Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Sala Arion banka og nokkurra lífeyrissjóða á umtalsverðum hlut í Bakkavör hefur vakið nokkra athygli í vikunni.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Sala Arion banka og nokkurra lífeyrissjóða á umtalsverðum hlut í Bakkavör hefur vakið nokkra athygli í vikunni. Salan sýnir meðal annars að bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, sem oft eru nefndir Bakkabræður og þá undir jákvæðari formerkjum en í tilfelli Gísla, Eiríks og Helga, virðast vera að ná vopnum sínum. Þeir hafa nú tryggt sér, í samfloti við öfluga fjárfesta, meirihluta í þessu stóra matvælafyrirtæki. Þar eru þeir á heimavelli og ættu að geta gert góða hluti með fyrirtækið á komandi árum.

Þegar rýnt er í tölurnar sést einnig að seljendur eru að tryggja sér verulegan hagnað miðað við bókfært virði hlutanna sem nú skipta um hendur. Taka verður tillit til þess að stærstur hluti þeirra var til kominn vegna skuldauppgörs og endurskipulagningar fyrirtækisins en niðurstaðan er þó til marks um að verðmætum hafi verið bjargað. Tveir stórir lífeyrissjóðir virðast, svo dæmi sé tekið, tryggja sér nærri 5 milljarða í hagnað sem bókfærður verður á þessu ári. Það munar um minna.

Hinu er rétt að halda til haga að fyrir tæpum fjórum árum gerðu bræðurnir þeim sem nú seldu, tilboð um að kaupa hlut þeirra á genginu 0,5. Salan nú fór fram á gengi nærri 2,7 og því ljóst að verðið sem kaupendur voru tilbúnir til að greiða fyrir meirihluta í félaginu hefur ríflega fimmfaldast. Sú staðreynd gefur tilefni til að ætla að það hafi verið rétt ákvörðun hjá sjóðunum að hafna tilboðinu árið 2012.