Árni Grétar Árnason fæddist í Reykjavík 23. júní 1934. Hann lést í bílslysi 13. desember 2015. Foreldrar hans voru Árni Guðmundsson vélstjóri, f. 1904, d. 1988, og Margrét Sigurðardóttir, f. 1902, d. 2006. Systkini Árna Grétars eru Sigríður Dóra, f. 1931, d. 2003, Guðveig, f. 1932, Gunnar Jón, f. 1940, og Rannveig, f. 1942.

Árni Grétar var ókvæntur en bjó um tíma með Þórunni Örnólfsdóttur, f. 1937, d. 2013, foreldrar hennar voru Örnólfur Valdimarsson, f. 1893, d. 1970, og Ragnhildur K. Þorvarðsdóttir, f. 1905, d. 1986. Sonur Árna Grétars og Þórunnar er Þorvarður náttúrufræðingur, f. 15. maí 1960, eiginkona hans er Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur, f. 25. september 1959. Börn þeirra eru Sigríður Þórunn, f. 1995, og Árni Birgir, f. 1998, en eldri synir Soffíu Auðar og fóstursynir Þorvarðar eru Jökull Valsson, f. 1981, og Kolbeinn Soffíuson, f. 1985.

Árni Grétar vann ýmis störf á ævinni, einkum verslunar- og verkamannastörf, síðast hjá Kassagerð Reykjavíkur. Hann var listhneigður, hafði góða söngrödd, spilaði á ýmis hljóðfæri og fékkst við myndlist í frístundum sínum. Hann var enn fremur alla tíð virkur í kristilegu starfi. Síðasta áratug ævi sinnar bjó Árni Grétar í Frumskógum 1, Hveragerði.

Útför Árna Grétars var gerð í kyrrþey að ósk hins látna.

Útför tengdaföður míns, Árna Grétars Árnasonar, fór fram 29. desember síðastliðinn. Hún var gerð í kyrrþey því hann hafði oft látið í ljós þá ósk sína. Árni Grétar lést í bílslysi 13. desember og því vissu margir af andláti hans og óskuðu eftir að fá að fylgja honum. Það var falleg stund í Grensáskirkju þegar fjölskylda og vinir hittust til að kveðja Árna Grétar og félagar úr Karlakórnum Fóstbræðrum gerðu stundina ógleymanlega með fallegum söng og sungu meðal annars lög sem hann hafði sjálfur óskað eftir við þetta tilefni. Árni Grétar hafði spáð í útför sína í nokkur ár, hann var kominn á sín efri ár og hafði glímt við veikindi af ýmsum toga. Dauðdagi hans var þó óvæntur og sár fyrir þá sem eftir sitja eins og alltaf hlýtur að vera þegar slík slys verða. Daginn áður en hann dó áttum við langt samtal í síma sem lýsir honum vel. Þar var hann að segja mér fyrir um hvað ég ætti að kaupa handa barnabörnum mínum, Röskvu og Úlfhildi, í jólagjöf frá honum. Þótt þær væru ekki blóðskyldar honum leit hann á þær sem hluta af sinni fjölskyldu ítrekaði hann við mig og að sjálfsögðu fór ég í einu og öllu eftir fyrirmælum hans. Eftir lát Árna Grétars fundum við heima hjá honum tvær stórar biblíur sem hann hafði merkt barnabörnum sínum, Sigríði Þórunni og Árna Birgi, og ætlaði að gefa þeim í jólagjöf. Þeim var pakkað inn og komið í réttar hendur og verða dýrmæt eign. Árni Grétar var mjög trúaður alla tíð, sótti kirkju og starfaði innan KFUM í mörg ár og eignaðist þar marga góða vini. Annað áhugamál hans var falleg hönnun og bar heimili hans þess merki, þar voru falleg húsgögn og hann gekk alltaf í vönduðum og fallegum fötum þótt fjárráðin væru ekki mikil.

Árni Grétar ræktaði fjölskyldutengslin vel, hringdi svo til daglega og þegar við vorum á leiðinni á milli Hafnar og Reykjavíkur lagði hann áherslu á að við kæmum við hjá sér í Hveragerði og það brást ekki að hann var búinn að leggja fallega á borð fyrir okkur og bauð upp á kaffi og meðlæti. Einnig spilaði hann stundum á gítarinn og söng fyrir okkur, en það gerði hann líka reglulega fyrir vini sína og fyrir vistmenn á Ási í Hveragerði þar sem hann bjó síðustu árin. Það verður skrýtið að fá ekki fleiri símtöl frá honum og keyra fram hjá Hveragerði án þess að koma við í kaffi. Árni Grétar lét afskaplega vel af veru sinni í Ási, tók fram að sér liði vel og vel væri um sig hugsað. Við þökkum starfsfólki Áss kærlega fyrir umhyggjuna og alúðina í hans garð. Blessuð sé minning Árna Grétars.

Soffía Auður Birgisdóttir.

Frá því er leiðir okkar Árna G. Árnasonar lágu fyrst saman er nú langt um liðið. Áttum við í mörg ár einkar ánægjuleg samskipti, er síðar strjáluðust vegna flutninga. Hefði það ekki við fyrstu kynni komið fram, að hann hafði þá um skeið átt við heilsubrest að stríða, hefði það sem best getað farið framhjá mér. Árni var sterkur persónuleiki og þeirrar gerðar, sem ber ekki sinn innri mann, líðan sína eða viðkvæmar tilfinningar utan á sér. Rekur mig ekki minni til að hafa orðið var neinnar þarfar hans til að rifja upp né kvarta vegna áðurnefnds lasleika.

Örvefir og eftirstöðvar andstreymis, áfalla og veikinda eru ekki alltaf öðrum sýnilegar og koma enda hreint ekki öllum við. Í minningarmerku ljóði hvetur skáldið Sigfús Daðason til þess, að þó svo að „mannshöfuðið sé nokkuð þungt, þá skuli menn ganga uppréttir“. Það gerði Árni sannarlega. Og í bókstaflegri merkingu einnig. Hann var hár vexti, myndarlegur á velli, teinréttur og bar sig vel og karlmannlega. Glaðværð og hlýja var í svipnum. Frá honum stafaði hógværð og kurteisi af toga þeirrar lífsreynslurósemi, sem fólk er átt hefur á brattan að sækja oft ber með sér, svo fremi að náð hafi þeim áfanga að „láta ekki baslið smækka sig“, svo leitað sé til Stephans G. eftir orðalagi. Nærvera Árna var sem þar færi maður prýðilegum gáfum og siðviti gæddur, góðviljaður, gegnheill og sáttur.

Rýni ég núna – á þessari „ýlisóttu“ – í mistur liðinna tíma, man ég glöggt, hve við Árni beindum samtölum okkar ávallt fyrst og fremst á mannlegar slóðir, sem skildu eftir sig góðar tilfinningar. Síðast er gamlir vinir hittust – á gangi, blíðviðrisdag í smábæ einum, var brosað jafn breitt og fyrrum, og bar þeim saman um, að gaman væri að fara að stinga nefjum ögn oftar saman á ný. Nákvæmlega svona er nú mín mynd af Árna. Við brotthvarf hans votta ég einkasyni Árna og fjölskyldu einlæga hluttekningu.

Magnús Skúlason.