hjá ÍAV eftir langan starfsferil í byggingargeiranum. Hans bíður ærinn starfi enda verkefnin mörg og víða. Hverjar eru stærstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Í byrjun ársins settist Sigurður í forstjórastólinn hjá ÍAV eftir langan starfsferil í byggingargeiranum. Hans bíður ærinn starfi enda verkefnin mörg og víða.

Hverjar eru stærstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Að láta verkefnin sem við erum að vinna skila ásættanlegum hagnaði.

Hver var síðasta ráðstefnan sem þú sóttir?

Í október var haldin ráðstefna á vegum Verkefnastjórnunarfélagsins undir yfirskriftinni „Verkefnastjórnun alls staðar“. Fyrir mig sem lifi og hrærist í heimi verkefnastjórnunar var gaman að sjá hvernig þessi aðferðafræði hefur breiðst út til allra geira atvinnulífsins.

Hvaða hugsuður hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Minn mentor í starfi var Ríkharður Kristjánsson, verkfræðingur hjá EFLU. Af honum lærði ég margt og m.a. að það er undir mér sjálfum komið að gera þau verkefni skemmtileg sem ég er að vinna að hverju sinni. Einnig að engar áskoranir séu of stórar þannig að þær sé ekki hægt að leysa. Það kom sér vel þegar við byggðum Hörpu.

Hver myndi leika þig í kvikmynd um líf þitt og afrek?

Það yrði líklega fjölskyldufaðirinn Griswold sem Chevy Chase leikur, af tveimur ástæðum. Annars vegar líkist ég honum mjög fyrir hver jól þegar fjölskyldan fer að höggva sér jólatré skammt utan við bæinn. Jafnan er valið of stórt tré sem ekki er hægt troða í gegnum „netgræjuna“ og því ferðast fjölskyldan með það á þakinu eins og Griswold-fjölskyldan gerði svo eftirminnilega í myndinni Christmas Vacation . Svo er hann brosmildur og stutt í fíflaskapinn og það á vel við mig á góðum stundum.

Hvernig heldurðu við þekkingu þinni?

Ég les reglulega fagtímarit og vísindagreinar og sæki fyrirlestra, námskeið og ráðstefnur. Einnig hef ég í gegnum árin haldið fyrirlestra og kennt í HÍ, HR og í Endurmenntun HÍ og það heldur manni við auk þess að vera gefandi og skemmtilegt.

Ég starfa einnig innan Verkefnastjórnunarfélagsins við vottun verkefnisstjóra sem heldur manni líka á tánum.

Ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa, hvert væri draumastarfið?

Ætli það væri ekki að vera leiðsögumaður eða fararstjóri og uppfylla þannig eitt aðaláhugamálið sem er að ferðast bæði um Ísland og um heiminn.

Ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu, hvað myndirðu læra?

Það hlýtur þá að vera leiðsögumannsgráðan. Svo hefur mig lengi langað að læra ítölsku í litlu fjallaþorpi í Toscana þar sem enginn skilur neitt nema ítölsku. Þegar frí væri í „skólanum“ væri hægt að prófa eitthvað af fljótandi framleiðslu svæðisins, baða sig í sól og belgja sig út af pasta.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Varðandi orkuna þá er mikilvægt að stunda líkamsrækt, passa svefninn, borða fjölbreytt og taka lýsi. Innblásturinn sækir maður í hæfilega blöndu af útivist, ferðalögum, þetta faglega sem nefnt er að ofan og andlega næringu með fjölskyldu og vinum. Svo er um að gera að vera bjartsýnn og jákvæður og láta ekki neikvæðu umræðuna, sem of mikið er af í þjóðfélaginu, ná til manns og gera mann að neikvæðum nöldursegg.

Ef þú værir einráður í einn dag, hvaða lögum myndirðu breyta?

Ég myndi breyta stjórnarskránni þannig að við myndum fækka þingmönnum um helming og tvöfalda laun þeirra.

Hin hliðin

Nám: Stúdent frá MS 1985; BSc. í byggingarverkfræði frá HÍ 1989; MSc í byggingarverkfræði frá DTH 1991. B-vottun IPMA í verkefnastjórnun 1997 og A-vottun 2012.

Störf: Verkefnisstjórnun, eftirlit, hönnun o.fl. hjá Línuhönnun 1991-1997. Framkvæmdastjóri verkfræðistofunnar Forverks ehf. 1997-2001. Aðstoðarframkvæmdastjóri verkfræðistofunnar Línuhönnunar hf. (nú EFLA) og sviðsstjóri eftirlits- og framkvæmdasviðs 2001-2005. Fr.kv.stj. Línuhönnunar 2005-2006. Fr.kv.stj. hjá ÍAV við byggingu Hörpu 2006-2011. Framkvæmdastjóri tækni- og þróunarsviðs ÍAV 2012 og mannvirkjasviðs 2013. Forstjóri ÍAV frá 1. janúar 2016.

Áhugamál: Áhugamálin tengjast ferðalögum og útivist af öllu tagi utan lands og innan. Ég hef einnig mikinn áhuga á íþróttum af ýmsu tagi sem ég reyni að stunda eftir megni og svo er ég mikill Liverpool-aðdáandi.

Fjölskylduhagir: Er í sambúð með Þórdísi Kjartansdóttur lýtalækni og eigum við saman 2ja ára dóttur, Þórdísi Láru. Frá fyrra hjónabandi með Kristínu Magnúsdóttur viðskiptafræðingi á ég Bjarka Má og Margréti Evu en bæði eru þau í menntaskólanámi. Einnig á ég tvo fóstursyni, Hjalta Pálsson nema í viðskiptafræði í Róm og Kjartan Pálsson menntaskólanema, en faðir þeirra er Páll Þórhallsson lögfræðingur.